Saga - 2014, Síða 72
70
honum myndu Íslendingar sanna fyrir öðrum „að hér er þjóð, sem
hefir fullkominn tilverurétt og fullan rétt til þess að gera alt það sem
hún óskar sér“, svo vitnað sé til orða sem Bjarni Jónsson frá Vogi lét
falla á þingi vorið 1911. Því „hefir líka verið barið inn í þjóðirnar
öldum saman,“ hélt hann áfram, „að hér byggju ekki aðrir en skræl-
ingjar, af því skrælingjar búi í Grænlandi. Þegar háskólinn er kominn
á stofn, munum við losna úr Atlantshafseyjafélaginu.“112 Stofnun
forngripasafns og háskóla var því táknræn yfirlýsing um að Íslend-
ingar væru evrópsk þjóð og engir nýlendubúar.
Var Ísland nýlenda?
Ekki er til nein ein og algild skilgreining á hugtakinu nýlenda og
merking þess hefur verið á reiki í aldanna rás. Svarið við spurning-
unni í titli greinarinnar hlýtur því að taka mið af afstöðu þess sem
svarar. Flest mælir þó á móti því að tala um Ísland sem danska
nýlendu á 19. öld, því að staða landsins í ríkinu og þróun sam-
bandsins á milli Íslands og Danmerkur braut algerlega í bága við
það sem almennt tíðkaðist í samskiptum evrópskra stórvelda við
nýlendur sínar á þessum tíma. Dönskum stjórnvöldum virðist
þannig ekki hafa dottið annað í hug en að Íslendingar skyldu njóta
sömu réttinda og danskir íbúar ríkisins, ólíkt því sem gerðist á
yfirráðasvæðum ríkisins þar sem íbúarnir töldust ekki tilheyra „evr-
ópskum kynþáttum“ (þ.e. Grænlandi og dönsku Vestur-Indíum).
Reglan um „stjórn mismunar“ gilti því ekki á Íslandi. Þegar grannt er
skoðað var stjórnmálaþróun á Íslandi líka mjög svipuð því gerðist
víða um Evrópu við upplausn einvaldra konungsríkja á 19. öld og á
fyrri hluta hinnar 20., þar sem lönd klufu sig frá fyrrverandi
herraþjóðum með tilvísun í sérstakt þjóðerni. Á sama hátt og Írar,
Finnar, Norðmenn, Tékkar og Pólverjar, svo nokkur dæmi séu
nefnd, kröfðust Íslendingar og fengu sjálfstjórn í eigin þjóðríki.
Svipað má segja um enn eldri tíma, því að stjórn Danakonungs
á Íslandi á dögum einveldis var allt annars eðlis en nýlendustjórn
Evrópubúa í „Nýja heiminum“. Markmið einveldisstjórnarinnar var
að samþætta fjölbreyttar lendur konungs í tiltölulega einsleitt ríki,
með sæmilega miðstýrðu stjórnkerfi — þ.e., með orðum dönsku
guðmundur hálfdanarson
112 Alþingistíðindi 1911 B II (1911), d. 596; Guðmundur Hálfdanarson, „Embættis -
mannaskólinn 1911–1961“, Aldarsaga Háskóla Íslands 1911–2011. Ritstj. Gunnar
Karlsson (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2011), bls. 17–282, einkum bls. 57–59.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 70