Strandapósturinn - 01.06.1984, Blaðsíða 159
hinir sem voru að hætta og komu svo rétt á eftir. Þegar við
komum að Kleppustöðum þá var þar kominn unglingspiltur frá
Klúku í Miðdal með hesta fyrir okkur pabba, það hafði verið svo
ráð fyrir gert, sennilegt að pabbi hafi skrifað, annars man ég nú
ekki hvernig það var. En Guðmundur gat fengið hest á næsta bæ,
Kirkjubóli, svo allir gátum við nú hvílt okkur eftir gönguna og
munaði mikið að þurfa ekki að ganga það sem eftir var. Annars
man ég ekki hvort Guðmundur fylgdist með okkur eða við fórum
a undan honum, en þó finnst mér líklegra að við höfum haldið
hópinn. Við fórum nú enga þeysireið eftir að við komum á
hestbak en þó hefur okkur skilað furðu drjúgt því ég man að ég
kom að Heiðarbæ svona nálægt klukkan 8 um kvöldið eða eitt-
hvað eftir miðaftan eða eitthvað þarumbil. Það skildust leiðir
okkar pabba á Heiðarbæjarmelunum, þá fór pabbi þaðan út í
Tangann, svo var hesturinn víst frá Kirkjubóli að ég held. En
unglingspilturinn og ég fylgdumst að Heiðarbæ og svo úr því
stutt leið fyrir hann fram að Klúku. Þá var ég nú kominn úr
verinu aftur eftir lánsama ferð. Daginn eftir ætlaði ég að fara
ofan í Tangann að heilsa mömmu og Eyju systur sem ég líka
gerði.
Eg átti að réttu lagi að eiga frí fyrsta daginn sem ég var heima
eftir að ég kom úr verinu, það var gömul venja, enda voru menn
oft þreyttir eftir löng ferðalög og oft erfið og veitti sannarlega
ekki af því oft og tíðum. Pabbi sagðist alltaf hafa haft það svo.
Þá er ég búinn að lýsa hér fyrstu vesturferð minni, hún er svo
sem ekkert sérstök eða neinn frægðarljómi yfir henni, en aðeins
lítið sýnishorn af lífinu eins og það var fyrir nokkrum áratugum.
Eg skrifa þetta mér til gamans, þó ég hafi nú þurft lengri tíma en
afmælisdaginn minn eins og ég segi í byrjun þessara skrifa. Þegar
maður eldist þá verður það svo fyrir mörgum að þeir eru með
hugann aftur í liðna timanum og verður mörgum ljúft að
minnast þess sem var.
157
L