Andvari - 01.01.2012, Side 74
72
SIGRÚN MAGNÚSDÓTTIR
ANDVARI
falleg“ hvað málið varðar, en öðrum finnast skrif og þýðingar Hallgríms ekki
allar lipurlega gerðar. Tvær hliðstæðar sögur við Selíkó og Berissu eru til í
handritum eftir Hallgrím. Önnur er um kósakka á steppum Rússlands og hin
um indíána á sléttum Bandaríkjanna.10 Hallgrímur var ávallt vakandi fyrir
margbreytileika mannlífsins og stöðugt hafði hann mikilvægi fræðslu í huga.
Hann vildi upplýsa almenning og vekja samúð fólks með lítilmagnanum og
kúguðum þjóðabrotnum hvar sem þau voru í heiminum.
Á Bessastöðum
Hallgrímur Scheving kom vafalítið fullur eldmóðs og hugsjóna til Bessastaða
árið 1810. Honum hefur verið það tilhlökkun að gerast kennari, enda hluti
af námi hans kennaramenntun. Laun og aðbúnaður allur á Bessastöðum
valda honum hins vegar vonbrigðum, en mikill vöru- og peningaskortur
var á þessum árum á íslandi. Siglingar höfðu verið afar stopular, enda fjár-
hagur Danaveldis bágur eftir Napóleonsstríðin. Eftir tveggja til þriggja ára
dvöl við skólann tók hugur hans stefnuna norður. Hann sóttist eftir prests-
skap á stórbýlinu Grenjaðarstað í Þingeyjarsýslu, þar sem faðir hans sat og
afi og langafi höfðu þjónað. Hann verður fyrir því að vera tvívegis hafnað
sem umsækjanda um brauð, bæði Grenjaðarstað og síðar Múla, en prests-
setrin voru nánast á sömu torfunni.11 Hann sá sína sæng upp reidda og fastréð
sig við Bessastaðaskóla árið 1815 og sökkti sér jafnframt niður í vísindastörf.
Orðabókagerð og þekking á sögu tungumála var enn einn angi þjóðernisvakn-
ingarinnar, og orðasöfnun varð aðaláhugamál Hallgríms fyrir utan kennsluna.
Tveimur árum síðar fékk hann doktorsnafnbót við Kaupmannahafnarháskóla
fyrir ritgerð á latínu um Brútus.12 Sama ár skrifaði Hallgrímur langt bréf til
jafnaldra og vinar frá Kaupmannahöfn, Bjarna Þorsteinssonar, og lýsti fyrir
honum störfum sínum við endurbætur eða viðbætur við orðabók séra Björns
Halldórssonar. Bréfið geymir dýrmætar upplýsingar um nákvæm og fagleg
vinnubrögð hjá ungum kappsfullum vísindamanni varðandi orðasöfnun.13
Margir samverkandi þættir urðu eflaust til þess að einhver strengur brast
hjá Hallgrími og skáldneistinn dvínaði sem og krafturinn að koma verkum
frá sér. Hann helgaði sig fyrst og fremst kennarastarfinu og hafa ummæli og
minningar skólasveina Bessastaðaskóla haldið nafni hans helst á lofti. Hann
var í senn félagi skólapilta og strangur lærifaðir. Þrátt fyrir aga og alvar-
leika í kennslu var hann virtur af öllum nemendunum og margir dáðu hann.
Hallgrímur umgekkst skólapilta mikið og varð eflaust nátengdari þeim en
aðrir kennarar sökum þess að hann bjó alla sína kennaratíð á Bessastöðum, í
litlu timburhúsi sem hróflað hafði verið upp við austurhlið skólann af miklum
vanefnum. Hann stóð á verðinum, þegar aðrir flýttu sér heim að borða eða