Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 25
ANDVARI
RÓBERT ABRAHAM OTTÓSSON
23
lék einnig með söngvurum úr bænum þegar svo bar undir. Einir slíkir
tónleikar vöktu þó misjafna hrifningu meðal heimamanna. í október
1936 héldu Róbert og Guðrún Þorsteinsdóttir söngkona, dótturdóttir
Matthíasar Jochumssonar, tónleika í Nýja bíói. Auk þess að leika með
söngkonunni flutti Róbert einn síns liðs nokkur píanólög eftir Handel,
Mozart, Beethoven, Schubert og Brahms, og lék einnig af fingrum fram
fantasíu um þrjú íslensk sönglög. Viðtökur áheyrenda voru feiknagóðar
og hrifningin raunar svo mikil að píanistinn þurfti að endurtaka eitt
númerið. Tveir lofsamlegir dómar birtust um tónleikana í blöðum
bæjarins. Ritstjóri Dags sagði kvöldið hafa verið hið „unaðslegasta
á alla lund“ og að engum gæti dulist að píanistinn væri „gagntekinn
af músík og leikur eins og sá, sem valdið hefir“. Um leið sagði hann
bæjarbúum til syndanna og varpaði fram þeirri spurningu hvernig því
viki við að hæfileikar „slíks galdramanns“ væru ekki teknir „meira en
raun er á, í þjónustu söngmenningar í bænum“.37 Askell Snorrason tók
í sama streng í Verkamanninum, sagði Róbert hafa leikið af mikilli
snilld og fullyrti að hann hefði birst „á þessum hljómleikum sem til-
finningaríkari, skapmeiri og mikilfenglegri listamaður en ég hefi áður
heyrt hann“.38
En nú dró til tíðinda, því að Tómas Björnsson, sem var byggingar-
vörukaupmaður á Akureyri, ötull stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins
og í útgáfustjórn íhaldsblaðsins íslendings, ritaði grein í blaðið til að
mótmæla því sem hann taldi „óskaplegt oflof“ er borið hefði verið á
píanóspil Róberts. Að mati Tómasar var leikurinn harkalegur og hryss-
ingslegur, og þá sjaldan að spilað hefði verið nógu veikt hefði útkoman
verið ójöfn og nokkrir tónar týnst. í slíkum flutningi taldi hann „ekkert
að finna af þeirri andans göfgi og auðmýkt sem er einkennandi fyrir
alla sanna listamenn“.39
Umsögn Tómasar vakti geysilegt umtal í bænum og ýmsir urðu til
að taka upp hanskann fyrir píanistann. Valdimar Steffensen vísaði til
lofsamlegra umsagna Friedmans og annarra stórsnillinga um aðkomu-
manninn og þótti grein Tómasar einkennast af vanþekkingu og
rökvillum enda færi tónlistin „aldrei götur illvilja og foraðs“.40 Önnur
grein, nafnlaus, tók málið öðrum tökum. Höfundur byrjar á því að gera
góðlátlegt grín að dómi „spámannsins“ Tómasar um hryssingslega
spilamennsku, en fljótlega verður alvaran yfirsterkari: