Saga - 2014, Qupperneq 50
48
sofið hefir í nokkur hundruð ár, og nú hefir vaknað upp við hlið
Danmerkr“.21
Í ævisögu Jóns Sigurðssonar kveður Páll Eggert Ólason upp
þann dóm að Jón hafi haft algeran sigur í þessari deilu, enda hafi
málstaður Larsens verið afspyrnuvondur. „Það má þykja furðu
gegna,“ skrifar Páll Eggert, „að jafnsamvizkusamur maður, skarp-
skyggn og lærður sem Larsen skyldi geta látið nafn sitt undir
ritsmíð þessa og birta hana við hátíðlegt tækifæri.“22 Málið var
auðvitað ekki svo einfalt,23 en það skiptir þó ekki öllu máli hér hvort
annar þessara deilenda hafði rétt fyrir sér — og þá hvor þeirra —
eða hvorugur, né heldur hver „raunveruleg“ staða Íslands var eftir
fall einveldisins. Mikilvægara er að danski lagaprófessorinn og
íslenska sjálfstæðishetjan buðu upp á tvo möguleika á að túlka stöðu
Íslands gagnvart Danmörku. Þar með vísuðu þeir á tvær ólíkar
leiðir fyrir Ísland inn í nútímann, þ.e. annaðhvort sem einn hluta af
dönsku alríki (d. Helstat) eða sem sérstakt og sjálfstætt íslenskt
þjóðríki. Báðar þessar leiðir voru í fullu samræmi við það sem var
að gerast í álfunni um og eftir miðja 19. öld, þar sem samsett ríki
ýmist leystust upp í frumparta sína eða runnu saman í samstæð
þjóðríki. Einnig er athyglisvert að þótt Larsen og Jón hafi verið á
algerlega öndverðum meiði um hvernig best væri að þýða hið óljósa
og síkvika hugtakakerfi danska einveldisins yfir á nútímamál þjóð -
ríkisins leit hvorugur þessara herramanna á Ísland sem ný lendu,
a.m.k. ekki í 19. aldar merkingu þess orðs. Samkvæmt skilningi
Larsens höfðu Danir lagalegan rétt til, um leið og hann taldi það
efnahagslega hagkvæmt fyrir Íslendinga, að halda Íslandi. Ísland
átti þó alls ekki að verða lægra sett í ríkisheildinni en kjarnalandið,
heldur yrði það fullgildur hluti alríkisins og íbúarnir fullir þátttak-
endur í hinu nýja lýðræðislega og stjórnarskrárbundna konungsríki.
Jón leit aftur á móti á Ísland sem sérstakt sambandsland eða sjálf -
guðmundur hálfdanarson
21 „„Norsk Folkeblað“ 24. apríl 1869“, Þjóðólfur 17. júní 1869, bls. 137–139 (til-
vitnun á bls. 138). Þetta var þýðing á grein Bjørnsons sem birtist upphaflega í
Norsk Folkeblad 24. apríl 1969.
22 Páll Eggert Ólason, Jón Sigurðsson III Andþóf 1851–9 (Reykjavík: Hið íslenzka
þjóðvinafélag 1931), bls. 173.
23 Sjá Sigurður Líndal, „Retshistorie og politik. Om Islands statsretslige stilling
1262–1662“, Tidsskrift for retsvitenskap 86 (1973), bls. 590–611; Björg Thoraren -
sen, „Þjóðréttarleg umgjörð sjálfstæðisbaráttunnar“, Jón Sigurðsson. Hugsjónir
og stefnumál. Tveggja alda minning. Ritstj. Jón Sigurðsson (Reykjavík: Hið
íslenska bókmenntafélag 2011), bls. 53–66.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:01 Page 48