Saga - 2014, Qupperneq 248
tilliti til þeirrar stefnu að birta hann, að því marki sem fræðilegar kröfur
leyfa, heildstæðan og samræmdan. Varla er vegið að fræðimannsheiðri
Sigurðar Nordal eða rýrð kastað á framlag hans til fræðanna þótt á það sé
bent til dæmis, mannsaldri eftir að hann hleypti Íslenzkum fornritum af stokk-
unum með 2. bindi, að útgáfa hans á Eglu er úrelt að því leyti að sam-
steyputexti hennar veitir litla sem enga tilfinningu fyrir raunverulegri hand-
ritageymd sögunnar, ólíkum gerðum hennar eða þróun þeirra í handritum.
Við mat á Hákonar sögu, Böglunga sögu og Magnúss sögu lagabætis hlýtur því
fyrst að vera spurt hvernig handritageymd þeirra og gerðum er háttað og
með hvaða hætti brugðist er við því í útgáfutexta. Því næst skiptir mestu að
spyrja með hvaða hætti fyrri útgáfur hafa farið með efnið, hverju hin nýja
útgáfa fær áorkað í samhengi þeirra og hverjum hún þjóni.
Svör við þessum spurningum eru að mestu leyti einföld. Saga Magnúss
konungs lagabætis, sem Sturla sagnaritari samdi að „sjálfs hans ráði“ eftir
því sem segir í Sturlu þætti, er nú glötuð að frátöldum slitrum í handrita-
brotinu AM 325 X 4to, sem talið er skrifað á ofanverðri 14. öld (í því eru
einnig brot af Sverris sögu, Böglunga sögu og Hákonar sögu). Carl Christian
Rafn og Finnur Magnússon gáfu brot sögunnar út eftir handriti í 10. bindi
Fornmanna sagna 1835 og sömuleiðis Guðbrandur Vigfússon í 2. bindi
Icelandic Sagas 1887. Um aðrar fræðilegar útgáfur eftir handriti er ekki að
ræða fyrr en nú. Að dæmi Guðbrands eru hér einnig gefnar út þrjár stuttar
annálagreinar úr Gottskálksannál sem taldar eru runnar frá sögunni í heilli
gerð en nú er varðveitt, prentaðar eftir annálaútgáfu Storms. Böglunga saga,
sem svo er kölluð hér (eins og reyndar í leifum skinnbókarinnar Gullskinnu)
en hefur í fyrri útgáfum verið kölluð Böglunga sögur eða Saga Hákonar
Sverrissonar, Guttorms Sigurðssonar og Inga Bárðarsonar konunga, er hins vegar
varðveitt í tveimur gerðum. Sú ákvörðun Þorleifs og Sverris að gefa þær
báðar út, og með þeim hætti sem hafður er á, er til fyrirmyndar. Styttri gerð
sögunnar, varðveitt heil í Eirspennli og Skálholtsbók yngstu, er í raun eina
varðveitta miðaldagerð hennar (Skálholtsbókartexti er hér lagður til grund-
vallar). Af lengri gerð hennar eru að vísu varðveitt brot í miðaldahandritum
(það elsta er AM 325 VIII 4b 4to, talið frá lokum 13. aldar) en heil er hún ein-
ungis varðveitt þýdd í hinni miklu konungasagnakróníku Peders Claussøn
Friis, sem út kom í Kaupmannahöfn 1633. Deilur fræðimanna um tengsl
gerðanna tveggja, forrit Claussøns og glataða frumgerð sögunnar eru raktar
nokkuð vandlega í formála Þorleifs, ásamt því sem gerðirnar eru bornar
saman að efni og formi. Í stað þess að gerðirnar séu prentaðar ofan og neðan
samsíða eða andstætt á opnu eru þær prentaðar hér hvor á eftir annarri,
fyrst styttri gerð og þá lengri. Sveinbjörn Egilsson sneri þýðingu Claussøns
á íslensku fyrir 9. bindi Fornmanna sagna og er þýðing hans endurprentuð
hér fyrir neðan stafréttan texta Claussøns, lesendum til ánægju og fróðleiks
ekki síður en hagræðis. Í viðauka fylgja handritabrot beggja gerða, úr styttri
gerð í AM 325 VIII 4a 4to og úr lengri gerð í AM 325 VIII X, 4c, og 4b 4to.
ritdómar246
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 246