Andvari - 01.01.2012, Side 107
ANDVARI
SÉRKENNILEGUR, UNDARLEGUR OG FURÐULEGUR EINFARI
105
Fleyg urðu orð Jean-Paul Sartre í leikritinu Huis Clos (1944) „L‘enfer, c‘est
les autres“ (helvíti eru hinir). Einn helsti vandi þeirra sem eru daprir og þung-
lyndir er að þeir sækja í aðra til að fá ást, hvatningu, uppörvun og gleði.
Stundum fá þeir það en mjög oft veldur hitt fólkið vonbrigðum og við það
dvelur sá þunglyndi löngum. í Dægradvöl ræðir Benedikt Gröndal ítrekað
um þann skort á ást og uppörvun sem hann saknar hjá sínum nánustu og
öðrum - það virðist vera sá missir sem veldur þunglyndinu. Á æskuárunum í
Kaupmannhöfn er hann „melankólskur og dulur“ og bæti við: „ástar þurfti ég
með, en ég hafði ekkert til að elska, ég gaf mig ekkert að kvenfólki... puntaði
mig og dreif á götunum“ (Dægradvöl, 123).
Enn uppteknari er hann af skorti á ást og hlýju úr foreldrahúsunum:
Þó að foreldrum mínum þætti vænt um mig, þá voru mér ekki blíðleg atlot sýnd né
vinalegt viðmót; ég varð snemma einstæðingslegur, og hefur það ráðið allri stefnu
minni seinna og verið orsök til þeirrar alvöru, sem mér er tamt að geyma með sjálfum
mér, þó ég annars á seinni árum hafi orðið glaðlyndari ofan á. Ég fékk þráfaldlega að
heyra, hvað ég væri ljótur, klaufalegur og latur, en hrós man ég ekki til, að ég fengi
nokkurn tíma að heyra; sjálfsagt hef ég átt þetta álas skilið, en uppörvan hafði ég enga,
hvorki þá né nokkurn tíma síðar á mínum eldri árum. Allt hvað ég hef gert, það hef ég
gert alveg uppörvunarlaust. Við börnin vorum látin þéra foreldra okkar, eins og þá var
títt með heldra fólki, en ég held að það hafi fjarlægt okkur frá þeim; við þorðum aldrei
að nálgast þá eða vera náttúruleg og hjartanleg, en við höfðum fremur ótta af þeim
(Dægradvöl, 17).
Það er dæmigert fyrir viðtökur Dægradvalar að stutt saga sem fer hér rétt
á undan um hversu fúll og einrænn Benedikt Gröndal var og hvernig hann
sagðist vera að smíða hlandfor þegar lektor kom aðvífandi er margívitnuð
gamansaga en samhengið er þó fremur átakanlegt. Velta má því upp hvort
orðin um að Gröndal hinn barnungi sé ljótur, klaufalegur og latur hafi tekið
bólfestu í sinni hans og af því korni hafi síöan vaxið þunglyndið sem virðist
gegnsýra Dægradvöl.
„Allt hvað ég hef gert, það hef ég gert alveg uppörvunarlaust": Þetta verður
leiðarstef í Dægradvöl því að hvað eftir annað víkur Benedikt Gröndal að
hvatningu sem hann hefur verið svikinn um í tímans rás. Þegar hann snýr
aftur til Reykjavíkur árið 1850 segir hann um föður sinn: „samt vissi ég, að
faðir minn hafði álit á mér niðrí, þó hann ekki færi hátt með það, því hann
var aldrei vanur að hrósa okkur, enda er leiðinlegt að heyra hvernig foreldrar
- kannske flestir - hrósa börnum sínum, oftast fyrir ekkert, eins og þau séu
óviðjafnanleg“ (Dægradvöl, 151). Almennt hefur Gröndal föður sinn á stalli
og ver hann ítrekað fyrir árásum annarra og er dæmigert fyrir manneskju
sem þjáist af depurð; þeir þunglyndu verða gjarnan uppteknir af látnu fólki
sem þeir trega og hafa fyrir helgimyndir. Á hinn bóginn er greinilegt að upp-
örvunarleysi föðurins situr þungt í Gröndal.