Saga - 2014, Page 44
Saga LII:1 (2014), bls. 42–75.
guðmundur hálfdanarson
Var Ísland nýlenda?1
Á síðari hluta 19. aldar skiptu nokkur Evrópuríki stórum hlutum heimsins á
milli sín í svokölluðu nýlendukapphlaupi. Þannig lenti Afríka nær öll og
stórir hlutar Asíu á nokkrum áratugum undir beinum yfirráðum nýlendu-
veldanna. Samhliða þessu þróuðu nýlenduherrarnir kerfi þekkingar um
heiminn, þar sem nýlenduveldunum, „Evrópu“, var lýst sem fulltrúum
siðmenningar og nútíma en nýlendurnar töldust ósiðmenntaðar og því eðli-
leg viðföng evrópskra yfirráða. Hér er fjallað um hvernig Ísland fellur að
þessu kerfi nýlendustefnunnar og um leið hvort hægt sé að nota sjónarhorn
svokallaðra eftirlendufræða til rannsókna á sögu Íslands á síðustu tveimur
öldum.
Þeirri spurningu hefur verið hreyft á undanförnum árum, þótt hún
hafi lítið verið rædd með formlegum hætti meðal íslenskra sagn -
fræðinga, hvort Ísland hafi verið dönsk nýlenda á árum áður.2 Þar
gætir örugglega áhrifa frá rannsóknum innan flestra greina hug- og
félagsvísinda á síðustu áratugum á arfleifð evrópskrar nýlendu-
stefnu og hlut hennar í sköpun sjálfsmynda í fyrrverandi nýlendum
og nýlenduveldum. Bakgrunnur þessara rannsókna — sem oft eru
settar undir sameiginlegan hatt eftirlendufræða (e. postcolonial
studies) — er margþættur, en þær snúast flestar á einhvern hátt um
að afbyggja valdaafstæður og orðræðuhefðir nýlendustefnunnar
1 Þessi grein er byggð á greininni „Iceland Perceived: Nordic, European or a
Colonial Other?“ sem mun birtast í ritgerðasafninu The Postcolonial North
Atlantic: Perspectives on Iceland, Greenland and the Faroe Islands. Ritstj. Lill-Ann
Körber og Ebbes Volquardsens (Berlín: Nordeuropa-Institut der Humboldt-
Universität). Báðar greinarnar voru unnar í tengslum við rannsóknarverkefnið
„Danmörk og hið nýja Norður-Atlantshaf“, sem styrkt er af EDDU öndvegis-
setri við Háskóla Íslands, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Carlsberg-
sjóðnum.
2 Sjá þó Halldór Bjarnason, The Foreign Trade of Iceland, 1870–1914: An Analysis
of Trade Statistics and a Survey of its Implications for the Icelandic Economy
(doktorsritgerð við Glasgowháskóla 2001), bls. 368–374. Þar líkir hann verslun
danskra kaupmanna á Íslandi á síðari hluta 19. aldar við versl unar tengsl evr-
ópskra nýlenduvelda við nýlendur sínar og dregur af því þá ályktun að í efna-
hagslegu tilliti hafi Ísland verið dönsk nýlenda.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:01 Page 42