Andvari - 01.01.2012, Page 172
170
HJALTI HUGASON
ANDVARI
og haldið sig við einfaldan en strangan boðskap og haft ímigust á „nýju guð-
fræðinni" sem Haraldur og Þórhallur voru fulltrúar fyrir.5S Þessi greining á
guðfræði Bjarna er tæpast nægilega undirbyggð í verkinu og skal hér leitast
við að fylla út í þá eyðu.56
Lítið efni sem telja má guðfræðilegt er til á prenti eftir Bjarna Þorsteinsson.
Það vekur þó athygli að 1896 birti hann stutta umsögn í Kirkjublaðinu, riti
Þórhalls Bjarnarsonar, um Helgidagaprédikanir Páls Sigurðssonar (1839-1887)
í Gaulverjabæ sem komið höfðu út að honum látnum tveimur árum áður.57 í um-
sögninni snýst Bjarni gegn ummælum Friðriks J. Bergmann prests í Vesturheimi
og Jóns Helgasonar prestaskólakennara. Báðir þessir menn voru á þessum tíma
mótaðir af vakningarkristindómi í ætt við Heimatrúboðið á Norðurlöndum en
áttu eftir að snúast á sveif með aldamótaguðfræðinni.58 Friðrik J. Bergmann
álítur í ritdómi sínum að Páll boði trú sína eða kristindóm sinn af heiðarleika í
hugvekjunum en það sé því miður „bilaður" kristindómur. Telur hann að í ritinu
sé flutt kenning sem byggi vissulega á hefðbundnum kristnum hugtökum en
fái þar nýja og óljósa merkingu. Telur hann Pál fremur höfða til höfuðsins en
hjartans, þ.e. fremur skynsemi lesendanna en tilfinninga þeirra enda álítur hann
Pál hrífast fremur af Sókratesi en Kristi. Helsta veikleika ritsins telur Friðrik
þó vera að höfundinn skorti guðfræðilega menntun. Með tilvísun til orða Páls
sjálfs telur Friðrik hugvekjurnar vera eins og „ský sem skyggi á Krist“ og álítur
þær til þess fallnar að gera fólk afhuga kristni. Lítur Friðrik svo á að komi ein-
hver kenning fram í prédikununum sé það únítarismi.59 Jón Helgason tók undir
það álit Friðriks Bergmann að hugvekjusafnið væri hryggilegt tákn tímans en
óttaðist ekki áhrif þess þar sem það væri of „kostasnautt" til að geta öðlast
hylli.60 Bjarni hældi aftur á móti hugvekjunum sem hann taldi góðar, uppbyggi-
legar, vekjandi og fræðandi, fullar af lífi og krafti. Sagði hann þær lýsa brenn-
andi áhuga höfundar á tímanlegri og eilífri velferð lesendanna og óbilandi trú
á guðlega forsjón og sigur hins góða. Harmaði hann aðeins að bókin hefði ekki
að geyma helmingi fleiri hugvekjur.61
Páll í Gaulverjabæ var einn af fyrstu málsvörum frjálslyndrar guðfræðihefð-
ar í landinu ásamt nágrannapresti sínum, Matthíasi Jochumssyni (1835-1920)
í Odda. Þeir höfðu kynnt sér rit bandaríska guðfræðingsins W. W. Channings
(1780-1842) en hann hafnaði ýmsum hefðbundnum kennisetningum kristn-
innar og varð að lokum prestur í kirkju únítara. Þá boðaði hann og félags-
legan kristindómsskilning. Endurómuðu sumar af hugmyndum Channings í
prédikunum Páls sem m.a. vildi að kirkjan losnaði úr hinum nánu tengslum
sínum við ríkisvaldið en lyti frekar stjórn fólksins sjálfs. Þá leit hann svo á
að eitt helsta hlutverk kirkjunnar væri að mennta og móta frjálsa þjóð. Loks
var hann fylgjandi auknu frelsi kvenna.62 Af hinni jákvæðu umsögn hlýtur að
mega ráða að Bjarni hafi í meginatriðum verið sammála þeim boðskap sem
fram kom í hugvekjunum.