Saga - 2012, Blaðsíða 189
milli tengdafeðginanna, Franziscu og föður Gunnars, er einnig sagður sorg-
legur (bls. 367). Að lokum má nefna að höfundur telur það bæði „áhugavert
og um leið nokkuð sorglegt“ að það síðasta sem Gunnar frumsamdi hafi
verið uppgjör við Halldór Laxness (bls. 471).
Vitanlega má gagnrýna alla texta. Nokkuð er t.d. um fullyrðingar í verk-
inu sem lesendur þurfa ekki endilega að vera sammála. Þannig segir t.d. í
upphafi þess: „Allir sem skrifa vilja láta taka eftir sér og minnast sín“ (bls.
7). Og nokkru síðar segir: „Þrá fólks í sveitasamfélaginu stefndi í eina átt; að
vera eigin herrar og hefja búskap“ (bls. 19). Staldra má einnig við frásögn af
heimsókn Gunnars og fjölskyldu hans til Berlínar í byrjun árs 1920: „Að -
koman var ömurleg, borgin í sárum eftir stríðið og íbúarnir bjuggu við
neyð“ (bls. 204). Þetta er heldur sterk lýsing í ljósi þess að Berlín, eins og
nánast allir aðrir hlutar Þýskalands, slapp við stríðsátökin. Þá er gefið í skyn
að nasískar bókabrennur hafi farið frekar snemma fram við háskólann í
Heidelberg, eða 17. maí 1933 (bls. 319), þegar það var í raun frekar seint í
samanburði við aðra staði.
Þá eru lesendur oft minntir á að Gunnar hafi verið einn af forvígis-
mönnum nútímans, sannkallaður nútímamaður. Í ljósi þess vekur nokkra
athygli að höfundur virðist stundum nota hugtökin nútími og nútímamaður
sem samheiti yfir samtímann og samtímamenn (sjá t.d. bls. 24, 59, 183, 198,
229, 256, 292). Nokkra staði má síðan finna í verkinu þar sem lesandinn er
skilinn eftir munaðarlaus. Á einum stað er t.d. vikið að því að tiltekin kvæði
eftir Gunnar séu ekki minnisstæð án þess að tilgreint sé hverjum þau séu
ekki minnisstæð (bls. 53). Einnig er þess dæmi að ekki sé sagt frá endalok-
um mála, t.d. meiðyrðamáli Gunnars gagnvart ritstjóra Þjóðviljans 1954 (bls.
430).
Að lokum: Þrátt fyrir mikilvægi Gunnars Gunnarssonar í íslensku sam-
félagi á liðinni öld hafa honum ekki verið gerð viðhlítandi skil í heilstæðri
ævisögu — fyrr en nú. Textinn í þessari nýju bók er einkar vel frágenginn
og sést það m.a. á því að prentvillur finnast varla. Auk þess eru í bókinni á
annað hundrað mynda sem styðja vel við frásögnina. Þetta er því löngu
tímabært verk.
Páll Björnsson
ritdómar 187
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 187