Andvari - 01.01.2012, Page 13
ÁRNI HEIMIR INGÓLFSSON
Róbert Abraham Ottósson
Þótt síðari heimsstyrjöldin hafi leikið meginland Evrópu grátt voru
afleiðingar hennar fyrir lítið eyríki norður í Dumbshafi að ýmsu
leyti ekki eins válegar. Hér varð til dæmis eins konar menningarlegt
landnám hæfileikaríkra tónlistarmanna sem hingað fluttust, sumir til
skamms tíma en aðrir fyrir lífstíð, og eygðu gróðrarvon í fáskrúðugu
landslagi íslensks tónlistarlífs. Þeir létu til sín taka á ýmsum sviðum,
enda biðu þeirra mörg aðkallandi verkefni. Ekki er úr vegi að gefa
þessari sögu gaum nú, þegar tónlistarlíf stendur með blóma og á athvarf
í háreistum tónlistarhöllum, því að sú var ekki ávallt raunin. Róbert
Abraham Ottósson var einn þeirra listamanna er auðguðu íslenskt tón-
listarlíf með eftirminnilegum hætti. Fyrr á þessu ári var öld liðin frá
fæðingu hans.
Uppvöxtur og œskuár
Hann fæddist í Berlín 17. maí 1912 og hlaut nöfnin Robert Louis Eugen.
Foreldrar hans voru hjónin dr. Otto Abraham kvensjúkdómalæknir og
Luise (Lise) Golm, listmálari. Listir voru í hávegum hafðar á heimili
fjölskyldunnar við Genthiner Strasse 22, í sama húsi og sjúkrahúsið
sem faðirinn átti og rak af myndugleik aðeins spölkorn frá breið-
götunni Kurfúrstendamm í hjarta borgarinnar. Jafnvel gæludýrið á
heimilinu hafði tónlistargáfur, því að Otto átti páfagauk sem hafði
fullkomið tóneyra. Ef blístruð var fyrir hann til dæmis byrjunin á
Örlagasinfóníunni í vitlausri tóntegund, til dæmis heiltóni of lágt, þá
hreinlega ærðist fuglinn - og var lengi að jafna sig.1
Otto var mikill kunnáttumaður í tónlist og átti merkan feril á þeim
vettvangi. Á síðustu áratugum 19. aldar sleit barnsskónum ný fræði-
grein sem sneri að vísindalegum rannsóknum á tónlist, bæði vestrænni
og tónlist þjóðbálka víða um heim. Einn sproti þessara fræða nefndist