Saga - 2014, Síða 211
hugmyndir um hlutverk hins opinbera í samfélaginu, athafnafrelsi einstak-
lingsins og réttláta skiptingu efnahagslegra gæða. Loks má nefna hina
hagfræðilegu hlið sem snýr að skilvirkni skattkerfisins og áhrifum þess á
hagvöxt, hagþróun, tekjur og eignir. Þeirri spurningu er síst svarað í þess-
ari bók enda útheimtir slík greining annars konar nálgun á viðfangsefnið en
hér er viðhöfð. Höfundur hefði þó vel mátt draga betur fram megineinkenni
skattkerfisins á hverjum tíma og jafnvel draga fram sérkenni þess í saman-
burði við kerfin á Norðurlöndum. Hvað segir það t.d. um íslenskt samfélag
að svo lítils hluta ríkistekna hefur sögulega séð verið aflað með beinum
sköttum sem raun ber vitni?
Bókin er gefin út af ríkisskattstjóra og er því stofnanasaga að upplagi.
Viðfangsefnið markast að mestu leyti af starfssviði ríkisskattstjóra og for-
vera þess embættis og sjónarhóllinn er „kerfið“ sjálft og gerðir þess. Talsvert
rými fer t.d. í lýsingar á yfirstjórn og innviðum þeirra stofnana sem koma
við sögu skattamála, svo og framkvæmd skattalaga. Þetta efni er mis-
áhugavert en mesta athygli mína vöktu stórfróðlegar lýsingar á nokkrum
stöðum í ritinu um vinnubrögð skattstjóra og skattanefnda í héruðum við
álagningu og innheimtu skatta. Hvergi hef ég séð samanteknar svo greinar -
góðar upplýsingar um það hvernig löggjöfin var útfærð og framkvæmd, en
þær segja mikla sögu um það hvernig skattkerfið virkaði í reynd og sér í lagi
um ófullkomleika þess, slæleg framtöl, ófullkomnar upplýsingar og handa-
hófskennda álagningu skatta. Skattsvik virðast hafa verið víðtækt og viður-
kennt vandamál, m.a. notaði Gunnar Thoroddsen fjármálaráðherra þau sem
röksemd fyrir lækkun tekjuskattsins 1959 (II, bls. 36). Skattaeftirlit var lélegt
og það var fyrst eftir 1968 að farið var að skoða bókhald fyrirtækja og heim-
ila á vettvangi. Viðbrögð fólks við eftirlitsmönnunum voru ærið mismun-
andi og viðkvæði hjá sumum var: „Bókhaldið? Það er nú það. Ég verð að
hringja í endurskoðanda minn, hann er með bókhaldið.“ Höfundur hnýtir
því við að „þetta var eins og í amerískri sakamálamynd þar sem hinn seki
vildi ekkert segja nema í viðurvist lögfræðings“ (II, bls. 90). Mikið vatn hef-
ur síðan runnið til sjávar.
Afdrifarík er sú ákvörðun aðstandenda bókarinnar að afmarka viðfangs-
efnið við skatta sem ríkisskattstjóri og forverar hans hafa séð um að leggja
á, en það eru fyrst og fremst beinu skattarnir sem svo voru kallaðir (tekju-
skattur, eignaskattur, erfðafjárskattur, fjármagnstekjuskattur o.fl.) og tekju-
stofnar sveitarfélaga, en tollar og aðrir óbeinir skattar, tekjur af jarðeignum
og ríkisfyrirtækjum og önnur gjöld sem innheimt eru af öðrum aðilum falla
utan efnis. Þetta er stór galli á efnisafmörkun bókarinnar að mínu áliti vegna
þess að beinir skattar og óbeinir standa í svo nánu sambandi hvorir við aðra.
Gladstone forsætisráðherra Breta líkti þeim við „tvær aðlaðandi systur sem
boðnar hafa verið í hið glaða líf Lundúnaborgar, hvor um sig með kappnóg
auðæfi“. Lífseigustu deilur í skattamálum hafa einmitt snúist um það hvor-
um megin þunginn í skattheimtunni ætti að hvíla. Á Íslandi hvíldi hann
ritdómar 209
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 209