Saga - 2014, Page 209
280, 297). Raunar er ekkert í Ástarsögu Íslendinga sem bendir til þess að þessi
orð miðaldafólks yfir samkynhneigð, að vera rassragur og ekki snjallur, séu
eitthvað merkingarþrungnari en mörg önnur sem vísa til ákveðins eðlis,
eins og að vera leiðinlegur eða nærsýnn. Og orðið samkynhneigður er það í
sjálfu sér ekki heldur. Það sem gefur tengingu hugtaksins samkynhneigð við
eðli aukið vægi í samtímanum er sú réttindabarátta og sjálfsmyndarpólitík
sem hefur þróast síðustu 50 árin. Samkynhneigð er orðin hluti af sjálfsmynd
fólks og er þannig talin móta persónuna á þann hátt sem sjónskerðingar og
lyndiseinkenni geta ekki gert. Heimildirnar sem Gunnar notar veita aftur á
móti aldrei innsýn inn í sjálfsvitund sögupersónanna og fyrir bragðið er
hæpið að tengja þá eðlishyggju sem ríkir í orðræðu samtímans annars vegar
og hugarfar fólks á miðöldum hins vegar án þeim mun betri rökstuðnings.
Gunnar er því fullframhleypinn þegar hann lýsir yfir sigri eðlishyggjunnar
ofanmáls í lok átjánda kafla.
Gunnar tekur það reyndar sérstaklega fram í inngangi bókarinnar að
hann hallist að eðlishyggju í ástar- og kynferðismálum og telur sagnfræði og
mannfræði fyrirtaksleiðir til að „kanna hvernig maðurinn er í eðli sínu“ (bls.
27). Því er skiljanlegt að hann fylgi þessari nálgun út í gegnum bókina. Það
er aftur á móti nokkur synd að í þessari afskaplega áhugaverðu og fróðlegu
bók sé ekki athugað að þótt hormón framkalli ákveðnar tilfinningar hlýtur
að vera hæpið að fólk túlki þær og skilji í tómarúmi, án nokkurrar aðkomu
samfélagsins sem það býr í. Þess í stað veifar Gunnar „eðlisstimplinum“
ákaflega, flokkar tilfinningar, t.d. afbrýðisemi og ást, undir eðli sem ekki kalli
á nánari athugun og afgreiðir margar af áhrifamestu nálgunum að viðfangs-
efninu sem öfgakennda mótunarhyggju strax í öðrum kafla bókarinnar.
Hann stillir eðlishyggju og mótunarhyggju upp sem andstæð um en ekki
tvenns konar nálgunum sem geti spilað saman við að varpa ljósi á tiltekið
viðfangsefni. Því saknaði ég þess að Gunnar staðsetti þessa afar fróðlegu og
margslungnu umfjöllun um ástir og tilfinningar betur innan fræðilegrar
umræðu síðustu áratuga um kynferði, kyn, kynhneigð o.s.frv. Efnið býður
nefnilega upp á mjög áhugaverða og frjóa umfjöllun um merkingu ástar og
tengsl hennar við vald og ofbeldi, ást og kynhneigð, samtvinnun kyn-
hneigðar og kyns auk óstöðugleika og sífelldrar endursköpunar þessara
flokka, þótt hið síðastnefnda falli vissulega utan ramma bókarinnar.
Þrátt fyrir þetta er Ástarsaga Íslendinga stórfróðlegt og reglulega vel
unnið verk sem sýnir gríðarlega þekkingu höfundar á þeim heimildum sem
liggja bókinni til grundvallar. Þótt stundum vanti upp á að hann útskýri
ályktanir sínar betur fyrir leikmönnum í miðaldasögu tekst honum yfirleitt
afskaplega vel að gera þessa bók aðgengilega og fróðlega fyrir almenning
jafnt sem fræðafólk.
Íris Ellenberger
ritdómar 207
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 207