Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Qupperneq 21
3. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 19
þá fær hann ekkert að gera fyrr en hann hefur verið
tékkaður af með hjúkrunarkennara sem sér um
gæðaeftirlit. Þetta á líka við um einföldustu verk eins
og að setja upp nál eða þvaglegg. Þegar tekið er á
móti nýjum sjúklingi þarf svo að fara í gegnum fimm
til tíu tékklista og það er strangt að því sé fylgt eftir.
En hérna eru engir sjúkraliðar á bráðamóttökum
og varla innan spítalans þannig að við göngum í
öll þau störf líka. Á móti kemur að það eru færri
sjúklingar á hvern hjúkrunarfræðing, þeir halda fast
í þau mönnunarviðmið sem hér eru og til að mynda
er einn hjúkrunarfræðingur á hverja fjóra sjúklinga
á almenna svæðinu á bráðamótttökunni. Það er
einn hjúkrunarfræðingur með einn til tvo sjúklinga í
endurlífgunarherbergjum og hver hjúkrunarfræðingur
er með fjóra til sex sjúklinga á skammverueiningu.
Teymisvinna er mikilvæg og við hjálpumst mikið að
hérna á bráðamóttökunni.
Mönnunarviðmiðin númer eitt, tvö og þrjú
Gunnar segir að helsti kosturinn við heilbrigðiskerfið í
Ástralíu sé sá að almenna kerfið sé algjörlega ókeypis.
,,Ég hef persónulega þurft að nota heilbrigðiskerfið
hérna og hef ekki borgað krónu fyrir. Hérna er líka
blandað kerfi þannig að einkageirinn tekur vissan
þunga af almenna kerfinu, þannig náum við oft
að leggja sjúklinga beint inn á einkaspítalann af
bráðamóttökunni sem hjálpar heilmikið til þegar
spítalinn er sprunginn. Þetta var okkur mikil hjálp
þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst.“ Hann
segir að starfsfólkið sé vel menntað og þjálfað,
tækjabúnaðurinn sé til fyrirmyndar, (að minnsta kosti
á stóru sjúkrahúsunum), og flæðið tiltölulega gott.
,,Verkferlar eru skilvirkir og rík áhersla er lögð á öryggi
sjúklinga, eins og til að mynda byltuvarnir, smitvarnir,
meðhöndlun ofbeldisfullra sjúklinga og þar fram eftir
götunum.
Ókostirnir eru að hérna er almennum hjúkrunar-
fræðingum ekki veitt jafnmikið frelsi til að beita
klínískri þekkingu eins og heima á Íslandi. Öll almenn
hjúkrunarstörf eru fast bundin í nákvæma verkferla,
án svigrúms til að beita klínískri þekkingu. Til dæmis
ef sjúklingur er með brjóstverk þá er strax kallað til
viðbragsteymi, eins ef púls fer upp í 122 í nokkrar
sekúndur þá er strax kallað til endurlífgunarteymi.
Annað sem ég hef tekið eftir er að það virðist sem
nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar hérna hafi ekki
hafa mikla verklega þekkingu þótt sú bóklega sé
mikil. Þetta skapar verulegt óöryggi,“ segir hann.
En telur Gunnar að við Íslendingar ættum að taka
okkur eitthvað til fyrirmyndar þegar kemur að
heilbrigðisþjónustu og störfum hjúkrunarfræðinga
í Ástralíu? ,,Já, ef ég á að nefna eitthvað þá eru það
mönnunarviðmiðin númer eitt, tvö og þrjú,“ svarar
Gunnar án umhugsunar. ,,Launin hérna eru svipuð
og á Íslandi og jafnvel mun lægri en á móti kemur að
starfsánægjan virðist vera meiri hérna. Það er vegna
þess að starfsfólkið er ekki eins útkeyrt eftir vaktirnar
því það heldur yfirleitt sama sjúklingafjölda gegnum
vaktirnar sem gefur því meiri tíma til að klára þau
verk sem þarf að klára. Það er gríðarlegur munur
þegar við erum tveir hjúkrunarfræðingar, ásamt
hópstjóra með aðeins átta sjúklinga, fá að halda þeim
fjölda og passa vel upp á að allir komist í matartíma
á réttum tíma og fái viðeigandi aðstoð á vaktinni. Og
það má bæta því við að hérna er starfsfólkið ekki að
keyra sig út á aukavöktum.“
,,Launin hérna
eru svipuð og á
Íslandi og jafnvel
mun lægri en á
móti kemur að
starfsánægjan
virðist vera meiri
hérna. Það er
vegna þess að
starfsfólkið er
ekki eins útkeyrt
eftir vaktirnar …“