Andvari - 01.01.2012, Page 50
48
ÁRNI HEIMIR INGÓLFSSON
ANDVARI
leitaði að, fyrirmyndir að nánast öllum söng Þorlákstíða í enskum hand-
ritum dóminíkanamunka frá 12. og 13. öld.
I fyrri hluta ritgerðar sinnar gerir Róbert grein fyrir tíðasöngnum
og uppbyggingu hans en í síðari hlutanum fjallar hann um það hvenær
Þorlákstíðir hafa getað orðið til og leiðir getum að mögulegum höfundi.
I blaðaviðtali skömmu fyrir doktorsvörnina sagði hann:
Það var alls ekki ætlunin í fyrstu að skrifa um þetta neina doktorsritgerð. [...]
Ég byrjaði að rannsaka þetta handrit, eingöngu af því að ég hafði gaman af
því, enda hefi ég lengi haft áhuga fyrir fornri kirkjutónlist. Svo var ég einu
sinni staddur í Árnasafni og ympraði á því við próf. Jón Helgason, hvort
Árnasafn mundi hafa nokkurn áhuga á að gefa út ritgerð um Þorlákstíðir.
Hann svaraði því litlu. „Ég hefi nefnilega fundið fyrirmyndirnar", sagði ég.
Þá leit hann snöggt upp. Og úr því varð það, að bókin er komin út. - Eg
átti um það að velja að skrifa hana á ensku, frönsku eða þýzku og valdi af
skiljanlegum ástæðum mitt gamla móðurmál. Þá voru það nokkrir menn,
sem fannst ritgerðin þess virði að vera varin sem doktorsritgerð. Háskólinn
hér hefur enga tónvísindadeild og því kom til mála að leggja ritgerðina fram
annars staðar. En mér fannst skemmtilegra að verja hana við íslenzkan
háskóla, ef Háskóli íslands sæi sér fært að taka við ritgerðinni, því þetta er
íslenzkt efni og um íslenzkan dýrðling.106
Ritgerðin var gefin út í ritsafninu Bibliotheca Arnamagnœana og
vörnin fór fram við Háskóla Islands laugardaginn 10. október 1959.
Andmælendur voru Magnús Már Lárusson prófessor í kirkjusögu og
Bruno Stáblein prófessor við tónlistardeild Háskólans í Erlangen í
Þýskalandi og einn virtasti Gregorsöngsfræðingur áranna eftir stríð.
Þeir luku báðir lofsorði á verk Róberts og lýstu það grundvallarrit á
Norðurlöndum um þetta efni. Stáblein var íslenska doktornum æ síðan
innan handar þegar spurningar vöknuðu sem erfitt var að svara með
fábrotnum bókakosti norður í Dumbshafi. Þetta var hátíðarstund og
þótt úti geisaði haustlægð með úrhellisrigningu lagði fjöldi manns leið
sína í Háskóla Islands þennan dag, þeirra á meðal rektor, biskup og
menntamálaráðherra.107 Þessi stund var sérlega dýrmæt í huga Róberts
fyrir þær sakir að hann hafði hrakist burt frá háskólanámi í skugga nas-
ismans og doktorsprófið var eina háskólagráðan sem honum hlotnaðist
um ævina. I sjálfu sér segir það meira en margt annað um metnað
Róberts og kjark. Hann stefndi ótrauður á hæsta tindinn.
Þótt ritgerðin um Þorlákstíðir sé mesta verk Róberts á fræðasviðinu
hélt hann áfram rannsóknum á íslenskri tónlistarsögu eftir því sem tími