Andvari - 01.01.2012, Síða 57
andvari
RÓBERT ABRAHAM OTTÓSSON
55
Maður í mörgum tóntegundum
Vinir, kunningjar og samstarfsmenn Róberts hafa lýst honum með
margvíslegum hætti, í endurminningum sínum, útvarpsviðtölum og
blaðagreinum. Hér er ekki úr vegi að draga saman nokkra helstu
þræðina, bregða upp mynd af manninum sjálfum. Jafnvel sínum
nánustu var Róbert nokkur ráðgáta, til dæmis einum elsta vini sínum á
Islandi, Halldóri Halldórssyni, sem lýsti honum svo í minningargrein:
Andstæðurnar í sálarlífi Róberts komu fram með ýmsum hætti. Stundum var
hann barnslegur - allt að því barnalegur - en jafnframt lífsreyndur og speking-
ur að viti. Hann var ofsafenginn í skapi, en samtímis var hann hjartagæzkan og
mildin sjálf. Hann var vinnuþjarkur, sem oft á tíðum unni sér engrar hvíldar, en
þó undi sér enginn maður betur að leik og skemmtan með góðum vinum. Hann
var metnaðargjarn í lífi og starfi, en þó gat ekki lítillátari mann. [...] Hann
tamdi ótemjuna í sjálfum sér og lét hvern eðlisþátta sinna njóta sín sem hæfði
hverju atviki. Persónuleiki hans var ekki hljómkviða í moll eða dúr. Hann var
í mörgum öðrum tóntegundum og þeim næsta sjaldgæfum.126
Róbert var fremur lágvaxinn, nokkuð þéttur á velli en léttur í spori,
með myndarlegt, bogið nef og ljósblá augu sem jafnan horfðu beint og
einlæglega í augu þess sem hann ræddi við. A stjórnandapallinum voru
hreyfingarnar hraðar og fjörlegar og hlaðnar smitandi krafti. Hann gaf
sig allan í flutninginn og þegar hann lagði frá sér tónsprotann var oft
ekki þurr þráður á honum.127 Innan veggja heimilisins var Róbert oftast
klæddur í rauðbrúnan silkislopp utan yfir fötin, og pípan var heldur
aldrei langt undan.128
Verklegar framkvæmdir voru ekki hans sterkasta hlið enda tók
Guðríður ábyrgð á öllu veraldarvafstri. Eitt sinn var hafist handa við
að lagfæra baðherbergið á Hjarðarhaga meðan Róbert var erlendis en
ekki tókst að ljúka fráganginum í tæka tíð áður en hann kom heim.
Þegar Róbert ætlaði í bað að morgni dags eftir heimkomuna var honum
svo misboðið að hann tók leigubíl á morgunsloppnum yfir í Sundhöll
Reykjavíkur. Reyndar fór Róbert gjarnan í sund og átti það líka til
að iðka sjóböð, þó eingöngu að vetrarlagi og vakti þá nokkra athygli
nágrannanna þar sem hann gekk á morgunsloppnum af Hjarðarhaganum
niður að Ægissíðu, klöngraðist milli fjörusteina og dýfði sér í ískaldan
sjóinn.129