Saga - 2014, Síða 54
52
sem nýlendu.36 Nýlendubúar í þessari merkingu voru, svo vitnað sé
til enska landfræðingsins Denis Cosgroves, „fólk frá upprunalegum
heimkynnum [home dwelling] í nýju náttúrulegu umhverfi“. Í flest-
um tilvikum þurftu slíkir nýlendubúar að kljást við „frumbyggja“,
eða þá sem bjuggu fyrir í hinu „ónumda“ landi. Í þeim samanburði
litu hinir nýju nýlendubúar á sig sem fulltrúa siðmenningar, eða
mennskunnar og menningarinnar, á meðan frumbyggjarnir lifðu
enn við náttúrulegar aðstæður, rétt eins og dýr merkurinnar. Ný -
lendan var þannig eins konar framlenging eða útvörður uppruna-
landsins en ekki andstæða þess.37 Í upphafi var evrópsk nýlendu-
stefna — sem hófst með landafundum Portúgala og Spán verja
nálægt lokum 15. aldar og yfirráðum Evrópubúa, einkum í Ameríku
á 16. og 17. öld og síðar í Eyjaálfu og á ákveðnum svæðum Asíu —
svipaðs eðlis, en smám saman tók merkingarblær hugtaksins að
breytast.38 Nýju nýlendurnar voru reyndar með ýmsu móti í fyrstu
— sums staðar byggðust þær á landnámi Evrópumanna (landráni
væri kannski réttara að kalla það), eins og í Norður-Ameríku og
Eyjaálfu, en annars staðar á kúgun fámennrar evrópskrar yfirstétt-
ar á frumbyggjum og innfluttum þrælum. Það sem einkenndi fyrsta
stig nýlendutímans var þó að yfirburðir Evrópubúa í hernaði voru
víðast hvar tiltölulega litlir og möguleikar þeirra til yfirráða á stærri
svæðum því takmarkaðir. Fram á 19. öld réðu þeir t.a.m. aðeins yfir
nokkrum verslunarstöðvum á ströndum Afríku, en áhrif þeirra
náðu annars lítt inn í álfuna.39 Þetta ástand breyttist algerlega með
guðmundur hálfdanarson
36 Grímur Thomsen, Om Islands Stilling, bls. 6.
37 Denis Cosgrove, Appolo’s Eye. A Cartographic Genealogy of the Earth in the
Western Imagination (Baltimore: Johns Hopkins University Press 2001), bls.
20–22.
38 Í Fréttum frá Fulltrúa-þínginu í Hróarskeldu er hugtakið nýlenda skýrt þannig að
nýlendur séu „eginlega lönd þau, heruð eða borgir, sem byggðar eru frá öðru
landi svo sögur fari af, og hafa opt verið frjálsar, einsog til að m. Ísland var
fram til 1264; en á seinni öldum hafa margar þjóðir með rangindum undirokað
nýlendur sínar, einkum verzlun þeirra, og sú var ein af höfuðorsökunum að
fríveldi Vesturálfunnar brutust undan Englandi“ („Um verzlun Íslendínga“,
Fréttir frá Fulltrúa-þínginu í Hróarskeldu 1 (1840), bls. 3–24; tilv. tekin af bls.
9nm). Höfundar orðanna er ekki getið í greininni, en geta má sér þess til að
þau séu skrifuð af Jóni Sigurðssyni sem var, samkvæmt einum ævisöguritara
hans, „potturinn og pannan í þessari útgáfu“ (Guðjón Friðriksson, Ævisaga I
(Reykjavík: Mál og menning 2002), bls. 204).
39 Sbr. Hart, Empires and Colonies, bls. 19–170; A. Adu Boahen, African Perspectives
on Colonialism (Baltimore: Johns Hopkins University Press 1989), bls. 1–26.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 52