Saga - 2014, Page 75
73
Þetta rímar vel við það sem lesa má úr lýsingum 19. aldar ferða -
mannanna sem vísað var til að ofan. Þeim varð mjög tíðrætt um
andstæðurnar á milli villtrar náttúru Íslands og evrópsks menning-
arlandslags, og þessar andstæður mögnuðu greinilega þann mun
sem þeir þóttust skynja á milli Íslendinga og landa sinna á megin-
landi Evrópu. Oslund bendir einnig á að með því að staðsetja Ísland
á jaðri hins byggilega heims hafi ferðamenn fundið sér eins konar
kontrapunkt við evrópska sjálfsmynd, og vísar þar til kenninga
norska mannfræðingsins Fredriks Barths: „sjálfsmyndir mótast á
landamærum, þar sem mismunur sést hvað skýrast“.119 Lýsing
Íslands sem framandlegs lands í ferðabókum 19. aldar þjónaði þar
með þeim tilgangi að draga fram það venjulega í „Evrópu“, á
svipaðan hátt og lýsingar „orientalista“ á Austurlöndum sem — ef
marka má greiningu Edwards Saids — snerust fyrst og fremst um
að treysta vestrænar sjálfsmyndir. Því má segja að Ísland hafi leikið
hlutverk nýlendu í orðræðunni — þó ekki endilega nýlendu ein-
hvers sérstaks nýlenduveldis, heldur var landið viðfang sömu
orðræðuhefða og evrópskar nýlendur í „þriðja heiminum“.
Að síðustu er athyglisvert að sjá að þörfin fyrir að staðsetja
Ísland á jaðrinum, eða sem andstæðu hins venjulega, virðist enn
vera fyrir hendi. Karen Oslund tekur þannig ekki fyllilega undir þau
orð bandaríska mannfræðingsins Pauls Durrenbergers að Ísland
nútímans sé alls ekki framandi land. „Það hefur rafmagn“, bendir
Durrenberger á, „upphituð íbúðarhús og bíla og strætisvagna. Það
hefur símakerfi sem virkar og stórmarkaði og rafknúnar mjaltavélar
og dráttarvélar. Fólk býr í blokkum eða nútímalegum einbýlishús-
um, Íslendingar nota greiðslukort, hraðbanka og litasjónvörp. Með
örfáum undantekningum er íslenska stafrófið nákvæmlega eins og
það enska. Ísland er að öllu leyti nútímalegt land.“120 Á Oslund er
helst að skilja að nútímalegur svipur íslensks samfélags blekki
útlenda gesti, eða sé eins konar leiktjöld sem hylji framandleikann
undir nútímalegu yfirborði. „Arkitektúrinn og hljóðin í Reykjavík
var ísland nýlenda?
119 Sama heimild, bls. 7; hér er vísað til klassískrar greiningar Barths á hlutverki
landamæra (e. borders) í mótun þjóðernishópa (Fredrik Barth, „Ethnic Groups
and Boundaries“, Process and Form in Social Life. Selected Essays of Fredrik Barth
I (London: Routledge and Kegan Paul 1981), bls. 198–227. Greinin birtist fyrst
árið 1969).
120 E. Paul Durrenberger, Icelandic Essays. Explorations in the Anthropology of
Modern Life (Iowa City: Rudi Publishing 1995), bls. 3–4; sbr. Karen Oslund,
Iceland Imagined, bls. 26–27.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 73