Morgunblaðið - 12.05.2022, Blaðsíða 30
30 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. MAÍ 2022
VIÐTAL
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Ég er bara svona veitingastjóri eða
eitthvað, mér er alveg sama, ég er
svo lítið fyrir svona titla,“ segir Elín-
borg Hauksdóttir, veitingastjóri þá,
úr því hún kýs það, í Húsi Máls og
menningar við Laugaveg, áður
þekktu bókaforlagi og bókaverslun í
hjarta Reykjavíkur en núna öldur-
húsi sem um leið er bókabúð, eða í
raun hálfgert bókasafn. Gestum og
gangandi býðst að líta inn, fá sér
kaffibolla eða hvítvínsglas, glugga í
bækur og jafnvel hlýða á lifandi tón-
list sem stundum er boðið upp á í
þessu gamalgróna vígi bókmennta
þjóðarinnar.
Elínborg á sér merkilega sögu,
sem reyndar var að hluta til kveikj-
an að þessu viðtali, hún er Vest-
mannaeyingur fædd gosárið 1973,
þriggja barna móðir og hefur unnið
nánast alls staðar þegar kemur að
veitingabransanum, byrjaði á A.
Hansen í Hafnarfirði 1991 en listinn
er töluvert lengri, Gamla bíó, Perl-
an, Austurbær, Borgin og miklu
fleira. Hvernig stendur á þessu er
fyrsta spurningin.
Aðalstaðurinn í Hafnarfirði
„Ja, mig vantaði nú bara auka-
vinnu,“ svarar Elínborg og hlær dátt
þar sem við sitjum í kjallara gamla
bókmenntavirkisins umkringd fag-
urbókmenntum og kliðurinn af
fyrstu hæðinni, þar sem gengið er
inn af Laugaveginum, skilar sér
þægilega niður til okkar. Ekki nægi-
lega mikið til að trufla upptökuna þó.
„Þá var þetta aðalstaðurinn í Hafn-
arfirði þegar Princess og allir þessir
togarar voru að koma þarna. Þetta
var nú ekkert sérstaklega góður
tími, þarna voru slagsmál og oft allt
vitlaust hjá okkur, við þurftum oft að
hringja í lögguna og svo voru ein-
hverjir karlar að elta mann heim,“
segir Elínborg og skellihlær við upp-
rifjunina þótt þeir atburðir sem hún
rifjar upp hafi ef til vill ekki verið
svo broslegir þá, alltént ekki í aug-
um átján ára Eyjapæju sem var rétt
að byrja að læra á lífið og vantaði
bara aukavinnu.
„Ég man nú ekkert hvaðan þessir
togarar komu, þetta voru einhverjir
Bretar og Rússar og oft voru bara
heilmikil læti hjá okkur,“ segir Elín-
borg sem hafði í nógu að snúast árið
1991, var í Flensborgarskólanum, að
kaupa sína fyrstu íbúð og allt að ger-
ast. „Svo varð ég ófrísk og þurfti í
framhaldinu að fara að ala upp barn
og þetta var nú stundum ekki fyndið
á A. Hansen, maður var bara í stór-
hættu þegar verst lét. Þarna voru
engir dyraverðir enn þá og við
starfsfólkið lentum oft í mjög hörð-
um átökum, ég var oft í hörkuslags-
málum þarna.
Getur verið mamma frá sjö
En hvað á ég svo sem að segja,
maður tók þessu bara, svona var
þetta bara á þessum tíma,“ segir
Elínborg og lítur dreymnum augum
upp í næstu bókahillu við tilhugs-
unina og blaðamanni verður í laumi
hugsað til upphafslína ljóðs Davíðs
Stefánssonar um Hrærek konung
frá Heiðmörk sem dó á Íslandi,
„Man ég man ég tíma tvenna/tár úr
blindum augum renna.“ En Elín-
borg Hauksdóttir er ekki blind og
heldur ekki smákonungur frá Nor-
egi. Hún er valkyrja frá Vest-
mannaeyjum og við höldum áfram
með söguna.
„Ég hef alltaf verið að aðstoða eig-
endur á veitingahúsum borgarinnar
og lært mikið af þessum meisturum.
Eins hef ég alltaf verið á bar og eitt-
hvað svona en ég er ekki lærður
þjónn og var eiginlega alltaf í þessu
með annarri vinnu. Bæði var þetta
áhugamál og svo freistaði vinnutím-
inn líka. Þú getur verið mamma frá
sjö á morgnana til klukkan eitthvað
og svo farið í vinnuna,“ segir veit-
ingastjórinn í Húsi Máls og menn-
ingar og hlær dátt, sannarlega kona
sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti
brenna.
„Hún er algjört æði“
„Stemningin var brjáluð og það
var ekkert mál að fá vinnu,“ segir
Elínborg, innt eftir stöðu mála í ís-
lensku næturlífi á síðustu öld sem
spyrillinn kannast nú ágætlega við
sjálfur, á þeim tíma dyravörður á
öldurhúsum borgarinnar þar sem á
ýmsu gekk, vitstola miðaldra kona á
sterkum lyfjum dró upp flökunar-
hníf og hótaði að sneiða dyraverði á
Nelly’s eins og hvern annan fisk,
menn hrifnir af amfetamíni og
neyslu þess lofuðu okkur öruggum
dauðdaga en útskýrðu aldrei hvers
vegna. Sá sem hér skrifar stóð þó
aldrei sömu megin afgreiðsluborðs-
ins og Elínborg.
„Á þessum tíma fékk maður bara
vinnu ef maður vildi, maður þekkti
mann og fólk vissi að ég gerði það
sem átti að gera og oft meira til,“
segir Elínborg og gengur þess
reyndar dulin að áður en þetta var
rætt hafði sannleiksgildi orða henn-
ar verið kannað hjá undirmönnum
hennar. „Já, maður, hún er sko al-
gjört æði,“ sagði einn og annar tók
undir með orðunum: „Þetta er okkar
önnur mamma, hún er alveg frá-
bær,“ og lýkur þar vitnaleiðslum.
„En það var líka fullt af ljótu í
gangi og ég er hreinlega hissa á að
þjónastéttin hafi ekki farið bara „full
force“ í skrúðgöngu til að gera eitt-
hvað í því,“ heldur Elínborg áfram
með þungri áherslu og á við kynferð-
islega áreitni og annað af svipuðum
toga sem kynsystur hennar í þjóna-
stétt hafa mátt búa við um aldur og
ævi. „Þetta var oftast svona eitt og
eitt klíp og maður lifir það svo sem
alveg af en þetta er engu að síður
óviðunandi og þótt ég hafi sterk bein
og sé orðin þetta gömul þá gildir það
ekkert um alla og þetta er aldrei já-
kvætt,“ segir Elínborg ákveðin.
Hún þraukaði þó eins og Þórður
gamli í loff malakoff-söngnum,
hvernig stendur á því? „Ja, mér
þykja fyllibyttur bara svo skemmti-
legar,“ svarar Elínborg af hreinu
æðruleysi hinnar lífsreyndu konu,
„mamma fór kasólétt með mig í
bumbunni upp á land í febrúar sjötíu
og þrjú og við enduðum í Njarðvík-
um hjá afa og ömmu sem voru ný-
flutt upp á land svo ég hef nú upp-
lifað ýmislegt. Og svo endaði
mamma í gámunum,“ heldur val-
kyrjan úr Eyjum áfram eins og ekk-
ert sé sjálfsagðara. Hvaða gámum?
„Þeir voru þarna þar sem lög-
reglustöðin í Eyjum er núna. Þetta
voru svona íbúðir í gámum, her-
bergi, stofa og eldhús, allt til alls
auðvitað, og í þessu bjó ég frá eins
árs til fjögurra ára aldurs. Ég man
ekkert eftir þessu, hef bara séð
myndir og svo var fólk að tala um
þetta. Þarna voru rottur að gera sig
heimakomnar og ég var að koma inn
með mýs og leyfa þeim að gista,“
segir Elínborg og skellihlær að
gámabyggðinni í Vestmannaeyjum
eftir gos.
„Svo eftir að maður flutti upp á
land fór maður alltaf til Eyja að
vinna, var þar í fiski milli þess sem
ég fór upp á land en annars hef ég
mest verið í þessum veitingabransa.
Svona um það bil upp úr 2000 fóru
kokkar og þjónar að umgangast
hverjir aðra af virðingu, fram að því
var blint hatur milli þessara stétta,
kokkarnir töldu sig yfir okkur þjón-
ana hafna þótt þetta sé svipað langt
nám, annars tók ég þetta þjónanám
aldrei og má ekki kalla mig þjón, ég
er bara svona veitinga … eitthvað,“
segir Elínborg og hlær í fimmta
sinn, tveimur skiptum oftar en mar-
bendillinn í þjóðsögunni.
Er uppeldið betra?
Elínborg kveður næturlífið hafa
gjörbreyst þau 30 ár sem hún hefur
þekkt það. „Unglingarnir okkar eru
æðislegir. Mér finnst djammið líka
bara miklu fallegra núna en það var.
Leiðinlegasta fólkið í gamla daga
var fólk um fertugt sem hélt að það
ætti heiminn, bar enga virðingu fyrir
þjónum eða fólkinu sem var að þrífa
klósettið,“ segir Elínborg og hvessir
dimm augun á blaðamann sem þakk-
ar almættinu fyrir að vera nýorðinn
48 ára.
„Núna er þetta bara allt annað,
krakkarnir eru að koma til manns
núna og spyrja hvort þeir geti að-
stoðað. Uppeldið í dag er kannski
bara betra, ég veit það ekki, fólki
bara er ekki sama og það smitast lík-
lega út í okkur hin. Nú er ég ekki í
neinum minnihlutahópi eða neitt
svoleiðis, ég er bara venjuleg, en ég
get alveg sagt þér að við afgreiðslu-
fólkið í þjónustustörfunum finnum
fyrir þessu,“ segir Elínborg Hauks-
dóttir Eyjapæja í Húsi Máls og
menningar að lokum. Lesendur
mega dæma um það hvort hún teljist
venjuleg en þeim sem hér skrifar
finnst hún í senn óvenjulegur og ein-
staklega skemmtilegur viðmælandi.
Og þar setjum við punktinn.
„Mér þykja fyllibyttur skemmtilegar“
- Í bransanum frá 18 ára aldri - Slagsmál og fyllerí á A. Hansen - Á þessum tíma fékk maður
vinnu ef maður vildi - Blint hatur milli kokka og þjóna - Djammið miklu fallegra núna en það var
Eyjapæjan Elínborg ásamt samstarfsmönnum sínum Trausta Má Ísaksen og
Friðriki Berg Sigþórssyni. Hún nýtur vinsælda enda skemmtin mjög.
Forðum daga Elínborg, lengst til hægri, „svona ’82-ish“ í Eyjum með
Bryndísi systur og Hjördísi litlu frænku sem er fremst á myndinni.
Lífshlaupið „Mamma fór kasólétt með mig upp á land í febrúar sjötíu og
þrjú.“ Elínborg Hauksdóttir lumar á fleiri en einni góðri sögu.
Morgunblaðið/Atli Steinn Guðmundsson Morgunblaðið/Atli Steinn Guðmundsson
SÍÐUMÚLA 9, REYKJAVÍK • DALSHRAUNI 13, HAFNARFIRÐI • TRYGGVABRAUT 24, AKUREYRI • S: 560 8888 • vfs.is
vfs.is
Skoða
ávfs.is
T
5 hraðasti
llingar á d
rifi.
Hægt að stjór
na hraða á
blaði hand
virkt.
LED ljós að fram
an og á hli
ðum.
7 hæðarstilling
ar.
Sláttubrei
dd: 53cm.
Hámarkshraði
blaðs: 3.30
0 sn/mín.
Skurðarhæ
ð: 25-100 m
m.
Hávaðasti
g: 96 dBA
.
Grassafna
ri: 70L.
Þyngdmeð rafhlöð
u: 38,5 kg.
2 stk.M18 12AhH
IGHOUTPUT
™
rafhlöður
og hraðhle
ðslutæki fylgja.
vöM18 FUEL™
rafhlöðuh
ólf.
NÝM18
SLÁTTUV
ÉL