Andvari - 01.01.2012, Page 16
14
ÁRNI HEIMIR INGÓLFSSON
ANDVARI
stjóri, lestarstjóri eða kokkur. Þegar hann var 13 ára stjórnaði hann
unglingahljómsveit í fyrsta sinn, og eftir það má segja að brautin hafi
verið ráðin. í huga hans var þó alla tíð ævintýraljómi yfir eimreiðum
og lestarferðum, enda voru þær meðal þess sem hann saknaði helst eftir
komuna til íslands: „Ég elska járnbrautina og sakna hennar. Að öðru
leyti uni ég hag mínum vel.“5
Robert - eða „Robb“ eins og foreldrarnir kölluðu hann - stundaði
menntaskólanám við Falk-Realgymnasium, lauk stúdentsprófi nítján
ára gamall og innritaðist að því loknu í tónlistarfræðinám við Friedrich-
Wilhelms-Universitát, sem nú ber nafnið Humboldt Universitát. Að ári
liðnu söðlaði hann um og hóf nám í tónsmíðum og hljómsveitarstjórn
við Tónlistarháskólann í Berlín, meðal annars hjá Walter Gmeindl, sem
sjálfur hafði numið í Vínarborg hjá tónskáldinu Franz Schreker.6 Einnig
sótti Róbert einkatíma hjá Curt Sachs sem var fyrrum samstarfsmaður
föður hans, afkastamikill fræðimaður og forstöðumaður hljóðfærasafns
þýska ríkisins.
Fyrir ungan tónlistarnema á dögum Weimar-lýðveldisins var Berlín
paradís á jörðu. Þar gáfust daglega tækifæri til að drekka í sig menn-
ingu og fylgjast með heimsins mestu snillingum skapa ódauðlega list.
Fjórir nafnkunnustu hljómsveitarstjórar landsins höfðu fastar stöður í
Berlín og fluttu bæði gömul og ný tónverk af ýmsum toga. Wilhelm
Furtwángler var aðalstjórnandi Fílharmóníunnar, Erich Kleiber hélt um
sprotann í Ríkisóperunni og Otto Klemperer færði upp nýja óperulist
í Kroll-óperuhúsinu í grennd við Brandenborgarhliðið, meðal annars
fyrstu sviðsuppfærslu af Ödipusi konungi eftir ígor Stravinskíj árið
1928 með tónskáldið - og Robert Abraham á sextánda ári - meðal
áheyrenda.7
Þó var það Bruno Walter sem átti greiðasta leið að hug og hjarta
Róberts, en hann var tónlistarstjóri við Stádtische Oper í Charlottenburg, á
sama stað og Deutsche Opera reis að stríði loknu. Löngu síðar festi Róbert
á blað nokkrar æskuminningar tengdar tónsnillingnum: Tólf ára gamall
sat hann meðal áheyrenda í gamla Fílharmóníusalnum við Bernburger
Strasse og hlustaði hugfanginn á Walter stýra Berlínarfílharmóníunni.
Róbert geymdi tvo hluti eins og helgan dóm frá þessu kvöldi, tón-
leikaskrána og litla flís sem hrokkið hafði úr tónsprota stjórnandans í
miðjum klíðum og pilturinn hafði gripið upp af gólfi hljómsveitarpalls-
ins að tónleikunum loknum.8
Nokkrum árum síðar söng hann í kór undir stjórn þeirra Walters og