Andvari - 01.01.2012, Page 166
164
HJALTI HUGASON
ANDVARI
Hafnarstúdentar helguðu sig ekki allir náminu af alúð frá fyrsta degi til
lokaprófs. A 19. öld var nýlenda þeirra löngum frjó deigla menningar- og
þjóðmálaumræðu sem á sínum tíma fór fram við fótskör Jóns forseta (d.
1879 eða þegar Þórhallur var á þriðja námsári). Þátttaka í þessu starfi mótaði
marga þeirra til lífstíðar og bar margháttaðan ávöxt í sjálfstæðisbaráttunni, í
bókmenntalífi þjóðarinnar, á vettvangi þjóðlífsins almennt og í persónulegu
lífi. Dvölin lék marga þeirra þó æði grátt og sumir áttu ekki afturkvæmt.29
Þórhallur gat haldið sig vel í höfuðborginni og notið stúdentsáranna bæði í
skemmtanalífi og þjóðmálavafstri.30 Guðfræðinámið mun ekki hafa heillað
Þórhall hvort sem þar hefur verið um að kenna persónulegu áhugaleysi hans
á fræðigreininni, prestskapnum sem framundan var, trúmálum almennt eða
deyfðarástandi við guðfræðideild Hafnarháskóla eins og hún var um hans
daga.31 A því tímabili sem Þórhallur stundaði þar nám fjölgaði útskrifuðum
kandídötum og nokkuð var um mannabreytingar. Kennsluhættir voru þó hefð-
bundnir og lítið bar á fræðilegum nýjungum nema helst á sviði gamlatesta-
mentisfræða. Þá skilgreindi deildin sig sem hefðbundinn prestaskóla fremur
en fræðilega háskóladeild.32 Hvað sem um það var lauk Þórhallur kandídats-
prófi með fyrstu einkunn í byrjun árs 1883. Vinur hans, Magnús Helgason
(1857-1940) prestur og fyrsti forstöðumaður Kennaraskólans, lýsti trúarskoð-
unum hans um þessar mundir svo að þær hafi verið „miklu frjálslegri og
bjartari“ en þá voru ríkjandi við Hafnarháskóla.33 Er torvelt að meta hvað
þessi lýsing merkir. Aðrir samtímamenn Þórhalls í Kaupmannahöfn töldu að
lítið færi fyrir trú hans og hann væri jafnvel trúlaus. Um það verður ekki
dæmt hér en Þórhallur var vissulega í forystusveit Hafnarstúdenta á þeim tíma
sem áhrifa Georgs Brandes gætti sem mest, m.a. meðal íslenskra stúdenta.34
Þegar Þórhallur hvarf heim eftir á sjötta ár í Höfn fór það orð af honum að
hann sæi eftir námsvalinu, væri afhuga prestskap og líklegast væri að hann
legði fyrir sig stjórnmál sem að nokkru gekk eftir.35
Vera má að hér sé að finna túlkunarlykil að starfssögu Þórhalls Bjarnarsonar,
þ.e. að námsvalið hafi verið byggt á veikum grunni og öll hin veraldlegu hlut-
verk sem hann gegndi hafi öðrum þræði verið flóttaleið hans frá prestskap
og kirkjulegri þjónustu. Þrátt fyrir þetta vann hann kirkju sinni þó vissu-
lega margháttað gagn sem guðfræðikennari, tímaritaútgefandi og biskup. í
tveimur fyrrnefndu hlutverkunum var hann um áratugaskeið skoðanamótandi
á sviði guðfræði- og kirkjumála á umbrotatímum.
Trúmaður á tímamótum
Eins og fram er komið greindi Haraldur Níelsson sig frá Þórhalli Bjarnarsyni
að því leyti að starfsvettvangur hans getur vissulega talist óvenju sérhæfður