Saga - 2014, Page 93
91
Smiður lét taka Árna af lífi og kemur fram í Annál Flateyjarbókar að
honum hafi verið gefið að sök líflát Markúsar barkaðs árið 1360.
„Bauð Árni öll þeirra mál fram til konungs ok þó Smiðr vildi hann í
fangelsi hafa, hvað er Smiðr vildi með engu móti hans þau boð hafa
ok lét höggva hann í Lambey.“53 Brot Árna virðist hafa falist í því að
hafa gengið hratt fram í því að dæma og lífláta Markús og þar með
hirt sakeyri sem annars hefði runnið til næsta hirðstjóra, þ.e. Smiðs.54
Frásögn Gottskálksannáls styður þetta, en þar segir að Árni „hafði …
áðr boðit sig til Noregs á kóngs fund at standa honum reikning um
þat er hann átti at svara. Vildi Smiðr þat ekki heyra.“55
Það er ljóst að innheimta sakeyris var meginástæðan fyrir deilum
Smiðs Andréssonar og Árna Þórðarsonar. Sömuleiðis má tengja
ágreining Smiðs við Norðlendinga við samblástur þeirra gegn Jóni
Guttormssyni á meðan hann var hirðstjóri og þá væntanlega vegna
innheimtu hans á sköttum og sakeyri. Það sem virðist hafa valdið
deilum voru óskýr mörk á milli hirðstjóranna sem skiptu Íslandi á
milli sín 1357. Einn þeirra, Þorsteinn Eyjólfsson, hafði komið til
Íslands vetri á undan hinum þremur, sem urðu skipreika á Hjalt -
landi. Þegar þeir héldu af stað höfðu Hjaltar dæmt Jón Guttormsson
„til Noregs á kóngs miskunn“ og hann tafðist því enn frekar og
virðist hafa komið seinna til Íslands en félagar hans tveir, en þó á
sama ári.56 Möguleikar hirðstjóranna til fjáröflunar hafa því verið
misjafnir og Jón hugsanlega goldið þess að mæta seinastur til leiks.
Á hinn bóginn er ekkert við þessa atburðarás sem bendir til þess að
leigufyrirkomulagið sjálft hafi valdið deilum. Hið sama virðist gilda
um mál þeirra Árna Þórðarsonar og Smiðs Andréssonar. Kjarni þess
virðist vera reikningsskapur Árna vegna Barkaðarmála, en slíkur
ágreiningur hefði getað komið upp hvort sem hirðstjóri hefði tekið
landið á leigu eða fengið fastan hlut í sakeyri með reikningsskilum.
Samskipti íslenskra valdsmanna og ágreiningur þeirra á milli
virðist hafa snúist um aðra þætti en sjálft leigufyrirkomulagið, enda
var skýringanna á því ekki að leita á Íslandi heldur í Noregi. Það var
ísland til leigu
53 Islandske Annaler, bls. 408. Hér fylgjast Lögmannsannáll og Annáll Flateyjar -
bókar ekki að því að í hinum fyrrgreinda segir einungis: „Item lét Smiðr af slá
Árna Þórðarson fyrir alþingi“, Islandske Annaler, bls. 279.
54 Sjá Einar Bjarnason, „Árni Þórðarson, Smiður Andrésson og Grundar-Helga“,
bls. 97.
55 Islandske Annaler, bls. 359.
56 Sama heimild, bls. 357.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 91