Saga - 2014, Blaðsíða 97
95
Í Annálabroti frá Skálholti segir á sama ári, 1372, frá endalokum
Smiðsmála og útkomu „Andrés bónda með hirðstjórn um allt
landit“.66 Andrés Sveinsson var að öllum líkindum sunnlenskur
höfðingi og markar hirðstjórnartímabil hans töluverð tímamót. Í stað
þess að valdsmenn skiptust á að fara með hirðstjórn um skamman
tíma, oft nokkrir samtímis, tók við langt tímabil þar sem einn og
sami maður fór með þetta embætti, fyrst Andrés Sveinsson (1372–
1387) en síðan Vigfús Ívarsson (1390–1413), sonur Ívar hólms.67 Báðir
þessir menn komu úr hópi Sunnlendinga sem virðist hafa haft betur
í togstreitunni um æðstu völd í konungs nafni.
Hér má sjá allmikla stefnubreytingu af hálfu konungs, sem setja
má í samhengi við Skálholtssamþykkt og kröfur Íslendinga þar. Þær
snúast ekki síst um að festa sé á stjórn landsins og að ekki sé stöðugt
verið að stefna hirðstjórum og sýslumönnum úr landi. „Útanstefn -
urnar“ eru það lykilatriði sem Íslendingar setja á oddinn í sam þykkt-
um og bænaskjölum til konungsvaldsins, allt frá Gamla sáttmála.
Skálholtssamþykkt virðist hafa borið árangur. Hákon konungur
og ráðgjafar hans viku frá stefnu Magnúsar Eiríkssonar og treystu
framvegis á sömu umboðsmenn ár eftir ár um langt skeið, allt fram
á daga Kalmarsambandsins.68 Að sumu leyti er þetta hliðstæð
stefnubreyting og varð hjá konungsvaldinu eftir 1319 og afleiðingin
var sú sama; mótmælum Íslendinga linnti. Þessi fylgni er athyglis -
verð þó að hún segi ekki alla söguna um orsakasamhengi.
Það er áhugavert að þegar Skálholtssamþykkt var gerð fóru
keppinautarnir Ormur Snorrason og Þorsteinn Eyjólfsson með
embætti lögmanns. Því má jafnvel skilja samþykktina sem viðleitni
ísland til leigu
66 Islandske Annaler, bls. 229.
67 Á milli þeirra gegndi embætti Eiríkur Guðmundsson en hann var veginn 1388,
sjá Islandske Annaler, bls. 365–366 og 415–416.
68 Þessi breyting var þó ekki sjálfsögð því Andrés Sveinsson þurfti að koma með
endurnýjað umboð frá konungi, a.m.k. 1381 og hugsanlega oftar; Islandske
Annaler, bls. 282 og 412–413. Axel Kristinsson telur að um þessar mundir hafi
embætti hirðstjóra orðið sérstakt stjórnsýslustig, hann varð „að landstjóra sem
var settur yfir sýslumenn — hafði konungsvald. Með þessari breytingu á
yfirstjórn landsins fjölgar sennilega sýslumönnum og þeir renna saman við
lénsmenn þar sem báðir heyra nú beint undir hirðstjóra“, sjá Axel Kristinsson,
„Embættismenn konungs fyrir 1400“, bls. 145. Randi Wærdahl, Norges konges
rike og hans skattland, bls. 232–233, bendir hins vegar á að einungis konungur
hafi skipað sýslumenn og að þeir hafi áfram stjórnað í umboði konungs en ekki
hirðstjóra. Sbr. einnig Sigríður Beck, I kungens frånvaro, bls. 69.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 95