Saga - 2014, Page 168
166
Stundum gætu lesendur bókarinnar líka freistast til að saka
Steingrím um sjálfshól.69 „Næstum jafn frægur og Ólafur Ragnar,“
skrifaði fréttamaður mbl.is í hæðnistón um þá frásögn hans, sem
draga mátti í efa, að nafn hans fyndist næstum eins víða á netinu og
nafn forsetans.70 Stundum er gagnrýnin þó ósanngjörn. Í bókinni leyf-
ir Steingrímur sér að lýsa því mikla álagi sem á honum var, með
fundum frá morgni til kvölds, engu fríi að heitið gæti og sífelldu sam-
viskubiti yfir að sinna fjölskyldunni ekki betur.71 Sama gerði Jónína
Leósdóttir í frásögn af önnum Jóhönnu sinnar og ekki hefur verið
fundið að því. Þess gætir hins vegar að Steingrímur sé sakaður um
kveifarskap og sjálfsvorkunn.72 Kyn hlýtur að ráða miklu um tví -
skinnunginn. Konan þarf hvíld en karlinn á að standa sig. – Reyndar
kyndir Steingrímur sjálfur undir karlmennskuímyndinni í minning-
um sínum ef út í það er farið, segist „þrjóskari en andskotinn“, hann
hafi verið á sjó og unnið öll störf til sveita.73 Sá andi svífur yfir vötnum
í bókinni. Í verkin skal gengið, af karlmennsku og krafti.
Að lokum verður að geta þess að þótt Björn Þór Sigbjörnsson sé
ritfær og bókin vönduð þá veldur ákafi söguhetjunnar að sanna mál
sitt með tölulegum upplýsingum því að textinn verður á köflum
þurr. Lesendum verður jafnvel hugsað til Fjármálatíðinda eða
Hagtalna mánaðarins.74 Málsnilld og meitlað orðafar geta ráðið meira
um það hvort lesendur hrífast en það sem höfundur hefur fram að
færa. Þannig hefur því verið haldið fram að þótt náttúruvalskenn-
ing Charles Darwins hafi staðist tímans tönn hafi hún hlotið eins
mikla athygli í upphafi og raun bar vitni að nokkru leyti vegna þess
hve ritfær Darwin var.75
guðni th. jóhannesson
69 Sjá t.d. sömu heimild, bls. 151, 175 og 183.
70 Baldur Arnarson, „Næstum jafn frægur og Ólafur Ragnar“, mbl.is 5. nóvember
2013. Sjá einnig Björn Þór Sigbjörnsson, Steingrímur J, bls. 271; Friðjón R.
Friðjónsson, „Nei Steingrímur, Ólafur vinnur eins og venjulega…“, Pressan 6.
nóvember 2013, http://blog.pressan.is/fridjon/2013/11/06/nei-steingrimur-
olafur-vinnur-eins-og-venjulega/.
71 Björn Þór Sigbjörnsson, Steingrímur J, einkum bls. 28 og 276.
72 Baldur Arnarson, „Næstum jafn frægur og Ólafur Ragnar“, mbl.is 5. nóvember
2013. Sjá einnig athugasemdir við fréttina.
73 Björn Þór Sigbjörnsson, Steingrímur J, bls. 29.
74 Reynir Traustason, „Dauðhreinsuð átakasaga“, DV 8.−10. nóvember 2013, bls. 3
(Bækur); Ólafur Þ. Harðarson, „Össur, Steingrímur og Ólafur Ragnar“, bls. 130.
75 George Levine, Darwin the Writer (Oxford: Oxford University Press 2011), bls.
2−3.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 166