Saga - 2014, Blaðsíða 176
Frágangur er góður um margt, inngangskaflar hvers aðalkafla eru ítar-
legir, með rækilegum spurningum, og niðurstöður kaflanna eru dregnar
skilmerkilega saman í lok hvers kafla. Tilvitnanir eru birtar hlið við hlið á
frummáli og í þýðingu og lesandi getur þá áttað sig á hæpnum þýðingum
(enskir fiskimennn verða íslenskir (bls. 210) og „Scheepken“ verður „bátur“
en hlýtur að vera kaupfar (bls. 123)). Þetta sýnir að doktorsefnið hefur viljað
vanda sig um alla framsetningu. Þá eru lokaniðurstöður rækilegar og þar að
auki er allnákvæm endursögn um efni einstakra kafla, bæði á íslensku og
ensku.
Minning
Ég sný mér næst að umfjöllun um minningar en minningarhugtakið er
mikil vægt í ritgerðinni, það er undirliggjandi víðast hvar, líka í köflum um
heimildir sem lýsa atburðum. Þar er jafnan bent á að heimildirnar sýni
hvernig minning verður til. Minningar má því kalla rauðan þráð í rit-
gerðinni. Og þótt doktorsefnið dveljist nokkuð við ýmsar greinar, svo sem
þjóðfræði, frásagnarfræði, kennslufræði, guðfræði og jafnvel listfræði, er
engum blöðum um það að fletta að ritgerðin er sagnfræði, allt þjónar undir
sögu Tyrkjaránsins en á nýjan hátt, atburðasagan er ekki í öndvegi heldur
minningar um atburði.
Doktorsefni tekur til rækilegrar umræðu það sem nefnist sameiginlegar
minningar (fr. mémoire collective). Slík hópminning telst þá frábrugðin ein-
staklingsminningu annars vegar og sögulegri minningu hins vegar. Hópar
teljast eiga sameiginlegar minningar, og jafnvel þjóðir líka. Hin sameigin-
lega minning hóps eða þjóðar lifir helst á munnmælastigi en er stundum
lituð af sagnfræði og getur þannig orðið þjóðminning. Slíkar minningar
þjóðar eru til þess fallnar að stuðla að samstöðu hennar og þær vitna um
þörf fyrir sameiginlega menningu. Í tengslum við þetta hefur verið sett
fram hugtakið kennileiti minninga (fr. les lieux de mémoire), talið að fólk tengi
minningar um fortíðina við slík kennileiti, kannski skjöl, hátíðisdaga eða
minnismerki. Í þessu er fólginn sameiginlegur arfur sem gert er ráð fyrir að
t.d. allir Íslendingar, komnir til vits og ára, þekki eða eigi að þekkja. Slíkar
sameiginlegar minningar um löngu liðna tíð teljast mikilvægar og verð -
mætar.
Í seinni tíð hefur færst í vöxt að vísa til hugtakanna samskiptaminni (eða
miðlanlegt minni, þý. kommunikatives Gedächtnis) og menningarlegt minni (þý.
kulturelles Gedächtnis). Hið fyrrnefnda er jafnan bundið við sjónarvotta og
hópinn næst þeim og má miða við 80 til 100 ár. Að þeim tíma liðnum vaknar
oft áhugi á að tryggja minningunni líf, t.d. með skrásetningu eða minnis-
merki. Menningarlega minnið tengist hins vegar táknrænum myndum í
fortíðinni, fjallar t.d. um upprunasögu og landnám hóps sem treystir þannig
sjálfsmynd sína. Minningin getur tekið á sig fast form, eins og t.d. í textum,
174 andmæli
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 174