Andvari - 01.01.2012, Page 30
28
ÁRNI HEIMIR INGÓLFSSON
ANDVARI
Þau mæðgin fluttust til Reykjavíkur haustið 1940 og settust að á
Bjarnarstíg 9. Fyrst um sinn tók Róbert öllum þeim störfum sem buðust
og fékk ígripavinnu hjá breska hernum þegar annað brást. Hann birti
auglýsingar í blöðum þar sem hann bauðst ekki aðeins til að kenna
píanóleik og hljómfræði heldur tók hann einnig að sér undirleik og
útsetningu sönglaga. Ekki leið þó á löngu þar til úr rættist enda spurðist
hratt um bæinn að hér væri hæfileikamaður á ferð. Meðal píanónem-
enda hans var Þórunn Jóhannsdóttir, síðar Ashkenazy, en hún sótti tíma
hjá Róbert þar til henni var sex ára gamalli veitt innganga í Konunglegu
tónlistarakademíuna í Lundúnum.51 Róbert var einnig tónlistargagn-
rýnandi Morgunblaösins um skeið og í útvarpið lék hann bæði á píanó
og hélt erindi, meðal annars um „Upphaf óperunnar“ og „Þróun hljóð-
færa og notkun þeirra fram á 17. öld.“ Þá snaraði hann á íslensku litlu
kveri um síðustu daga Mozarts og ritaði greinaflokk um forna tónlist í
tímaritið Samtíðina', þar naut hann góðs af náminu hjá Sachs í Berlín
forðum.52
Fyrstu tvö árin sem Róbert bjó í Reykjavík stýrði hann Kór
Menntaskólans í Reykjavík og hafði söngkennsla þar á bæ ekki risið
hærra um langa hríð. Eins og kom fram í blaðadómi um eina tónleika
kórsins var hann skipaður bæði piltum og stúlkum og allfjölmennur,
og söng af öryggi lög eins og Brautgesang eftir Schumann og nýja
tónsmíð eftir Róbert sjálfan, Þingvallareið fyrir karlaraddir við kvæði
eftir Kristínu Sigfúsdóttur skáldkonu á Akureyri. Var lagið að dómi
gagnrýnanda bæði „sérkennilegt og skemmtilegt“.53
I Reykjavík fann hann líka ástina. Guðríður Magnúsdóttir var ungur
kennari við Austurbæjarskóla, fædd í Miklaholti í Hnappadalssýslu
árið 1918. Hún var dóttir Magnúsar Sigurðssonar bónda þar og
Asdísar Sigurðardóttur konu hans. Guðríður bjó með foreldrum sínum
á Skólavörðustíg og hafði séð Róbert á gangi í bænum, en kynni
tókust með þeim þegar hún bað hann að leika á píanó á skemmtun
í Austurbæjarskóla. Þau gengu í hjónaband á þrítugsafmæli Róberts,
17. maí 1942, og bjuggu fyrst í Tjarnargötu 10 en síðar á Hringbraut
143. Samband þeirra var einkar farsælt og einkenndist af gagnkvæmri
virðingu og aðdáun. Að sumu leyti voru þau andstæður. Guðríður var
ákveðin og einarðleg en enga manneskju dáði Róbert eins og hana.
Tónlistin var honum heilög köllun og það varð honum blessun að
eignast konu sem var fús til að létta af honum tímafreku veraldarvafstri
svo að hann fengi það næði sem hann þurfti til starfa sinna. A heim-