Saga - 2014, Page 222
hefur ekki getað aflað neinna upplýsinga um hann frekar en nokkur annar.
Langlíklegast er að nafnið sé dulnefni og frásögn hans er ferðaskröksaga.
Þess má geta að Blefken hefur orðið að tákni fyrir þá sem „lasta“ Ísland eða
gagnrýna á einhvern hátt, eiginlega rógbera, og þegar leitað er að nafni hans
á Google koma upp tæplega tíu þúsund færslur. Þannig gat Hannes
Hólmsteinn Gissurarson prófessor þess í bloggi árið 2008 að fram væri kom-
inn nýr Blefken og héti sá Robert Wade, prófessor í stjórnmálafræði í
London. Hinum nýja Blefken var gefið að sök að hafa fullyrt að „íslenska
hagkerfið“ stæði „á brauðfótum“ og að hann hefði enn aukið á vanda
íslenskra banka á þeim tíma (sjá Vef.Hannes Hólmsteinn Gissurarson, „Nýr
Blefken“, http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/587992/, 11. júlí
2008). En þetta er útúrdúr.
Hér er fullyrt að rit Blefkens sé uppspuni en greinilegt er þó á verkinu
að höfundur hefur verið allvel kunnugur íslenskum málefnum og veit m.a.
einhver deili á atburðum sem urðu hérlendis við siðbreytingu um miðja 16.
öld. En auk þess byggir hann á ýmsum öðrum ritum, m.a. Pliníusi eldra,
Olausi Magnus og ljóslega einnig Adam frá Brimum án þess þó að geta
þess. Samkvæmt Blefken eru Íslendingar aðallega eins og skepnur, en á hinn
bóginn dregur hann einnig fram ýmis einkenni sem tengja má við sælueyna.
Á Íslandi verður fólk mörg hundruð ára gamalt, konur eru einstaklega fagrar
og landið svo gjöfult að það verður að gæta þess að reka búsmala úr högum
til þess að hann sprengi sig ekki (bls. 247–274).
Hvað ber að skoða í verkum á borð við þau sem hér eru til umfjöllunar?
Hvers konar orðræða birtist í þeim og hvers vegna? Af því sem hér hefur
verið sagt má ljóst vera að umfjöllunin um land og þjóð er aðallega neikvæð
svo vægt sé til orða tekið. Í öllum þessum verkum er Íslendingum lýst sem
siðlausum og fávísum: þeir séu nánast eins og skepnur og óbúandi í land-
inu þó að undantekningar séu frá þessu. Lærðir menn hér á landi hlutu að
bregðast við. Á öndverðri 17. öld svöruðu Guðbrandur biskup Þorláksson
og Arngrímur lærði ritum þeirra Peerse og Blefkens og hið sama gerði Jón
Þorkelsson skólameistari er hann andmælti riti Andersons eins og fram
kemur í verkinu. Síðar hafa margir tekið í sama streng, eins og umsjónar-
menn útgáfunnar benda á, t.d. Þorvaldur Thoroddsen, Steindór Steindórs -
son, og enn síðar Haraldur Sigurðsson. Þessir höfundar ganga út frá því að
umræddar ritsmíðar séu aðallega óhróður og jafnvel byggðar á illvilja í garð
lands og þjóðar; ef til vill séu lýsingarnar skreytni til þess að auka vinsæld-
ir verkanna og sölu þeirra. Nokkuð kann að vera til í þessu. Að mati höf-
undar þessara lína eru þetta þó ekki mikilvægustu skýringarnar, þær liggja
annars staðar.
Víkjum fyrst að þeirri staðreynd að í þessum verkum er „miðjan“ að
lýsa jaðrinum. Höfundarnir eru trúlega allir frá Hamborg, menntaðir borg-
arbúar. Mikilvægur hluti þeirrar orðræðu var og er að jaðarinn er framandi
ritdómar220
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 220