Bændablaðið - 16.12.2021, Page 88
Bændablaðið | Fimmtudagur 16. desember 202188
LESENDARÝNI
Stafafura í Hallormsstað. Stafafura í Höfða í Fljótsdal.
Ólíku saman að jafna
Hún er undarleg minni
máttarkennd Íslendinga. Annars
vegar teljum við okkur vita allt
mest og best sjálfir. Hins vegar
teljum við alla þekkingu sem
kemur frá útlöndum miklu betri en
okkar eigin. Þannig er með afstöðu
fyrrverandi landgræðslustjóra
og fyrrverandi fagmálastjóra
Landgræðslunnar sem kom fram
í grein þeirra í Bændablaðinu 4.
nóvember sl. um hvað stafafura sé
stórhættuleg trjátegund og hætta
ætti notkun hennar til að bjarga
landslaginu frá glötun.
Það er nefnilega þannig að á
Nýja-Sjálandi er stafafura meðal
plöntutegunda sem þarlendir hafa
ákveðið að sé illgresi og hægt er að
fá borgað fyrir að uppræta hana á
vissum stöðum. Það hlýtur þá að
vera fyrirmynd sem við eigum að
fylgja, úr því að útlendingar vita
miklu meira um aðstæður hér á landi
en við aumingjans molbúarnir.
Hvað liggur að baki þeirri
gróðurpólitík að stafafura teljist
illgresi á Nýja-Sjálandi vitum
við ekki, en helgast örugglega
af aðstæðum þar. Ólíklegt er að
aðstæður á Íslandi hafi þar á nokkurn
hátt verið lagðar til grundvallar.
Annar okkar (Hörður) átti þess
kost að ferðast um Nýja-Sjáland
fyrir fáum árum síðan og upplifa
loftslag og gróður bæði á Norður- og
Suðureyju. Ísland og Nýja-Sjáland
eiga það sameiginlegt að gróðri
var gjörbreytt á stórum svæðum
með sauðfjárbeit. Á Nýja-Sjálandi
gerðist það með gríðarlegum fjölda
fjár á tiltölulega skömmum tíma. Á
Íslandi með tiltölulega fáum kindum
á mun lengri tíma. Að öðru leyti
er himinn og haf á milli landanna
(bókstaflega og að öllu öðru leyti).
Það dylst engum sem ferðast um
Nýja-Sjáland að þar er allt annað og
mun mildara loftslag en hér. Jafnvel
á kaldasta svæði þeirra syðst á
Suðureyju er meðalhitinn 4-5° hærri
en á láglendi Íslands, bæði sumar
og vetur. Vaxtartímabilið er lengra
eftir því, öll framleiðsla gróðurs
mun meiri og gróðurframvinda mun
hraðari en hér.
Ekki er heldur líku saman að
jafna varðandi útbreiðslu stafafuru.
Vel má vera að hún sé að breiðast út
á Nýja-Sjálandi á stöðum þar sem
fólk vill ekki hafa hana, t.d. vegna
mikils fjölda sérstæðra (einlendra)
tegunda í flóru landsins. Það þekkja
Nýsjálendingar betur en við. En
þeirra gróðurpólitík er ekki hægt
að heimfæra á Ísland, þar sem
vantar mikið upp á gróðurþekjuna
og ekki finnst ein einasta einlend
plöntutegund. Hér skapar stafafura
enga ógn og er ekki líkleg til að gera
það í fyrirsjáanlegri framtíð. Það
þekkjum við betur en þeir.
Því ber að fagna að stafafura sé
það vel aðlöguð íslensku loftslagi að
hún þrífist hér, ekki síður en öllu því
innflutta grasfræi sem þeir Andrés
og Sveinn létu dreifa til að græða
upp land á vegum Landgræðslunnar.
Þeir hvetja nú til þess að rífa upp
stafafuru, en á þá ekki að sama skapi
að rífa upp allt gras af erlendum
uppruna? Hvort tveggja er auðvitað
fásinna.
Vel má vera að þeir Andrés
og Sveinn hafi smekk fyrir grasi
frekar en trjám í landslaginu. En
það er síður en svo náttúrulögmál
að gras af erlendum uppruna sé á
einhvern hátt betur viðeigandi í
landslaginu en tré. Það er ekki heldur
náttúruverndarmál, því líffræðileg
fjölbreytni skóga innfluttra
trjátegunda, þ.m.t. stafafuru, er mun
meiri en í graslendi influttra grasa.
Og ekki er það landgræðslumál því
tré vernda og byggja upp jarðveg
betur en gras. Það er bara þeirra
smekkur fyrir ákveðinni ásýnd
lands. Gott og vel. Okkar smekkur
er fyrir skógi vöxnu landi með fjölda
trjátegunda, ekki bara grónu landi
heldur vel grónu og fjölbreyttu
landi.
Hörður Sigurbjarnarson
og Sigurjón Benediktsson
Stafafura í úr Dalsmynni (Fnjóskadal / Ljósavatnsskarði).
Kolviður 15 ára
Kolviður hefur bundið kolefni fyrir
fyrirtæki og einstaklinga í 15 ár.
Um 150 fyrirtæki og félög og yfir
1.000 einstaklingar binda losun
sína í samstarfi við Kolvið.
Starfsemi Kolviðar hófst árið
2006 en Skógræktarfélag Íslands og
Landvernd stóðu að stofnun Kolviðar
og fengu til þess stuðning frá þáver-
andi ríkisstjórn.
Kolviður er sjóður sem er ekki
ætlað að vera hagnaðardrifinn en lögð
er áhersla á að framlög fyrirtækja
og einstaklinga fari til bindingar á
kolefnislosun viðskiptavina með
nýskógrækt.
Starfsemin tók vel við sér í upp-
hafi með þátttöku stórra fyrirtækja og
ríkissjóður sýndi gott fordæmi og batt
það kolefni sem ríkisstofnanir losuðu
við brennslu jarðeldsneytis.
Síðan kom fjármálakreppan 2008
með miklum samdrætti og ári síðar
dró þáverandi ríkisstjórn sig út úr
verkefninu og lagði kolefnisgjald á
eldsneyti sem sumir túlkuðu þannig
að með því væru þeir búnir að leggja
sitt af mörkum, það jók því ekki á
viljann til frekari bindingar á losun.
Svo kom Parísarfundurinn 2015
með mikilli umræðu um loftslags-
málin og í framhaldi af honum hafa
mörg fyrirtæki og einstaklingar lagt
áherslu á að binda losun sína.
Áhugaverðir þættir í Ríkis -
sjónvarpinu um áhrif loftslags-
breytinga hafa vakið marga til með-
vitundar um það hvað við höfum
gert og hvað við getum gert, ber að
þakka það.
Óttast hefur verið að Covid-
faraldurinn dragi úr getu fyrirtækja
til að binda losun sína en ánægjulegt
er að sjá að það er ekki reyndin fyrir
árið 2020 og þetta ár en á móti hefur
dregið úr losun hjá mjög mörgum.
Áhugavert verður að sjá hver
áhrifin verða af loftslagsráðstefnunni
í Glasgow, líklega ýtir hún á breytta
hegðan í neyslu, losun og bindingu.
Kolviður er undirbúinn til samstarfs
við alla þá sem vilja binda losun sína
með nýskógrækt.
Til að binda kolefni með nýskóg-
rækt þarf land og er Kolviður nú með
samninga um land á Geitasandi,
Úlfljótsvatni, Skálholti, Reykholti í
Borgarfirði og Húsavík.
Kolviður leitar áfram eftir sam-
starfi við landeigendur um land undir
kolviðarskóga og landeigendur eign-
ast skóginn þegar bindingu er náð.
Ekki er nægjanlegt að hafa land
það þarf einnig góða framleiðend-
ur skógarplantna og samstarfið við
Sólskóga og Kvista, nú Kvistabæ
hefur verið mjög gott.
Til gróðursetningar hefur
Kolviður gert verktakasamninga
við Skógræktarfélag Íslands og skóg-
ræktarfélögin á þeim stöðum þar sem
gróðursetning á sér stað.
Kolviður hefur gert samning við
Rannsóknarmiðstöð Skógræktarinnar
á Mógilsá um mælingar á kolefn-
isbindingu í kolviðarskógum og rann-
sóknir á ræktunarmöguleikum m.a. á
Mosfellsheiði.
Unnið er að því að fá vottun
á starfsemi Kolviðar samkvæmt
alþjóðlegum staðli ISO 14064-2 á
árinu 2022.
Kolviðarskógar eru nú yfir 500
ha og rúmlega 200 þús. tonn CO2 í
bindingarferli.
Framtíðarsýn Kolviðar bendir til
þess að fyrirtækjum og einstakling-
um sem vilja binda losun sína muni
fjölga og þessir aðilar taka markmið-
ið um hlutleysi 2040 alvarlega og
vilja leggja sitt af mörkum.
Reynir Kristinsson
stjórnarformaður Kolviðar
Reynir Kristinsson.
Hörður Sigurbjarnarson.
Bændasamtök Íslands
auglýsa eftir framboðum
til formannskjörs
Frambjóðendur skulu gera grein fyrir nafni sínu,
kennitölu og búgrein. Einnig skal hver og einn
frambjóðandi skila ljósmynd og allt að 200 orða
kynningartexta með framboði sínu.
Efnið verður notað til að kynna framboðið.
Frambjóðendum er að auki heimilt að láta fylgja
með ferilskrá og senda með hlekki inn á heimasíðu,
samfélagsmiðla og annað sem tengist framboði þeirra.
Kjörstjórn er skipuð af eftirfarandi aðilum:
Guðrún Vaka Steingrímsdóttir, formaður
Guðrún Birna Brynjarsdóttir
Erla Hjördís Gunnarsdóttir.
Samkvæmt 6. gr. samþykkta Bændasamtaka Íslands,
skal skila inn framboðum til formanns samtakanna
eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir Búnaðarþing. Allir
félagsmenn sem teljast fullgildir í samtökunum frá og
með 31. desember 2021 geta boðið sig fram til formanns.
Framboðsfrestur er til miðnættis 30. janúar 2022 og skal
framboðum skilað inn á netfangið kjorstjorn@bondi.is.
Bændahöllin Hagatorgi 1, 107 Reykjavík