Saga - 2014, Page 189
187
þessi ágalli gæti talist til smáatriða. En tilviljanakenndur frágangur tilvísana
í þessu efni gerir það að verkum að lesandi á ekki hægt með að sjá hvort svo
sé eða ekki. Í greinargerð Jóns Þorkelssonar fyrir frásögn Kláusar segir að
eingöngu A-gerðin verði rakin til hans sjálfs, hinar séu mismikið breyttar.
Hvað varðar reisubók Ólafs Egilssonar segir Jón að önnur gerðin sé alveg
hreinsuð af „guðsorða hugleiðingum“.11 Það hefur væntanlega þó nokkur
áhrif á túlkunina hvor gerðin er notuð þegar verið er að velta fyrir sér t.d.
sáluhjálp og trúarlegum tengingum í tengslum við minningar um Tyrkja -
ránið. Einnig gæti það skipt máli þegar verið er að velta upp minningar-
hugtakinu á hverri öld fyrir sig og hvað gæti hafa haft áhrif á það hvernig
minningunum var viðhaldið.
En hvar koma þá gallarnir fram í texta bókarinnar vegna þessa skorts á
heimildarýni og vali á afskriftum til notkunar um heimildir til sögu Tyrkja -
ránsins, þess efnis sem í rauninni öll ritgerðin snýst um að rekja áfram,
endur segja eða meta framhaldslíf sagna út frá? Að mínu mati er það í fyrsta
lagi bagalegt þegar þessar frásagnir eru bornar saman við þjóðsögur og
gagnrýnislítið litið á þær sem fastan kjarna upplýsinga. Aðeins í stöku til-
vikum er þess getið að um yngri afskriftir sagnanna sé að ræða sem gætu
hafa breyst í tímans rás eða hafa mjög líklega gert það. Taka má dæmi af
frásögn Kláusar í því sambandi. Frásögnin hefur varðveist í fjórum aðal-
gerðum samkvæmt greiningu Jóns Þorkelssonar á handritunum. Gerð A
þykir fara næst upphaflegri gerð eins og Kláus lét hana frá sér. B-gerðin er sú
sem algengust er, C-gerðin víkur í einhverju frá henni, en D-gerðin er frá-
brugðnust þeim öllum og elsta handrit hennar er frá 1810.12
Dæmið snertir frásögn af því þegar ránsmenn fóru um Vestmannaeyjar
og tóku konu og köstuðu á bál ásamt tveggja ára barni hennar og hlógu
mjög (bls. 167–169). Sagan er byggð á B-gerð frásagnar Kláusar, sem ekki er
eignuð honum, og elsta handrit er frá 1740. Þar veltir höfundur fyrir sér
vinnubrögðum Björns á Skarðsá við ritun sögu sinnar 100 árum áður og
undrast að hann skyldi ekki hafa tekið þessa „ógnarlýsingu“ inn í sitt rit þar
sem hann hafi venjulega ekki dregið úr voðaverkum ræningjanna. Skýringa
leitar höfundur ekki í ungri eða breyttri gerð Kláusar sögu, heldur í túlkun
Björns á reisubók Ólafs Egilssonar þar sem kemur fram að ræningjarnir hafi
verið enskir og því gætu þeir varla hafa framið slík voðaverk. Því er við að
bæta að elsta handrit af sögu Björns á Skarðsá er einnig frá miðri 18. öld og
því fjarri upphaflega ritunartímanum, hvað þá að hann gæti hafa haft undir
höndum yngri og endurskrifaða gerð Kláusar sögu.
Á móti má nefna annað dæmi þar sem höfundur fer mun betur í þann
grunn sem sagnirnar byggja á og hefði getað beitt þeim vinnubrögðum
víðar. Það snýr að vangaveltum um hvort ræningjar hafi farið í svokallaða
andmæli
11 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. 19, 91 og 135.
12 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. 18–19, 33–34, 56 og 74.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 187