Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 56
54 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 3. tbl. 97. árg. 2021
Eigindlegar rannsóknir – Áhrif á líkamlega og
sálfélagslega líðan
Í öllum þremur eigindlegu rannsóknunum voru skoðuð viðhorf
einstaklinga til veittrar dansmeðferðar og sálfélagslegrar
líðanar eftir dansmeðferð. Notast var við hálfstöðluð viðtöl
sem greind voru með efnisgreiningu (Beerenbrock o.fl., 2020),
hálfstöðluð viðtöl og þemagreiningu með notkun Nvivo
(Kunkel o.fl., 2018) og grundaða kenningu (Rocha o.fl., 2017).
Í rannsókn Beerenbrock og félaga (2020) tóku einstaklingar
með PS þátt í vikulegum 1,5 klukkustunda danstíma með
argentínskan tangó, alls 15 klukkustundir. Inngripið fól í
sér upphitun og gerðar voru æfingar með því markmiði að
efla samhæfingu hreyfinga og örva vitræna getu. Áhersla
var lögð á að draga athygli frá eigin sjúkdómsástandi. Áhrif
dansmeðferðar var skipt í: (1) Líkamsvitund, (2) Upplifun
á hreyfigetu, (3) Tilfinningaleg líðan, (4) Tilfinningar í garð
eigin líkama, (5) Tilfinningar varðandi sjúkdómsástand og (6)
Öryggi við göngulag. Einstaklingar með PS upplifðu minni
líkamlega þreytu, kvíða, skömm og vonbrigði gagnvart sjálfum
sér eftir meðferðina. Jafnframt jókst gleði, stolt, forvitni og
áhugi á þátttöku. Áhrif þess að dansa hafði jákvæð áhrif á
líkamsvitund, stjórn á eigin líkama og sálfélagslega líðan.
Jafnframt tóku dansfélagar eftir jákvæðum breytingum á
líkamlegri líðan hjá dansfélögum sínum með PS.
Í rannsókn frá Kunkel og félögum (2018) var boðið upp á
blandaðan dans í klukkustundar danstíma í senn, tvisvar í
viku, í alls 20 klukkustundir. Síðan var rætt við þátttakendur
um viðhorf þeirra. Niðurstöðum var skipt í fjóra flokka:
(1) Viðhorf til þess að dansa við maka eða sjálfboðaliða,
(2) Áskoranir/erfiðleikar sem tengjast dansmeðferð, (3)
Upplifun á því að vera dansfélagi og (4) Viðhorf til þess að
halda dansmeðferð áfram. Einstaklingar með PS upplifðu
aukna ánægju ef þeir þekktu dansfélaga sinn eða ef þeim
líkaði við hann. Karlmönnum sem tóku þátt þótti sérstaklega
erfitt að geta ekki leitt dansinn. Dansfélagar sem tóku þátt
nutu félagslegu samskiptanna og þótti ánægjulegast að
geta dansað við maka eða aðstandendur. Ef dansað var við
sjálfboðaliða var mikilvægt að sá aðili hefði reynslu í dansi,
sýndi einlægan áhuga á dansinum og væri félagslega fær.
Mikilvægt var einnig að fá aðstoð við að komast á vettvang
og hafa gott bílastæðaaðgengi. Sú rannsókn er sú eina
þar sem tekið var fram hver upplifun þátttakenda var af
danskennurum. Mikilvægt var að danskennarinn þekkti
einkenni PS.
Í síðustu eigindlegu rannsókninni söfnuðu Rocha og
félagar (2017) upplýsingum í gegnum spjallþráð um dans
á netinu hjá einstaklingum með PS sem höfðu tekið þátt í
dansmeðferð í óskilgreindan tíma. Niðurstöðunum var skipt
í fjóra flokka sem ná yfir atriði sem þarf að taka tillit til þegar
verið er að skipuleggja skilvirka dansmeðferð: (1) Tillit til
sjúkdómsstigs, (2) Fjölbreytt áhrif dansmeðferðar, (3) Vandað
val á tónlist og (4) Valdar fýsilegar leiðir til danshreyfinga.
Niðurstöður vörpuðu ljósi á mikilvægi þess að huga vel að
sjúkdómsstigi og hreyfigetu þátttakenda þegar dansmeðferð
er útfærð. Mikilvægt er einnig að vanda val á tónlist, til að
mynda hvað varðar hraða, svo meðferðin verði fýsileg og
hvetjandi. Einstaklingum með væg til miðlungs alvarleg
sjúkdómseinkenni fannst óhentugt að vera í danstíma með
einstaklingum sem voru með langt genginn PS. Meðferðin
hafði víðtæk jákvæð áhrif á sálfélagslega líðan. Sterkur taktur
í tónlistinni hjálpaði þegar einstaklingar upplifðu tilhneigingu
til þess að ,,frjósa“ og þótti þeim kunnugleg tónlist vera
hvetjandi. Tónlist með texta gat truflað vegna þess að athygli
fór frá framkvæmd hreyfinga. Einnig kom fram mikilvægi
þess að danskennari væri með sérþekkingu á PS og að góður
dansfélaga væri mikilvægur til að halda jafnvægi og auka
öryggistilfinningu.
Fýsileikarannsóknir – Hjálplegir þættir og
áskoranir
Í fýsileikarannsóknunum sex voru teknar út upplýsingar
varðandi hvetjandi og hindrandi þætti sem tengdust
dansmeðferð.
Hjálplegir þættir
Ein rannsókn tók fram að við útfærslu dansmeðferðar þurfti
að tryggja að þátttakendur myndu dansa bæði sem leiðendur
og sem fylgjendur og að slík skipting skilaði ávinningi (Seidler
o.fl., 2017). Rannsóknir Michels og félaga (2018) og Rocha og
félaga (2018) lýstu því að jafnvel stutt dansmeðferð var álitin
ánægjuleg og örugg. Allir þátttakendur sögðust mæla með
meðferðinni fyrir aðra einstaklinga með PS og aðstandendur
þeirra og að ánægja sem þátttakendur upplifðu við að dansa
var hjálplegur þáttur fyrir meðferðarheldni almennt.
Af þremur rannsóknum sem könnuðu fýsileika heimaæfinga
samhliða hópæfingum voru myndbandsupptökur notaðar
til stuðnings við heimaæfingar. Ein rannsóknin lýsti góðri
meðferðarheldni við heimaæfingar, auk þess að þátttakendur
greindu frá því að sambland af hóp- og heimaæfingum
hafi komið sér vel (Rocha o.fl., 2018). Meðferðarheldni
jókst ef skilaboð af einhverju tagi voru send til að minna
á æfingarnar (Shanahan o.fl., 2017). Gagnlegt var að hafa
dansæfingar heima en þær virðast ekki geta komið fyllilega
í staðinn fyrir dansmeðferð á vettvangi. Sérstakur kostur
við heimadansæfingar var minni kostnaður við útfærslu
(Albani o.fl., 2019). Ein rannsóknanna fjallaði sérstaklega um
útfærslu dansmeðferðar með fjarfundarbúnaði, en þar tóku
skjólstæðingar þátt í hópmeðferð í gegnum Internetið sem
leidd var af danskennara (Seidler o.fl., 2017). Rannsóknin gaf
til kynna að notkun fjarfundarbúnaðar væri fýsileg og með
slíkum búnaði væri jafnvel hægt að bæta félagslega virkni ef
það væri skipulagt á réttan hátt.
Allar rannsóknirnar unnu með tónlist samfara dansmeðferð
og ávallt var notast við taktfasta tónlist af einhverju tagi.
Þátttakendum fannst hjálplegt að dansinn væri taktfastur,
orkumikill og félagslegur. Aðeins þrjár þeirra tóku hins vegar
fram að tónlist sem spiluð er í dansmeðferð geti ein og sér
haft jákvæð áhrif á einkenni PS, auk þess að hjálplegt sé að
velja viðeigandi tónlist fyrir þátttakendur (Albani o.fl., 2019;
Rocha o.fl., 2018; Shanahan o.fl., 2017). Í rannsókn Shanahan
og félaga (2017) og rannsókn Solla og félaga (2019) lýstu
þátttakendur að það hefði verið hjálplegt að fylgjast með
danssporum annarra til að læra og þora að stíga skrefin sjálfir.
Eina rannsóknin sem tók saman kostnað við framkvæmd
dansmeðferðarinnar var hjá Rocha og félögum (2018) en þar
var bent á að meðferð sem fól í sér vikulegan tíma, auk 40
mínútna vikulegra heimaæfinga yfir átta vikur kostaði samtals
það sem nemur um 30.000 ISK á hvern þátttakenda.
Dansmeðferð til að efla hreyfingu, vitræna færni og sálfélagslega líðan hjá einstaklingum með parkinsonssjúkdóm