Strandapósturinn - 01.06.1984, Blaðsíða 103
mest á fjögra og fimm manna förum. Þetta voru opin áraskip og
voru þessir róðrar stundaðir fyrri part vetrar. Þegar líða tók á
vetur var farið að stunda skurðarróðra og voru þeir aðallega
stundaðir á dekkbátum. Þetta voru litlir bátar 5 til 9 tonn. Ég
nefni hér nokkra þeirra. Skarphéðinn, skipstjóri Hrólfur
Sigurjónsson, 9 tonna bátur, á honum var ég háseti, fór á hann
þegar doggaróðrar hættu en þá byrjuðu skurðarróðrarnir. Geir,
skipstjóri Loftur Bjarnason, 9 tonn. Beta, skipstjóri Magnús
Hannibalsson, 5 tonn. Ebbi, skipstjóri Guðjón Guðmundsson frá
Eyri í Ingólfsfirði. Einum opnum vélbát man ég eftir sem
stundaði skurðarróðra, það var Björg, skipstjóri Guðmundur
Guðmundsson síðar bóndi á Kleifum í Steingrímsfirði. Björg var
4 tonna bátur.
Fleiri bátar réru vertíð og vertíð, en þessir stunduðu
veiðiskapinn ár eftir ár.
Eftir að ég fór að róa fyrir hákarl var róið frá Asparvík. Þaðan
voru doggaróðrar stundaðir og einnig skurðarróðrar meðan
fiskað var innantil í Húnaflóanum. Einnig voru skurðarróðrar
stundaðir frá Hólmavík, Drangsnesi, Gjögri og Ingólfsfirði. Áður
voru Kúvíkur, Gjögur, Finnbogastaðir og Ófeigsfjörður helstu
útgerðarstaðirnir. Helstu miðin voru Rönd, Hyrnur,
Munaðarnesfjall og Drangaskörð.
Doggaróðrar byrjuðu í janúar og stóðu yfir til marsloka. I apríl
byrjuðu skurðarróðrar og stóðu yfir fram í maí. Áður fyrr var
sett reglugerð um hvenær mætti hefja skurðarróðra, það mun
hafa verið þegar áttæringarnir voru aðal hákarlaskipin.
Skurðarróðrar voru að nokkru líkir doggaróðrum, en að flestu
ólíkir. Það var legið fyrir föstu eins og í doggaróðrum, einnig var
færabúnaður og beita alveg eins.
Þegar hákarl var dreginn að bátshlið var tekinn mikill og
flugbeittur fleinn á löngu skafti og hákarlinn stunginn með
honum. Þessi fleinn var kallaður drepur, hann var tvíeggjaður og
allbreiður upp við skaftið en mjókkaði fram í odd. Sá sem stakk
hákarl með drep varð að vera viðbragðssnöggur og viðhafa rétt
handtök, hann varð að skera sundur mænuna í hákarlinum og
101