Andvari - 01.01.2012, Síða 96
94
GUÐRÚN KVARAN
ANDVARI
andi listi yfir útgáfuverk Jóns en hann sýnir að Jón var óhræddur við að takast
á hendur erfið og tímafrek verkefni. Útgáfur þarf alltaf að bera að samtíma
þeirra, ekki nútímanum með allri þeirri tækni sem hann hefur yfir að ráða,
og af verkunum er ljóst að Jón var vandaður fræðimaður síns tíma sem mat
mikils bæði verkin sem slík og það tungumál sem þau voru rituð á. Finnur
Jónsson prófessor gerði rækilega grein fyrir fræðistörfum Jóns í Skírni 19112
og vísast til þeirrar greinar þeim sem kynna vilja sér þau nánar.
Þótt Jón hafi verið samtímamaður Fjölnismanna skrifaði hann ekkert í
Fjölni og virðist ekki hafa tekið þátt í málræktarhvatningu á sama hátt og
þeir. Finnur Jónsson nefnir að Jóni hafi aldrei samið við Fjölnismenn og gerir
grein fyrir muninum á þeim annars vegar og Jóni hins vegar:
þeir vildu helst líta á lífið eins og það ætti að vera eftir þeirra skoðun, þeir voru
»ídealistar«; Jón var aftur á móti af alt öðru bergi brotinn. Hann leit á lífið eins og það
var, skildi kjör þess og takmörk, og vildi alla tíð hegða sér eftir því. Hann var »realisti«.
Ekki svo að skilja þó, sem hann væri hugsjónalaus maður. 3
Jón og Fjölnismenn áttu því ekki samleið og ýmislegt leiddi til þess, að
skoðun Finns, að Jón fékk ekki eða vildi ekki afnot af Fjölni sem mál-
gagni. Aðalmálgagn Jóns Sigurðssonar í baráttunni fyrir þjóðfrelsismálum
Islendinga varð því tímaritið Ný félagsrit sem hann átti þátt í að stofna 1841
ásamt nokkrum Islendingum og varð ritstjóri að meðan ritið kom út eða til
1873. Þar birti hann flestar greinar sínar um stjórnmál næstu þrjátíu árin.
Síðustu greinarnar um slík efni birti hann í Andvara en hann var í ritnefnd
þess tímarits þar til hann lést 1879.
Finnur Jónsson bendir á að ekkert liggi eftir Jón um málfræði, þótt hann
hafi verið málfræðingur í upphafi, en málfræðikunnátta hans komi fram í
þeim mörgu formálum, inngöngum og athugasemdum sem hann ritaði fyrir
útgáfum sínum og öðrum verkum:4
Hvað íslenskt mál snertir, ritaði hann það ætíð tildurlaust og blátt áfram, eftir því
sem orðin fellu eðlilegast. Hann notaði það mál, sem til var, en hefir ef til vill tilbúið
sjálfur einstöku orð, en þau voru þá þannig, að enginn fann að þau voru nýyrði. [...]
Ekkert hefði Jóni mislíkað meir, en sá málrembingur, sem sumir nú á dögum tíðka sér.
Hann hefði litið óhýru auga til þeirra, sem ekki geta skrifað línu svo að ekki séu átján
»kendir« í eða önnur nýmóðins skrípi, sem ekki stafa af öðru en fákunnáttu þeirra og
klaufaskap, er rita. Hann var jafnfjarri þeim, er ekki geta stungið niður penna svo, að
þeir noti ekki orð og orðatiltæki, sem tíðkuðust á 14. og 15. öld, en þess á milli viðhafa
útlenskuslettur og nýyrði, svo alt verður einn mislitur hrærigrautur og ógeðfeldur á
bragðið.5
Þetta er skoðun Finns Jónssonar en hvað er unnt að lesa úr skrifum Jóns sjálfs
um tunguna og verndun hennar? Hann skrifaði ekki mikið um málið en þó