Saga - 2014, Page 64
62
hann þegar birt þrjár ferðabækur fyrir Íslandsförina — hin fyrsta var
lýsing á heimsókn hans til Egyptalands og Núbíu (1873), önnur lýsti
ferðalagi með lest frá París í gegnum Síberíu og Mongólíu til
Peking borgar (1877)79 og hin þriðja ferð hans til Antillaeyja í Karíba -
hafinu (1878).
Pauvre Islande fylgdi sama mynstri og fyrri ferðabækur Meignans,
eins og óþekktur ritdómari benti á í franska bókmenntatímaritinu Le
Livre. Sagði hann í stuttum dómi um bókina að Meignan hefði yndi
af því að „fara um þau lönd sem eru mest úr alfaraleið og eru af
þeim sökum meðal hinna áhugaverðustu bæði vegna þess hversu
erfitt er að ferðast um þau og vegna einkennilegra siða landsmanna,
sem hafa“, eins og hann orðar það, „viðhaldist án tengsla við
siðmenningu okkar“.80 Pauvre Islande reyndist síðasta ferðabók
Meignans, og það mætti túlka þannig að honum hafi þótt að með
Íslandsförinni væri ferðalögum sínum til „framandi“ landa lokið og
hann hafi því einfaldlega ekki haft frá fleiru að segja.
Meginhugsun Meignans með ferðabókunum virðist einmitt hafa
verið sú að lýsa fyrir löndum sínum því sem honum fundust
óvenjuleg samfélög. Snemma í fyrstu bókinni skýrir hann t.a.m.
hvers vegna hann sneiddi framhjá bæði Alexandríu og Kaíró á
ferðalagi sínu til Egyptalands; fyrri borgin var ekki áhugaverð
vegna þess að hún var orðin „næstum því evrópsk“ (presque euro-
péenne) og hin síðari vegna þess að hún „glatar dag frá degi aust-
rænum einkennum sínum“.81 Bækur hans voru undir augljósum
áhrifum frá heimsvaldastefnu 19. aldar, því að hann gerir víða mikið
úr meintum andlegum yfirburðum Evrópumanna (og þá einkum
Frakka) yfir fólk frá öðrum menningarsvæðum. Þannig eyðir
Meignan umtalsverðum hluta bókar sinnar um Antillaeyjar í að lýsa
ávinningi af þrælahaldi, ekki aðeins fyrir þrælahaldarana heldur
einnig þrælana sjálfa.82 Upphaflega hafði þetta óhamingjusama fólk,
skrifar hann um svarta þræla á eyjunum, verið frelsað frá „villi -
mannlegum húsbændum“ sínum í Afríku og sett undir „siðvædda
húsbændur“ frá Evrópu í „Nýja heiminum“. Undir stjórn hvítra
þrælaeigenda „voru svertingjarnir … smám saman siðvæddir, og
guðmundur hálfdanarson
79 Victor Meignan, De Paris à Pékin par terre. Sibérie — Mongolie (Paris: E. Plon
1877).
80 „Gazette bibliographique“, Le Livre: Revue du monde littéraire 10 (1889), bls. 471.
81 Victor Meignan, Après bien d’autres, bls. 4–5.
82 Victor Meignan, Aux Antilles (París: E. Plon 1878), bls. 31–48 og víðar.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 62