Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 19
3. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 17
á sambýli og í kjölfarið langaði hann að fara í
sjúkraliðanám en áttaði sig fljótlega á því að hann
hefði ekki skrokk í að vera sjúkraliði. Hjúkrunarfræðin
býður upp á ótal möguleika í starfi og það varð úr,
eftir að hann byrjaði að vinna hérna á sjúkrahúsinu,
að hann dreif sig í hjúkrun,“ útskýrir hún.
Fæðing, kistulagning og bráðaaðgerð allt á
sömu vakt
Upplifir þú mikla pressu að vera eini svæfinga-
hjúkrunarfræðingurinn í fjórðungnum eða er álagið
sem því fylgir innan þolmarka? ,,Já, það er það. Líka
vegna þess að mér finnst við starfsfólkið hérna á
spítalanum vinna sem eitt teymi. Þess vegna upplifi
ég ekki að ég standi ein þótt ég sé ein með þessa
sérfræðiþekkingu. Það er góður starfsandi hérna hjá
okkur sem skiptir öllu máli á svona litlum stað. Ég er
stundum á sömu vaktinni að aðstoða við fæðingu,
þarf svo kannski að fara niður í líkhús og kistuleggja
og get síðan líka verið kölluð í aðgerð, allt sama
daginn. Starfið er því mjög fjölbreytt en ástæðan
fyrir því að við kistuleggjum hér er að það er engin
útfararþjónusta á Ísafirði. Ef ég væri að vinna á
stóru sjúkrahúsi væri ég ekki að vinna á skurðstofu,
legudeild, slysadeild og fæðingardeild. Mér finnst
frábært að fá að flakka á milli deilda og vinna
fjölbreytt hjúkrunarstörf, þótt ég sé bráðahjúkka í mér
finnst mér líka gaman að fá að fara á öldrunardeildina
og spjalla við gamla fólkið þar og sinna því.“
Sara segir að fyrir fram ákveðnar aðgerðir á sjúkra-
húsinu á Ísafirði séu um það bil hundrað á ári en
svo séu líka bráðaaðgerðir gerðar sem geta verið
fleiri eða færri en þær aðgerðir sem eru ákveðnar
fyrir fram. ,,Til dæmis voru fjórir keisarar gerðir hér
í febrúarmánuði árið 2020 sem er vanalega sá fjöldi
sem við gerum á ári þannig að þetta getur verið mjög
breytilegt,“ útskýrir hún.
Þá að veirunni sem setti allt á annan endann; hvernig
tókust þið á við kórónuveiruna, þegar ástandið var
sem verst? ,,Það var svolítið langt tímabil þar sem
við unnum í hópum svo smit myndi ekki dreifast út
fyrir hópana og engar fyrir fram ákveðnar aðgerðir
voru gerðar á þessu tímabili. Það eru allar einingar
hjá okkur svo litlar og það þarf svo fá smit til þess
að einingarnar verði óstarfhæfar. Til dæmis eru
bara þrír starfsmenn á rannsóknarstofunni og þrír
hjúkrunarfræðingar á skurðdeildinni og ef einn
starfsmaður smitast er stór hluti af deildinni frá.“
Draumastaða að hafa annan hjúkrunarfræðing
með sömu sérþekkingu
Sara segist vilja vera áfram á Ísafirði en að
draumastaðan væri ef það væri annar svæfinga-
hjúkrunarfræðingur við spítalann sem gæti unnið
á móti henni. ,,Ég myndi vilja vera í hlutastarfi á
Landspítalanum líka, þegar ég byrjaði var ég það
og fór þá í tvær vikur í senn annan hvern mánuð á
Landspítalann sem gerði mér gott sem fagmanneskju.
Ég finn að mig vantar að vinna með öðrum
svæfingahjúkrunarfræðingum til að þróast í starfi því
það er mikil þróun í lyfjum og öðru sem ég næ illa að
fylgjast með þegar ég er ein. Ég samt í góðu sambandi
við aðra svæfingahjúkrunarfræðinga á LSH sem ég
get alltaf leitað til. Gott bakland er mikils virði og ég
er vel sett að því leytinu til. Skurðlæknirinn hérna á
Ísafirði var lengi deildarlæknir á svæfingu og það er
mikið öryggi fyrir mig að hafa hann og hans þekkingu
að leita í. Ég fékk líka að ráða hjúkrunarfræðing í
hlutastarf sem er mér til aðstoðar á skurðstofunni því
það getur verið erfitt að vera ein við vissar aðstæður.
Skurðhjúkrunarfræðingarnir hérna eru mér líka
innan handar því þær hafa ákveðna þekkingu þegar
kemur að svæfingum. Ég held að á flestum minni
sjúkrahúsum sé þetta oft þannig að fagfólkið hefur
breiðari þekkingu og starfar á fleiri en einni deild
eins og ég geri sem gerir starfið mjög fjölbreytt og
skemmtilegt.“
Ef þú ætlaðir að mennta þig meira innan hjúkrunar,
hvaða nám myndir þú velja og hvers vegna? ,,Ég
myndi velja gjörgæsluhjúkrun. Mér finnst það vera
mjög rökrétt framhald af því sem ég er búin að læra.
Gjörgæsluhjúkrun er líka mjög gagnlegt nám og góð
þekking að hafa þegar maður starfar úti á landi,
þótt vissulega sé ekki gjörgæsla hér, því við höfum
hvorki fagfólk né tæki til þess, þá þurfum við oft að
geta sinnt okkar sjúklingum á meðan við bíðum eftir
flutningi á Landspítala, eða í einstaka tilfellum á
Sjúkrahúsið á Akureyri,“ segir hún að endingu og við
kveðjumst enda liðið á daginn og Sara þarf að komast
heim eftir langa vakt.
Viðtal