Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 14
12
ÁRNI HEIMIR INGÓLFSSON
ANDVARI
samanburðartónlistarfræði eða vergleichende Musikwissenschaft; með
því að skrásetja og bera saman tónlist allra heimshorna vonuðust menn
til að öðlast nýjan skilning á uppruna og frumeðli tónlistarinnar.
Á þessum vettvangi vann doktor Abraham sín mestu afrek í músík-
fræðum. Hann starfaði við stofnun sem hét Psychologisches Institut en
fékk nýtt heiti árið 1905: Berliner Phonogramm-Archiv, og hafði það
að markmiði að festa á vaxhólka tónlist frumþjóða. í fyrstu voru þeir
tveir sem veittu stofnuninni forystu, Abraham og Carl Stumpf, en síðar
bættist í hópinn Erich von Hornbostel. Þetta voru spennandi frum-
kvöðlatímar í fræðunum: árið 1900 gerðu Abraham og Stumpf fyrstu
hljóðritunina sem vitað er um af tónlist „framandi þjóða“, þegar þeir
festu á vaxhólk hirðhljómsveit frá Síam. Abraham hljóðritaði einnig
japanska og indverska tónlist, múslimasöngva og armensk þjóðlög,
og fékkst við það flókna verkefni að skrásetja slíka tónlist í vestrænu
nótnakerfi. Stumpf og lærisveinn hans, Oskar Pfungst að nafni, urðu
einnig kunnir fyrir að leysa gátuna um klára klárinn Hans, eða „kluger
Hans“. Eigandi hestsins fullyrti að hann gæti leyst reikningsþrautir og
Stumpf var fenginn til að veita forstöðu vísindanefnd sem komst að
hinu sanna í málinu. Klári Hans var síður en svo stærðfræðiséni, heldur
gat ráðið af viðbrögðum nærstaddra hvort svarið væri rétt eður ei, og
var mikið skrafað um þetta mál innan Abraham-fjölskyldunnar.2
Það mátti því heita að doktor Abraham lifði tvöföldu lífi, sem læknir
og snjall fræðimaður. Þegar hann lést árið 1926 urðu margir sjúklingar
hans forviða þegar þeir fregnuðu að læknir þeirra hefði líka verið
afkastamikill tónfræðingur, og nemendur hans ekki síður þegar þeir
heyrðu að tónfræðiprófessorinn hefði einnig rekið sjúkrahús.3 Róbert
líktist föður sínum að ýmsu leyti en ekki síst þessu: hann átti sjálfur
auðvelt með að sameina listir og vísindi.
Synirnir voru tveir, Robert og Peter, og báðir erfðu þeir tónlistar-
áhuga föðurins. Róbert fór ungur að leika á hljóðfæri og naut leiðsagnar
föður síns fyrstu árin; hann kvaðst hafa verið orðinn læs á nótur áður
en hann las á bók. í skólanum var hann beðinn að fara með stafrófið og
stóð á því fastar en fótunum að byrjun þess væri „a, h, c, d“ rétt eins og
nóturnar á nótnaborðinu. Síðar fór hann að semja sína eigin tónlist og
hafði það fyrir venju að gefa foreldrum sínum frumsamin lög á jólum.4
Fyrsta ópusnúmerið leit dagsins ljós þegar Róbert var sjö ára og fyrstu
sinfóníuna samdi hann fimm árum síðar. Aðeins þrjú framtíðarstörf
komu til greina í huga drengsins: hann ætlaði að verða hljómsveitar-