Saga - 2012, Blaðsíða 132
Rit Blefkens kom út árið 1607. Fjórum öldum og ári betur gekk
hann aftur ef svo má segja. Sumarið 2008, rétt fyrir bankahrunið, hélt
prófessor í stjórnmálafræði við London School of Economics því
fram að íslenskt hagkerfi riðaði til falls. „Nú er nýr Blefken kominn
til sögunnar,“ heyrðist þá sagt á Íslandi. Fullyrt var að fræðimaðurinn
þekkti ekki til, kynni ekki skil á staðreyndum og færi með fleipur.4
Í þessum ítardómi velti ég fyrir mér hvort útlendingum sem vilja
rannsaka íslenska sögu og samtíma sé það í raun vonlaust. Til
hliðsjónar hef ég tvo þætti úr nýliðinni fortíð sem vöktu áhuga utan
landsteinanna, annars vegar bankahrunið 2008 og hins vegar
þorskastríðin og landhelgisdeilur við erlend ríki. Sjónum beini ég
einkum að þremur bókum um þessi efni.
Árið 1963, þegar skammt var liðið frá lokum fyrsta þorskastríðs-
ins, birtist fyrsta fræðiritið um það, stutt bók eftir Morris Davis, lek-
tor í stjórnmálafræði við Tulane-háskóla í Bandaríkjun um.5 Davis
hafði dvalist um skeið hér á landi meðan á átökunum stóð. Hann
ræddi við embættis- og stjórnmálamenn en reiddi sig líka á þýðing-
ar bandaríska sendiráðsins á íslenskum dagblöðum. Þær heimildir
mátaði hann við kenningar fræða sinna um ákvarðanatöku í stjórn-
kerfum og komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að almennings-
álit hefði litlu ráðið um þróun landhelgismála á Íslandi og sumir
hagsmunahópar, til dæmis togaraeigendur, hefðu beinlínis verið á
móti útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur árið 1958.6
Efnistökin þóttu nýstárleg, enda voru félagsvísindi lítt eða ekki
stunduð hérlendis á þessum árum. „Við erum eins konar tilrauna-
mýs í kassa og prófessorinn fylgist með hverri hreyfingu,“ skrifaði
Benedikt Gröndal, alþingismaður og ritstjóri Alþýðublaðsins. Bene -
dikt fagnaði áhuga erlendra fræðimanna á íslenskum málefnum en
taldi ályktun Davis um afstöðu almennings út í hött.7 Svipaðra sjón-
armiða gætti í Þjóðviljanum þótt sósíalistar væru í flestum efnum á
öndverðum meiði við jafnaðarmenn í landhelgismálum.8 Á Íslandi
var einfaldlega gengið að því sem gefnu að allir Íslendingar hlytu
að styðja útfærslu lögsögunnar hvenær sem færi gæfist. Vissulega
guðni th. jóhannesson130
4 Hannes Hólmsteinn Gissurarson, „Nýr Blefken“, [http://hannesgi.blog.is/
blog/hannesgi/entry/587992/], 11. júlí 2008. Fræðimaðurinn var Robert Wade.
5 Morris Davis, Iceland Extends Its Fisheries Limits (Oslo: Universitetsforlaget 1963).
6 Sama heimild, bls. 42–45 og 50.
7 Benedikt Gröndal, „Prófessorinn og landhelgismálin“, Alþýðublaðið 23. febrúar
1964.
8 „Takmörk almenningsálitsins“, Þjóðviljinn 12. jan. 1964.
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 130