Saga - 2014, Page 87
85
íslenska valdastétt haldi sínum fornu réttindum og að völd alþingis
gagnvart konungi séu óskert. Í þessu samhengi virðist andóf gegn
sýslumönnum og lénsmönnum sem taki völd sín á leigu tengjast
almennu andófi gegn öllum nýmælum af hálfu konungs og vald -
stjórnarinnar. Þessi krafa kemur hins vegar aftarlega í skjalinu og af
því mætti hugsanlega ráða að hún hafi ekki verið forgangsmál.
Í þessu samhengi skiptir máli hverjir stóðu að Skálholtssamþykkt
en í skjalinu sjálfu kemur einungis fram að hún sé samþykkt „allra
bestu manna og almúgans á Íslandi“ sem hafi komið saman í Skál -
holti á Þorláksmessu að sumri (20. júlí).27 Í ljósi þess að vísað er til
„bestu manna“ er eðlilegt að gera ráð fyrir að hún hafi verið gerð í
samvinnu við innlenda valdsmenn á þessum tíma, árið 1375, og
þeim hafi verið falið það verkefni að koma henni á framfæri við
konung. Lögmenn á Íslandi voru þá tveir, Ormur Snorrason frá
Skarði og Þorsteinn Eyjólfsson frá Urðum í Svarfaðardal. Ormur var
meðal þeirra sem fylgdu Smiði Andréssyni í Grundarbardaga en
Þorsteinn var einn af forystumönnum Eyfirðinga og því væntanlega
meðal helstu andstæðinga Smiðs. Eftir bardagann var Þorsteinn
hnepptur í varðhald í Noregi en leystur úr haldi og sendur til Íslands
sem hirðstjóri og lögmaður ásamt öðrum Eyfirðingi, Ólafi Péturs -
syni. Aðkoma þessara fornu andstæðinga úr Grundarbardaga að
Skálholtssamþykkt bendir til þess að hann hafi ekki verið sérstök
forsenda samþykktarinnar heldur endurspegli hún það sem ís -
lenskir höfðingjar gátu náð samkomulagi um á þessum tíma.28 Því
má ætla að meðal þeirra hafi ekki verið neinn sérstakur stuðningur
við leigufyrirkomulagið og því ofmælt að menn hafi litið á það sem
sérstaka tekjulind.29
ísland til leigu
27 DI IX, bls. 14.
28 Randi Wærdahl tengir skjalið við hyllingu Hákonar konungs árið 1377 og telur
það vera „et utkast over de krav islendingene var blitt enige om å stille til kong
Håkon VI i forbindelse med hyllingen“, sjá Randi Wærdahl, Norges konges rike
og hans skattland, bls. 133.
29 Lengi hefur verið talið, með vísun til dæma frá 16. öld, að hagnaður konungs
hafi verið mestur af reikningsskilalénum en aðalsmenn hafi frekar kosið
leigulén eða svokölluð þjónustulén, sjá Rolf Fladby, Fra lensmannstjener til
Kongelig Majestets Foged (Oslo: [s.n.] 1963), bls. 21. Þetta er þó ekki einhlítt, sbr.
Harry Christensen, Len og magt i Danmark 1439–1481. De danske slotslens
besiddelses forhold analyseret til belysning af magtrelationerne mellem kongemagt og
adel. Med særlig fokus på opgøret i slutningen af 1460’erne (Aarhus: Universitets -
forlaget í Aarhus 1983), bls. 24–27.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 85