Morgunblaðið - 22.12.2022, Blaðsíða 66
MENNING66
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. DESEMBER 2022
Í
tilefni af aldarafmæli fullveldis
Íslands samþykkti Alþingi
17. júní árið 2018 að ganga til
samstarfs við Hið íslenska
bókmenntafélag (HÍB) um út-
gáfu tveggja ritverka. Annað var
yfirlitsverk um sögu íslenskra
bókmennta en hitt þessi
tilkomumikli „hlunkur“,
glæisilega hannað og
frágengið bókverk sem
var einstaklega vel til
fundið að taka saman
og fjallar um Þingvelli
í íslenskri myndlist.
Þann táknum hlaðna
stað sem Páll Valsson
kallar í texta sínum „hjartastað
þjóðar“ og segir að hvergi á íslandi
sé tilfinningin fyrir hinu „íslenska“
sterkari en einmitt þar. Og svo
sannarlega hafa íslenskir listamenn
skapað allrahanda myndverk á og
um Þingvelli, það sýnir fjölbreyti-
legt úrvalið, ein 269 verk eftir 104
listamenn. Fjöldi klassískra og
fyrirsjáanlegra myndverka í þessu
samhengi en blessunarlega líka
önnur og óvæntari, meðal annars
eftir einfara í listinni og ólíka sam-
tímalistamenn.
Við upphaf bókar ávarpa lesendur
þeir Steingrímur J. Sig-
fússon, forseti Alþingis
þegar samstarfið við
HÍB hófst – hann rekur
tilurð þess, og Sverrir
Kristinsson, formaður
ritnefndar, sem segir
að HÍB hafi „um árabil
haft hug á því að gefa út
veglega listaverkabók
með myndum frá Þingvöllum eftir
helstu myndlistarmenn þjóðarinn-
ar“. Megintextana rita síðan bók-
menntafræðingurinn Páll Valsson
og listfræðingurinn og ritnefndar-
maðurinn Aðalsteinn Ingólfsson.
Það var vel til fundið að fá Pál að
verkinu, höfund ævisögu Jónasar
Hallgrímsson, sem reifar fallega
aðkomu lykilskálda og rithöfunda
að ímynd Þingvalla á seinni tíð, þar
sem „fléttast órjúfanlega saman hin
sögulega vitund og stórbrotin nátt-
úran sem talar svo sterkt og skýrt
til hvers sem þangað kemur.“
Í upplýsandi og vel stílaðri grein
sinni útskýrir Aðalsteinn síðan
nálgunina við valið á myndlistinni
í bókina en í henni er „haldið til
haga helstu Þingvallamyndum
eftir fremstu listamenn landsins,
fyrr og nú, einkum myndum þeirra
tveggja listamanna sem oftast
hafa fjallað um staðinn, Ásgríms
Jónssonar og Jóhannesar Kjar-
vals. Um leið er hugað að framlagi
svokallaðra „alþýðumálara“.“ Þá
segir að myndasöfnun fyrir bókina
einskorðaðist við listamenn búsetta
á landinu, sem útilokar fjölda
áhugaverðra verka erlendra mynd-
listarmanna sem hafa allt frá 18. öld
gert myndverk á Þingvöllum – en
skiljanlega þurfti að setja þessu
bókverki ramma.
Fengur er að upplýsingum um
það hvenær listamenn hafa unnið á
Þingvöllum – til að mynda á hvaða
árum Kjarval var þar að mála, og
hversu margir lögðu á það stund á
hverju tímabili. Aðalsteinn segir að
sú könnun hafi leitt í ljós að frá um
1863 til 2021 hafi á annað hundrað
myndlistarmanna notað Þingvelli
sem viðfang fyrir list sína, og aðeins
um fjórðungur konur. Þar kemur til
dæmis á óvart að frá síðustu alda-
mótum og þar til á síðasta ári „hafa
nokkrir tugir ungra listamanna
komið til Þingvalla til þess að mála
þar myndir.“ Þessi gildishlaðni
staður sem öðlaðist svo mikið vægi
í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar
og rómantíkinni laðar listamenn
því ennþá að, til að vinna á þann
klassíska hátt.
Aðalsteinn fjallar um þá athyglis-
verðu staðreynd að hér á landi voru
ljósmyndarar á undan listmálurum
til að skrá markvisst íslenskt lands-
lag – „Ýmislegt bendir til þess að
um miðja 19. öldina hafi ljósmyndin
fyllt upp í ákveðið tómarúm í lítt
burðugri sjónmenningu Íslendinga,
áður en málaralistin skaut rótum á
landinu fyrir alvöru,“ skrifar hann.
Þar var Sigfús Eymundsson, fyrsti
íslenski ljósmyndarinn og enn einn
sá besti, mikilvægur frumkvöðull
og Aðalsteinn segir hann réttilega
ekki bara hafa verið frumkvöðlum
málaralistarinnar hér fyrirmynd
„heldur var hann helsti „ímyndar-
smiður“ Þingvalla út á við“. Í ljósi
þess mikilvægis sem Sigfúsi er gefið
er óskiljanlegt hvers vegna þrjú
verka hans eru aðeins birt lítil með
grein Aðalsteins en ekkert með
hinum útblásnu myndverkum aftar.
Vitaskuld á til dæmis mynd hans af
Öxarárfossi og hornaflokki Helga
snikkara frá 1874 að vera þar á
heilli síðu. Og fleiri til. Slík kjánaleg
aðgreining klassískra ljósmynda og
annarrar myndlistar hefur bless-
unarlega horfið á síðustu áratugum
úr söfnum og öðrum myndlistar-
stofnunum Vesturlanda og það er
sérkennilegt sjá eima eftir af henni í
þessu annars glæsilega verki.
Myndlistarhluti bókarinnar er
annars áhrifaríkur, upplýsandi
og á margan hátt ævintýralegt
að fara gegnum. Víða hefur verið
leitað fanga og er það vel; í skrifum
Aðalsteins kemur fram að reynt
var að skoða eins mörg verk frá
Þingvöllum og frekast var kostur.
Auk myndefnis sem er skráð hjá
opinberum söfnum eru margir
ritnefndarmanna vel kunnugir
verkum frá staðnum sem eru í
einkaeigu og gátu valið úr þeim. Þá
var ítrekað auglýst eftir ábending-
um frá almenningi um áhugaverðar
Þingvallamyndir. Skoðuð voru yfir
þrettán hundruð verk og þessi 269
valin. Aðalsteinn segir stefnt að
því að birta öll verkin á vefsvæði í
framtíðinni og er það tilhlökkun-
arefni.
Ritnefnd þurfti að koma mynd-
verkunum í eitthvert kerfi eða kafla
og fer þá leið að flokka þau eftir
því hvaða staði eða svæði þau sýna
– við Öxará, í Almannagjá, í átt
að Ármannsfelli og svo framveg-
is, og hafa síðan aldursröð innan
hvers kafla. Kemur þetta listaræna
„ferðalag um gjörvalla Þingvelli“
ágætlega út. Verk listamanna sem
mest unnu á svæðinu, eins og
Kjarvals og Ásgríms eru skiljanlega
áberandi. Elstu verkin eru frá 1883,
eftir Þóru Pétursdóttur Thorodd-
sen, og eftir aldamótin 1900 tóku
listamenn að streyma á staðinn og
túlka ólík sjónarhorn hans á margs-
konar vegu, allt frá rómantískri
túlkun frumherjanna að stórkostlgu
ljósmyndaverki og sannkölluðum
helgimyndabrjót Ragnars Kjartans-
sonar sem sýnir fáklæddar konur á
leiði Jónasar Hallgrímssonar. Svo
örfá og handahófskennd dæmi séu
tekin þá njóta verk fulltrúa veflistar
sín til að mynda vel, þeirra Herdís-
ar Tómasdóttur og Louise Harris,
pólitíkin í verkum Gylfa Gíslasonar
er athyglisverð, sprunguljósmynda-
röð Ólafs Elíassonar tilkomumikil
og skemmtilegt er að sjá ólíka
úrvinnslu Hreins Friðfinnssonar,
Kristins E. Hrafnssonar og Krist-
ínar Jónsdóttur frá Munkaþverá á
formi Þingvallavatns.
Sem eitt og ákveðið sjónarhorn
á íslenska listasögu er þetta mjög
athyglisvert úrval, að allt þetta
fólk hafi skapað svo margbreytileg
verk á sama staðnum er í raun
stórmerkilegt. Og hvernig öll reyna
að finna sinn vinkil, að beita sinni
aðferð á túlkunina á upplifunum og
hugsunum um sögulega mikil-
vægan staðinn, þann helgireit sem
Þingvellir vissulega eru þjóðinni.
Helgistaður hylltur, togaður og teygður
BÆKUR
EINAR FALUR
INGÓLFSSON
Myndlist
Þingvellir í íslenskri myndlist
Textar: Aðalsteinn Ingólfsson og Páll
Valsson. Ritnefnd: Sverrir Kristinsson,
Aðalsteinn Ingólfsson, Harpa Þórsdótt-
ir, Ólöf Kristín Sigurðardóttir og Æsa
Sigurjónsdóttir. Hönnun og umbrot:
Helga Gerður Magnúsdóttir.
Hið íslenska bókmenntafélag, 2022.
Innbundin í stóru broti, 375 bls.
Helgimyndabrjótur „Morgunn á Þingvöllum“ frá 2007 eftir Ragnar Kjartansson sást fyrst á einni plötu Megasar. Blankalogn Almannagjá, án ártals, eftir Gísla Jónsson (1878-1944).
ÞingvallamyndirMálverk eftir Brynjólf Þórðarson og Jón Stefánsson.
SÍÐUMÚLA 9, REYKJAVÍK • DALSHRAUNI 13, HAFNARFIRÐI • TRYGGVABRAUT 24, AKUREYRI • S: 560 8888 • vfs.is