Strandapósturinn - 01.06.1984, Page 40
hann að Kjós. Tók hann við búforráðum og giftust þau mamma
og hann um haustið. Hef ég þá sögu ekki lengri þar eð Ingibjörg,
systir mín, hefur rakið sínar bernskuminningar í Strandapóst-
inum og er þar engu við að bæta af minni hálfu.
Ég var 16 ára þegar hér var komið sögu og tóku þá við full-
orðinsár, svona hvað úr hverju. Þó vil ég að lokum líta til þeirra
tveggja ára sem afi var forsjá heimilisins. Honum tókst að sjá því
svo vel farborða að ekkert los komst á hagi okkar barnanna,
heldur nutum við skjóls í takmarkalausri fórnfýsi manns sem
veitti af sjálfum sér í kærleika og fórn þó í öllu væri stórt skarð
fyrir skildi við andlát föður okkar, sem engum var auðið að bæta
úr. Á þeim árum var ekki um ekkju- né barnameðlög að ræða,
heldur urðu þeir sem fyrir slíkum raunum og áföllum urðu með
guðs hjálp að axla sínar byrðar sjálfir. Er að framan greint frá
hverjir stóðu að verki við heyöflun og önnur störf þau sem nú
heyra aðeins fortíðinni til en voru þung á höndum aldinna eða
óþroskaðra barna.
Eins og fyrr standa Kjós og Naustvík andspænis hvor annarri
og kinka kolli hvor til annarrar, líkt og í gamla daga. Þó er sá
munur, að nú ber engan að garði að heiðarbænum, enda bærinn
farinn í eyði. Fáir leggja nú lengur leið sína yfir Trékyllisheiði
sem áður var líftaug milli byggðarlaga. Senn fellur með þunga
gleymskan yfir. Reykjarfjörður speglar eftir sem áður í fleti
sínum fagra tinda fjallanna sem er ógleymanlegt þeim sem þess
nutu á æskuárunum í dulmóðu ljúfsárs trega.
Hver einn bcer á sína sögu
sigurljóð og raunabögu.
M.J.
Reykjavík, á Sumardaginn fyrsta 1982.
Sveinsína Ágústsdóttir
frá Kjós.
38