Saga - 2014, Page 19
og Sveinn Sölvason, lögmaður fyrir norðan og vestan, virðast hins
vegar ekki hafa verið með kálgarða. Fjóra garða í Húnavatnssýslu
má rekja til Bjarna Halldórssonar sýslumanns og jósku bændanna
sem dvöldu hjá honum en marga garðana má einmitt rekja til
erlendu bændanna sem komu hingað til lands vorið 1752 á vegum
Innréttinganna og var einkum ætlað að kenna landsmönnum akur-
yrkju. Þrjá garða í Rangárvallasýslu má rekja til jósks bónda sem
dvaldi hjá Þorsteini Magnússyni sýslumanni á Móeiðarhvoli.26
Einnig voru sýslumenn Árnessýslu og Mýrasýslu hvor með sinn
erlenda bóndann. Einn var í Viðey hjá Skúla Magnússyni landfógeta
og annar í Reykjavík við bú Innréttinganna. Alls komu 14 jóskir og
norskir bændur til landsins vorið 1752 og hefur a.m.k. helmingur
þeirra lagt sig fram um að kenna landsmönnum garðrækt. Flestir
eru sammála um að árangur erlendu bændanna í akuryrkjunni hafi
verið lítill.27 Kristrún A. Ólafsdóttir hefur hins vegar sýnt fram á að
árangur þeirra í garðræktinni var mun betri en í akuryrkjunni og
áhrifin varanlegri.28
Þá eru prófastar og prestar nokkuð áberandi meðal þeirra sem
komu sér upp kálgarði strax á sjötta áratugnum. Af þeim 30 mat-
jurtagörðum sem tilgreindir eru í Ferða bókinni eru alls sjö á prests-
setrum. Þar voru fremstir í flokki séra Björn Halldórsson í Sauð -
lauks dal, séra Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum á Álftanesi og séra
Jón Bjarnason á Ballará á Skarðsströnd sem allir hafa komist í sögu-
bækurnar fyrir atorku sína á sviði garðræktar.29 Nokkra athygli vek-
ur svo frásögn Eggerts af dönsku kaupmönnunum í Múlasýslu, sem
höfðu reynt garðrækt „til heimilisnota sinna“ meðan þeir dvöldust
viðreisn garðræktar
26 Eggert Ólafsson, Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. 2. b., bls.
209–210.
27 Um jósku bændurna sjá Lýður Björnsson, Íslands hlutafélag, bls. 44–45 og 53–54;
Lbs-Hbs. (Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn) Kristrún Auður Ólafs-
dóttir, „Vedvarende omhyggelighed og flid for Islands bedste.“ Viðreisn
jarðyrkju á Íslandi 1750–1780. BA-ritgerð í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1997,
bls. 13–23.
28 Lbs.-Hbs. Kristrún Auður Ólafsdóttir, „Vedvarende omhyggelighed og flid for
Islands bedste,“ bls. 13–23 og 32–33.
29 Sjá t.d. Hildur Hákonardóttir, Blálandsdrottningin og fólkið sem ræktaði kartöfl-
urnar (Reykjavík: Bókaútgáfan Salka 2008), bls. 108–114. Auk þess um Björn
Halldórsson í Sauðlauksdal: Jónas Jónsson, Landbúnaðarsaga Íslands. 4. bindi,
bls. 167–168.
17
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:01 Page 17