Strandapósturinn - 01.06.1984, Page 71
komu þar ýmsir aðrir við sögu en Magnús sýslumaður Ketilsson.
Ugglaust hefur Halldór sýslumaður haft bæði eitt og annað sér
til málsbóta í þessu efni, eins og til dæmis óhagstæð vetrarveður,
fjarlægð frá strandstað og fleira, en sökum stórlyndis hans og
skapbresta varð honum það eigi til þeirrar réttlætingar fyrir
dómstólum, sem ella hefði mátt verða. Til þess að gera langa
sögu stutta er rétt að ljúka frásögu þessari með ummælum
bróðursonar Halldórs, Jóns sýslumanns og sagnaritara Espólíns,
en þau eru þannig: „Á alþingi 1790 var Halldór Jakobsson
dæmdur af embætti og í bætur stórar í duggumálinu. Lýsti hann
yfir, að hann mundi áfrýja málinu, en þó fékk hann aldrei
framgang til þess.“
Eftir það lifði Halldór embættislaus í tuttugu ár, andaðist þá
félaus með öllu og lá í kör um hríð sína síðustu ævidaga. — Að
sjálfsögðu beið konungsverslunin nokkurt tjón í skipbroti skút-
unnar Fortunu, það er hamingju á Enginesi norður, en langtum
afdrifaríkara varð sjóslysið þó Halldóri sýslumanni Jakobssyni,
sem beið þar skipbrot á lífshamingju sinni, embættisheiðri og
einkalífi. Rættist þannig forspá, er reyndist illspá, Ástríðar
eiginkonu hans, að sú ferð yrði honum til mikils ótíma. — „Falin
er í illspá hverri ósk um hrakför sýnu verri.“
69