Andvari - 01.01.2012, Síða 153
ANDVARI
DOKAÐ VIÐ EFTIR DICKENS
151
mynd af frumverkum Dickens að allt eins mætti kalla þær aðlaganir. Raunin
er sú að mörkin milli þýðinga og aðlagana eru oft ógreinileg, enda geta að-
laganir talist þýðingar í rúmum skilningi þess hugtaks.27 Hér má því einnig
líta til þess að á íslensku hafa komið út tvær myndasögur, semsé bækur, um
Oliver Twist með íslenskum þýðingum,28 og eina þýðingin sem við höfum
eignast til þessa á skáldsögunni Great Expectations er stutt myndasaga sem
birtist á bók árið 1995 undir heitinu Glæstar vonir.29 Og sé litið til aðlagana
má segja að þriðja íslenska þýðingin á jólasögunni „A Christmas Carol“ sé
Disney-myndasagan Jóakim frændi og jólin í þýðingu Guðna Kolbeinssonar,
saga sem minnir okkur rækilega á það að Disneypersónan Jóakim frændi
(Scrooge McDuck) er eftirmynd og yfirleitt fremur sakleysislegt „þýðingaraf-
brigði“ nirfilsins Ebenezer Scrooge í jólasögu Dickens.30
Aðlaganir á skáldverkum mikilvægra höfunda gegna oft umtalsverðu hlut-
verki í menningarmiðlun. Þær geta verið merkisverk á eigin forsendum og vekja
vafalaust oft löngun fólks til að lesa kynna sér verkin sem að baki búa. Þetta á
ekki aðeins við um styttar textagerðir fyrir yngri lesendur og um myndasögur
sem gerðar eru eftir skáldsögum, heldur um allt sjónrænt og hljómrænt efni
sem skapað er á grunni ritmáls. Fyrstu kynni sumra Islendinga af söguheimi
Dickens hafa líklega átt sér stað í Reykjavík árið 1913, þegar þar var sýnd
þögul kvikmynd sem William J. Humphrey gerði (1911) eftir skáldsögunni A
Tale of Two Cities.31 Þá var aftur hægt að spyrja, eins og Brynjólfur forðum:
Hefurðu séð Dickens? Æ síðan hafa margir kynnst verkum Dickens fyrst á
hvíta tjaldinu, á leiksviði eða á sjónvarpsskjánum. Kvikmyndir byggðar á David
Copperfield og Little Dorrit voru sýndar í Reykjavík á þriðja áratug síðustu
aldar og Dickens hefur verið fastagestur í kvikmyndahúsunum síðan og jafn-
framt á sjónvarpsskjánum, þar sem bæði hefur mátt sjá kvikmyndir og sjón-
varpsþáttaraðir (m.a. vandaða þætti frá BBC) sem byggðar eru á skáldsögum
hans - og þessu myndefni hafa að sjálfsögðu fylgt íslenskar textaþýðingar. Fyrr
á árum voru og flutt í Ríkisútvarpinu nokkur framhaldsleikrit byggð á sögum
Dickens, m.a. Oliver Twist og David Copperfield. Feikgerðir á sögum Dickens
hafa nokkrum sinnum verið á sviðum íslenskra leikhúsa, t.d. barnaleikrit um
Oliver Twist og leikrit byggð á jólasögunni fyrrnefndu, „A Christmas Carol“.
Hinar margvíslegu aðlaganir á verkum Dickens sem ratað hafa inn í ís-
lenskt menningarlíf hafa vitaskuld veruleg áhrif á stöðu hans sem höfundar
á þeim vettvangi. Fíta má á slíkar aðlaganir sem menningarfærslu er mótar
meðal annars vitund okkar um fyrirbæri og fólk sem öðlast gildi þvert á mörk
tungumála og þjóða. Annað afbrigði slíkrar vitundarsýslu má sjá í heilmik-
illi umfjöllun um Dickens á íslensku, eins og nú má auðveldlega sannreyna
með leit á hinum gagnlega vef „timarit.is“. Dickens hefur verið vinsælt við-
fangsefni íslenskra blaða og tímarita um langt skeið. Að vísu hefur lítt borið á
ítarlegri og vandaðri umræðu um ritverk hans á íslensku, en þeim mun meira