Saga - 2014, Page 243
semi í verkinu réttlætt með því að hún hafi grafið undan stöðu Kaupmanna -
hafnar sem höfuðborgar Íslands (II, bls. 540–551). Víst er það satt, en hér
hefði samt mátt fara sparlegar með pláss og tíma höfundanna. Óneitanlega
eiga hér stundum við ummæli sem eru tilfærð eftir Jón Helgason prófessor
um Edduútgáfu Finns Magnússonar (II, bls. 191): „… því dugir ekki að neita
að sumt sem þar stendur hefði mátt strika út að ósekju.“
Í stíl við þessa áherslu höfundanna lifnar frásögn þeirra sérkennilega við
þegar kemur til Reykjavíkur, jafnvel strax á 18. öld (I, bls. 435):
Vafalaust hefur oft verið fjörlegt á þorpsgötunni, einkum á sumrin
þegar hestalestir komu víðs vegar af landinu með ullarbagga til vinnslu
í vefstofunum. Einnig nokkuð hrátt líf, líkt og í öðrum þorpum sem rísa
snöggt upp í kringum nýja atvinnustarfsemi. Út um glugga húsa hafa
heyrst smellir úr vefstólum og hvinur rokka, reyk hefur lagt úr skor-
steinum og gluggum þar sem kynt var undir litunarpottum og lykt af
ull og skinnum og margs konar litunarefnum hefur slegið yfir molduga
og grýtta götuna. Opin renna var snemma grafin eftir endilangri göt-
unni svo að vatn og skólp gæti runnið óhindrað til sjávar. Hér var
margt ungt og ógift fólk komið saman. Það bjó í sérstökum vinnuskál-
um, á loftum vefstofa og annarra verksmiðjuhúsa eða í hinum gömlu
hjáleigum Reykjavíkur í nágrenninu.
Í samanburði við þetta er víða farið helst til lauslega í líf Íslendinga í Kaup -
mannahöfn og þau Íslandsmál sem fjallað var um í borginni. Aldrei er lagt
mat á hvernig völd skiptust í reynd á milli þeirra manna í höfuðborginni
sem áttu að fara með stjórn Íslands og embættismanna á Íslandi, ásamt
Alþingi. Vitnað er (II, bls. 501) í fræga grein Jóns Sigurðssonar, „Hugvekju til
Íslendinga“ frá 1848, þar sem hann segir: „ef á að fara að eins og híngaðtil, að
sækja leyfi til Kaupmannahafnar um hverja gamalá, sem þyrfti að selja af
hinum svonefndu konúngsjörðum, eða um hvert stafgólf sem bæta þarf í
kofa, eða um, í hverju broti skólaskýrslurnar eiga að vera, eða hvort á að
leyfa útlendum lausakaupmanni inn á höfn, þá verður seinþreytt um fram-
förina.“ En því er ekki svarað í bókinni hvort þetta var í raun og veru svona.
Harald Gustafsson dró upp ólíka mynd af valdahlutföllum íslenskra og
danskra embættismanna á einveldisöld í doktorsritgerð sinni, Mellan kung
och allmoge. Sú bók er ekki í heimildaskrá þessa verks; aðeins er notuð stutt
grein Haralds um stjórnsýslu Íslands á upplýsingaröld (I, bls. 228–229, 231
og 541). Á síðari hluta 19. aldar var líka stundum ýjað að því að ákvarðanir
danskra stjórnvalda um Íslandsmál hafi verið pantaðar af landshöfðingja og
klíku hans í Reykjavík (Saga Íslands X, bls. 211). Það mál er alls ekki rætt hér,
og ekki er í heimildaskrá grundvallarrit um efnið, Alþingi og konungsvaldið
eftir Björn Þórðarson. Hvergi er heldur gerð grein fyrir því hvenær danska
og hvenær íslenska var notuð í stjórnsýslu Íslands þó að stuttlega sé gerð
grein fyrir stöðu tungumálanna í ríkinu (II, bls. 466–468). Um íslensku
ritdómar 241
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 241