Morgunblaðið - 12.05.2022, Blaðsíða 36
36 FRÉTTIR
Erlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. MAÍ 2022
Street tray
17.995 kr. / St. 36-40
ÞÆGINDI OG GÆÐI Í HVERJU SKREFI
Irving
15.995 kr. / St. 40-50
Irving
15.995 kr. / St. 41-46
Street tray
17.995 kr. / St. 36-41
KRINGLAN - SMÁRALIND - SKÓR.IS
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Boris Johnson, forsætisráðherra
Bretlands, nýtti í gær ferð sína til
Svíþjóðar og Finnlands til þess að
undirrita varnarsamninga við bæði
ríki. Í samningunum skuldbinda rík-
in þrjú sig til að koma til aðstoðar
verði ráðist á eitt þeirra.
Samkomulagið á milli Breta og
Svía þykir sögulegt, en Svíar hafa
staðið utan allra hernaðarbandalaga
frá árinu 1814. Þá er litið á sam-
komulagið við Breta sem lið í að
tryggja öryggi Svíþjóðar og Finn-
lands, á meðan beðið er eftir því
hvort ríkin muni sækja um aðild að
Atlantshafsbandalaginu, sem og á
þeim tíma sem mun líða á milli þess
að umsókn berst og þar til öll aðild-
arríkin 30 hafa samþykkt hana.
Bæði Svíar og Finnar hafa leitað
eftir tryggingum frá aðildarríkjum
Atlantshafsbandalagsins um að þau
verði varin og hafa leiðtogar beggja
ríkja rætt við leiðtoga Bandaríkj-
anna, Frakklands og Þýskalands um
slíka vernd. Samkomulagið við Breta
er hins vegar það fyrsta sem gert er
opinbert.
Boris Johnson, forsætisráðherra
Bretlands, sagði að samningarnir
fælu í sér að breskir hermenn yrðu
sendir til varnar Svíþjóð eða Finn-
landi ef ríkin kölluðu eftir því. Þá
munu Svíar og Finnar einnig koma
Bretum til varnar ef þörf krefur.
„Ef annað hvort ríkið verður fyrir
stórslysi eða árás munu Bretland og
Svíþjóð aðstoða hvort annað á marg-
víslegan hátt,“ sagði Magdalena
Andersson, forsætisráðherra Sví-
þjóðar, eftir undirritun samkomu-
lagsins.
Sauli Niinisto, forseti Finnlands,
sagði við undirritun samkomulags-
ins í gær að innganga Finnlands í
NATO myndi ekki beinast gegn
neinu ríki, þrátt fyrir hótanir Rússa.
„Þetta er ekki leikur þar sem einn
vinnur og annar tapar,“ sagði Niin-
isto.
Þegar hann var spurður hvernig
Vladimír Pútín Rússlandsforseti
kynni að bregðast við sagði Niinisto
að hann myndi segja við Pútín: „Þú
orsakaðir þetta. Horfðu í spegilinn.“
Umsókn í næstu viku?
Gert er fastlega ráð fyrir því að
Niinisto muni í dag tilkynna að land-
ið ætli að sækja um aðild að Atlants-
hafsbandalaginu, en kannanir sýna
að ríflegur meirihluti er í Finnlandi,
bæði í samfélaginu og á þingi, fyrir
slíkri umsókn. Talið er að það muni
svo aftur leiða til þess að Svíar
ákveði að sækja um, en sósíaldemó-
kratar, sem nú leiða ríkisstjórnina,
ætla að kynna ákvörðun sína á
sunnudaginn.
Talið er því líklegast að ríkin muni
senda inn sameiginlega aðildar-
umsókn til bandalagsins í næstu
viku, en það mun gera leiðtogum
bandalagsríkjanna kleift að sam-
þykkja umsóknina á leiðtogafundi
NATO, sem haldinn verður í lok
júní.
Hvert og eitt af bandalagsríkjun-
um verður að staðfesta umsókn
ríkjanna áður en hún tekur gildi, og
njóta þau ekki verndar 5. greinar
Atlantshafssáttmálans, sem kveður
á um að árás á eitt bandalagsríki sé
árás á þau öll, á meðan.
Aðildarferlið getur því tekið
nokkra mánuði, en það tók til dæmis
heilt ár fyrir Norður-Makedóníu,
sem gekk inn í bandalagið árið 2020.
Ekki er gert ráð fyrir að neitt ríki
muni reyna að koma í veg fyrir inn-
göngu Svíþjóðar og Finnlands, en
einhver þeirra gætu reynt að nýta
sér neitunarvald sitt til þess að
knýja fram eftirgjöf í öðrum málum.
Í síðustu viku hvatti Zoran Mil-
anovic, forseti Króatíu, til dæmis
króatíska þingið til að staðfesta ekki
aðild ríkjanna fyrr en stjórnvöld í
nágrannaríkinu Bosníu-Herzegó-
vínu hefðu breytt kosningalöggjöf
þar, sem hann segir að gangi á rétt
Bosníu-Króata.
Með því vonast hann til að Banda-
ríkjamenn og Bretar muni þrýsta á
stjórnvöld í Bosníu um breytingar.
Andrej Plenkovic, forsætisráðherra
Króatíu, fordæmdi hins vegar yfir-
lýsingu Milanovic, og Gordan Jand-
rokovic, forseti þingsins, sagði af-
stöðu hans hliðholla Rússum og að
forsetinn hefði gert sig að „athlægi
alþjóðasamfélagsins“ með yfir-
lýsingum sínum.
Ekki taldar líkur á árás Rússa
En hver yrðu svör Rússa? Búist er
við að þeir muni beita ógnandi til-
burðum og hótunum gagnvart Finn-
um og Svíum meðan á aðildarferlinu
stendur, og þeir hafa þegar hótað
ríkjunum tveimur „pólitískum og
hernaðarlegum afleiðingum“ ef þau
gangi til liðs við bandalagið.
Þá er einnig óttast að þeir kynnu
að grípa til „blandaðra“ meðala, líkt
og tölvuárása á fjármálakerfi eða
orkukerfi ríkjanna, eða með því að
brjóta á lofthelgi ríkjanna, en þegar
hefur borið á því að rússneskar flug-
vélar og þyrlur fari þangað í leyfis-
leysi.
Í greiningu AFP-fréttastofunnar,
sem rituð var áður en greint var frá
varnarsamningunum við Breta, var
hins vegar talið ólíklegt að Rússar
myndu reyna að stöðva umsóknirnar
með hervaldi, þar sem rússneski
herinn sé með fangið fullt í Úkraínu.
Verður að telja það enn ólíklegra í
ljósi varnarsamninganna sem Bretar
undirrituðu við Finna og Svía í gær.
Charly Salonius-Pasternak, fræði-
maður við Alþjóðamálastofnun Finn-
lands, sagði við AFP að það væri
mögulegt að Rússar myndu reyna að
hertaka eyju eða lítinn bút af Finn-
landi, þar sem nýlegar ákvarðanir
stjórnvalda í Kreml virðist ekki
mjög rökréttar frá sjónarhóli Vest-
urlanda. „En ég held að NATO-ríkin
myndu sjá í gegnum það, og það yrði
ekki of erfitt fyrir Finnland að
höndla það með hervaldi.“
Biðja Rússa um innlimun
Leppstjórn Rússa í Kerson-héraði
lýsti því yfir í gær að hún myndi
biðja Rússa að innlima héraðið að
fullu. Héraðið er beint norður af
Krímskaga, og var Kerson fyrsta
stórborgin í Úkraínu til að falla í
hendur Rússa í innrás þeirra.
Kírill Stremousov, varaforseti
herstjórnarinnar í Kerson-héraði,
gaf til kynna að beiðnin yrði send
beint til Vladimírs Pútín Rússlands-
forseta án þess að boðað yrði til
„þjóðaratkvæðis“, líkt og Rússar
beittu 2014 til að réttlæta innlimun
sína á Krímskaga. Stjórnvöld í
Kreml lýstu því hins vegar yfir að
íbúar Kerson-héraðs yrðu að
„ákveða“ eigin örlög.
Talið er líklegt að Rússar muni
sækjast eftir að innlima Kerson og
Saporisjía-héruð auk Donbass-hér-
aðanna tveggja, til þess að búa til
„landbrú“ yfir á Krímskaga. Þá telja
bandarískar leyniþjónustustofnanir
að Rússar vilji einnig hertaka suður-
strönd Úkraínu á Svartahafi, og
tengjast þannig Transnistríu, héraði
rússneskumælandi aðskilnaðarsinna
í Moldóvu.
Sóknir á báða bóga
Tíðindin frá Kerson komu á sama
tíma og fregnir bárust af því að
Rússar væru að herða á sókn sinni í
austurhluta landsins, og hafa þeir
náð nokkrum þorpum í Donbass-
héraðinu á sitt vald. Mestur sókn-
arþungi Rússa liggur nú að bæjun-
um Bilohorivka og Popasna, en með
því gætu þeir umkringt Severo-
donetsk, austustu borgina sem
Úkraínumenn hafa enn á valdi sínu.
Úkraínumenn hafa hins vegar
einnig náð að sækja fram, og lýstu
yfirmenn Úkraínuhers því yfir í gær
að herinn væri að ýta innrásarliðinu
alla leið aftur að landamærunum í
Karkív-héraði. Er nú nánast ómögu-
legt fyrir rússneskt stórskotalið að
hitta borgina, og vonast Úkraínu-
menn til að þeir geti brátt sótt að Isí-
um en með því gætu þeir skorið á
helstu birgðalínu Rússa, milli borg-
anna Isíum og Barvinkove, sem aft-
ur gæti komið sér mjög illa fyrir
sókn Rússa að Donbass-héruðunum
frá norðri.
Gera varnarsamninga við Breta
- Johnson heimsótti bæði Svíþjóð og Finnland - Breskir hermenn verði sendir til ríkjanna óski þau
eftir hernaðaraðstoð - Leppstjórn Rússa í Kerson óskar eftir innlimun - Harðir bardagar í Donbass
AFP/Jonathan Nackstrand
Varnarsamstarf Boris Johnson og Magdalena Andersson fóru í gönguferð eftir undirritun varnarsáttmálans.
AFP/Frank Augstein
Helsinki Johnson undirritaði einnig varnarsamning við Sauli Niinisto, for-
seta Finnlands. Talið er að Niinisto lýsi yfir vilja um NATO-umsókn í dag.