Saga - 2012, Blaðsíða 25
Nokkrum þjóðum Austurlanda nær er lýst í íslenskum miðalda -
ritum án þess þó að megináhersla sé lögð á trúarlegan mun. Í ítar-
legri heimslýsingu Stjórnar er Arabía sögð „hafandi í sér meira reyk-
elsilegan og jurtarlegan ilm og sætleik en flest lönd önnur“.49 Í Clari
sögu er Arabía sögð „gullauðgast allra jarða undir heimssólinni“.50
Í þessu landi fæðist fuglinn Fönix og „hin ríka drottning […] er kom
að finna konunginn Salomonem“ var þaðan. Í safni ævintýra frá um
1400 er „arabískur maður“ látinn mæla einhverja speki við son sinn
og er greinilega enginn villumaður.51 Fleiri dæmi má nefna um
jákvæð viðhorf í garð Araba; t.d. segir í Clari sögu „af einum mekt-
ugum meistara út í Arabía sem Perus hét að nafni, frábærrar speki
og visku yfir fram alla menn í veröldinni, af hverjum víða er lesið í
bókum — og mörg ævintýr við snertur af sínum listum og klók-
skap“.52 Hvergi er minnst á spámanninn Maumet í tengslum við
þetta heilaga land.
Hvers vegna voru Arabar ekki tengdir við Serki og neikvæðar
hugmyndir um þá? Var það vegna þess að fróðleikur um Arabíu var
ættaður frá klassískum fornaldarritum fremur en kristilegum sagna-
ritum? Í Karlamagnús sögu kemur þó skýrt fram að „Rabitar“ (þ.e.
Arabar) trúa á Maumet og aðra heiðna guði, og í liði heiðingja sem
fylgir skurðgoðinu Maumet á marmaravagni eru „Tarazis og Pers -
anis, Rabitar og Tyrkir og Affrikar“.53
Návist Tyrkja í hópi heiðingja sem fylgdu Maumet hlýtur hins
vegar að hafa valdið Íslendingum heilabrotum enda töldu þeir sig
komna af Tyrkjum. Tyrkir Litlu-Asíu voru nýbúar á þeim slóðum
um 1100 og höfðu lítil söguleg eða menningarleg tengsl við fornöld
Gamla testamentisins eða klassíska landafræði Grikkja og Rómverja.
Málfræðileg tilviljun varð hins vegar til þess að þeir voru tengdir
íslam og andstæður … 23
49 Stjórn, bls. 74.
50 Clarus saga. Clari fabella islandice et latine. Útg. Gustaf Cederschiöld (Lundi: Kgl.
Carolinska universitetet 1879), bls. 5.
51 Islendzk æventyri I. Isländische Legenden, Novellen und Märchen. Útg. Hugo
Gering, 2 bindi (Halle: Verlag der Buchhandlung des Waisenhauses
1882–1883), bls. 172.
52 Clarus saga, bls. 1–2.
53 Karlamagnus saga ok kappa hans, bls. 94, 461. Karlamagnús saga. Branches I, III, VII
et IX, bls. 158. Ekki er ljóst hverjir „Tarazis“ eiga að vera í þessum texta þar
sem hann er öðruvísi í franska kappakvæðinu sem er hin sennilega fyrirmynd.
Sjá nánar Hugo Treutler, „Die Otinelsage im Mittelalter“, Englische Studien 5
(1882), 97–149 (einkum bls. 122).
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:46 Page 23