Andvari - 01.01.2012, Page 43
andvari
RÓBERT ABRAHAM OTTÓSSON
41
landsteinana. Veturinn 1956-57 bauðst honum staða aðstoðarstjórn-
anda við Stadtisches Berliner Sinfonieorchester, sem nú ber heitið
Konzerthausorchester Berlin. Aðalstjórnandi hennar var Hermann
Hildebrandt sem var íslendingum að góðu kunnur og hafði tvívegis
komið hingað til lands sem gestur Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ari fyrr
hafði Róbert stjórnað sveitinni á Mozart-tónleikum og þótti takast
svo vel að honum var boðinn fastur samningur vetrarlangt. Hann
hafði bæði gagn og gaman af því að dveljast í sinni gömlu heimaborg,
jafnvel þó að fátt væri sem fyrr, borgin tvískipt og uppbyggingu langt
frá því að vera lokið. Guðríður fylgdi manni sínum utan og kynntist
þá fæðingarborg hans í fyrsta sinn en Grétar Ottó varð eftir hjá afa og
ömmu á meðan. Þegar Róbert var ekki á hljómsveitaræfingum sat hann
löngum stundum á Ríkisbókhlöðunni og grúskaði í bókum um gamlan
kirkjusöng enda með mikið rit í smíðum á þeim vettvangi eins og vikið
verður að síðar.
Róbert stýrði fjölda tónleika þennan vetur, allt frá Beethoven til sam-
tímatónlistar. Gagnrýnendur luku lofsorði á þennan týnda son tónlistarlífs
í Berlínarborg, gátu um hin „framúrskarandi góðu áhrif“ sem hann hefði
haft á hljómsveitina með hressandi lífsþrótti sínum og aðdáunarverðu
músíkalíteti. Enda kom að því að forsvarsmenn hljómsveitarinnar föluðust
eftir Róbert til frekari starfa á vegum hljómsveitarinnar en hann afþakk-
aði. „Þó að Berlín sé hin gamla fæðingarborg mín og ég hafi haft þar
hin beztu starfsskilyrði, saknaði ég alltaf íslands, landsins, loftslagsins,
málsins, og hefði ekki viljað setjast að til lengdar í útlöndum.“92 Það var
ekki eingöngu gamla heimaborgin sem falaðist eftir kröftum Róberts
heldur bauðst honum einnig að stjórna í ættlandi forfeðra sinna. I nóvem-
ber 1962 stjórnaði Róbert Útvarpshljómsveitinni í ísrael á tónleikum í
Jerúsalem og Beersheba, bæði klassískum verkum eftir Haydn, Mozart
og Schumann, svo og verkum eftir norræn tónskáld, Nielsen og Jón Leifs.
Eins og sjá má á fjölbreyttu efnisvali Róberts sem kór- og hljóm-
sveitarstjóra var hann feikilega vel að sér í sögu og flutningi tónlistar
frá öllum tímum, frá elstu kirkjusöngvum til samtímatónlistar. Þó
voru Mozart, Beethoven og Brahms hans menn öðrum fremur. Þegar
Tónlistarfélagið minntist 200 ára afmælis Mozarts árið 1956 hélt Róbert
stutta tölu og gat þess að hann hefði - rétt eins og Bruno Walter - ekki
fyllilega lært að meta Mozart fyrr en hann var kominn á fullorðinsár.
Þá hefði hann fyrst skilið orð gamals frænda síns í Berlín sem hafði eitt
sinn sagt honum þá sögu að þegar Drottni þóknaðist að láta mennskan