Bændablaðið - 02.11.2023, Síða 6

Bændablaðið - 02.11.2023, Síða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 2. nóvember 2023 Í upphafi þessa pistils vil ég nota tækifærið og þakka Jóhönnu Lúðvíksdóttur hjartanlega fyrir samstarfið síðustu ár, en Jóhanna hefur starfað hjá Bændasamtökunum síðastliðin 35 ár og verður mikil eftirsjá af henni enda hefur hún reynst bændasamfélaginu mikill akkur í gegnum árin. Í landbúnaði starfa bændur við margvíslegar reglur sem lúta að þeirra starfi og starfsumhverfi. Þar er löggjafinn með til viðmiðunar leikreglur sem settar eru af Evrópusambandinu sem skiptir landbúnaði upp í þrjú svæði, suðursvæði, miðsvæði og norðursvæði. Mismunandi leikreglur eru fyrir hvert svæði fyrir sig á grundvelli hvað má og hvað ekki má við framleiðslu afurða. Þar virðist engu skipta hollustuhættir við notkun sýklalyfja, hormóna eða varnarefna gagnvart neytendum. Ef horft er til Íslands, þar sem við erum skilgreint norðursvæði í skilningi Evrópusambandsins, þá höfum við sem þjóð alveg gleymt því að nýta sérstöðu landsins fyrir þær undanþágur sem okkur sem þjóð auðnast til frelsis, athafna og sjálfstæðis. Íslenskar landbúnaðarvörur eru með þeim heilnæmustu í heimi sem framleiddar eru hér á landi og það er staðfest af Evrópsku lyfjastofnuninni. Á meðan er ekkert lát á óhóflegri notkun sýklalyfja í evrópskum landbúnaði sem leitt hefur til ört vaxandi aukningar sýklalyfjaónæmra baktería sem berast í fólk. Þrátt fyrir að vera „best í bekknum“, eru nú blikur á lofti um framtíðina þar sem afkoma í frumframleiðslunni er undir. Það er ekki okkur til framdráttar sem þjóð að láta okkar heilnæmu og hollu afurðir renna okkur úr greipum, því það sem við missum á framleiðslugrunni í dag verður ekki aftur náð svo hæglega. Mikill og góður baráttufundur var haldinn á miðvikudaginn 26. október síðastliðinn í Salnum í Kópavogi að frumkvæði Samtaka ungra bænda. Fjölmenni sótti fundinn þar sem hlýtt var á erindi frá ungum bændum sem lýstu stöðunni í raunheimum. Því líkt og ítrekað hefur verið bent á þá er afkomuvandinn okkar stærsta verkefni bæði gagnvart nýliðun og ekki síður hjá starfandi bændum hvar sem þeir eru í framleiðslu í öllum greinum landbúnaðar. Þess vegna er það svo gríðarlega mikilvægt að þingmenn og sveitarstjórnarfólk sýni landbúnaðinum, einni af undirstöðuatvinnugrein íslenskrar þjóðar, meiri athygli og áhuga. Því allt sem viðkemur starfsskilyrðum landbúnaðarins eru jú mannanna verk sem mögulegt er að lagfæra eða færa til betri vegar. Þar er af mörgu að taka, líkt og ég kom að í upphafi, svo sem eins og einföldun regluverks sem nýtist okkur hér á norðursvæði Evrópu. Stefnum ótrauð áfram að tæknivæðingu og nákvæmnisbúskap með því að nýta okkur tæknina, m.a. til framfara í eftirliti. Hvers vegna má ekki endurnýta örmerki á Íslandi þar sem við sendum ekki gripi í sláturhús þvert yfir landamæri? Er það bara af því að Evrópusambandið segir nei? Eða gleymdist að óska eftir undanþágu þegar málið var rætt á meðal jakkafataklæddu mannanna í Brussel? Svo kemur skilningur ESA að breyta þurfi reglugerð um blóðmerahald, sem þegar var búið að breyta nýlega og átti að gilda til 2026. Frá og með 1. nóvember er reglunum breytt og engar leiðbeiningar um hvað verður, hvorki frá ráðuneytinu né eftirlitsstofnuninni. Erum við virkilega búin að framselja svo mikið af fullveldinu að við þurfum að spyrja lögfræðingana í Brussel hvað við megum gera og hvað ekki? Í hvers hlut kemur það þá að gæta hagsmuna Íslands og norðurhéraða innan Evrópu með fullnægjandi og kröftugum hætti? Önnur ríki virðast ná að setja inn ýmiss konar fyrirvara og stefnur á grunni dreifðra byggða og erfiðra aðstæðna, allt til þess að gæta að og tryggja starfsskilyrði þeirra atvinnugreina sem stundaðar eru innan þeirra landamæra. LEIÐARI Mínus Fæðuöryggi er einn af hornsteinum þjóðaröryggis, segir Johan Åberg hér í tölublaðinu en hann er fulltrúi finnsku bændasamtakanna í Neyðarbirgðastofnun finnska ríkisins. Þar í landi eru alltaf á öllum tímum til neyðarbirgðir af fæðu, orku, lyfjum, lækningavörum og öllu því sem þarf til að halda samfélaginu gangandi í níu mánuði ef allar aðfangakeðjur lokast. Aðrar þjóðir líta nú til finnska kerfisins enda eru margar þjóðir að átta sig á að þær hefðu kannski ekki átt að leggja niður sínar neyðarbirgðastöðvar. Á Íslandi er engin neyðarbirgðastofnun en vinna við að greina nauðsynlegar birgðir og meta stöðu þeirra liggur nú hjá ráðuneytum í framhaldi af útgáfu skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir sem kom út síðasta haust. Þeirri vinnu átti að ljúka á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en lítið hefur heyrst um framgang þeirrar vinnu. Á meðan eru ekki gildandi nein stjórnvaldsfyrirmæli um lágmarksbirgðir matvæla eða aðfanga til matvælaframleiðslu í landinu. Hér eru birgðir af matvælum sem liggja hjá framleiðendum, afurðastöðvum, innflytjendum, verslunum og neytendum. Í þessu samhengi er þó eitt deginum ljósara; hér mun aldrei ríkja neitt fæðuöryggi ef við höfum ekki frumframleiðendur matvæla. Landbúnaður er ein af grunnstoðum samfélagsins, rétt eins og heilbrigðis- og skólakerfið. Hlutverk þess er að stuðla að sjálfbærni landsins, styrkja áfallaþol samfélagsins og viðhalda matvælaöryggi. Bændur þjóna því veigamikla hlutverki að byggja undir grunn þjóðaröryggis í landinu. Það er skrítið að meginstoðum samfélagsins sé haldið uppi með láglaunastörfum. Starf bónda, kennara og sjúkraliða eiga það sameiginlegt að vera illa borgaðar stöður sem ekkert samfélag kemst samt af án. Þjóð er ekkert án menntakerfis, við lifum vart án heilbrigðiskerfis, enginn kemst af án matar. Það sem skilur að fyrrnefndar starfsstéttir, kennarann og sjúkraliðann annars vegar og bóndann hins vegar, er að þær fyrrnefndu geta og hafa barist fyrir sínum kaupmætti reglulega í gegnum kjarasamninga. Samningar ríkis við bændur eru hins vegar, eins og Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við LbhÍ og bóndi, bendir á hér í blaðinu, bundnir til langs tíma og taka ekki mið af sveiflum í kostnaði við framleiðslu búvara. Bændur hafa enga tryggingu fyrir stöðugum kaupmætti, heldur þurfa þeir að taka af launum sínum neikvæða þróun allra helstu kostnaðarliða. Enda sýna tölur Bændasamtaka Íslands að meðalmánaðarlaun bænda með búfé er fyrir neðan núllið. Bóndinn sem útvegaði þér lambalærið í fyrra krækti sér í skuldir fyrir ómakið, fékk mínus 35.000 krónur í mánaðarlaun. Það sama má segja um bóndann sem skaffaði í hamborgarann, hann borgaði einnig með sér og fékk mínus 366.000 krónur í mánaðarlaun. Ríkisstjórnin ákvað að koma á fót starfshópi þriggja ráðuneytisstjóra til að leggja mat á stöðu landbúnaðar í framhaldi af neyðarfundi sem Bændasamtökin boðuðu með matvælaráðherra og fjármálaráðherra fyrir tveimur vikum. Ekki fylgir tilkynningu hvenær niðurstöðu er að vænta, hvort það verði innan einhverra vikna eða mánaða. Á meðan munu bændur halda áfram sínu góðgerðarstarfi og framleiða mat fyrir þjóðina á eigin kostnað. Ráðuneytisstjórarnir munu varla sætta sig við að borga tímakaupið sitt úr eigin vasa eins og bændur eru að gera. Og á meðan við bíðum hriktir í stoðum fæðuöryggis þjóðarinnar. Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri. Starfsumhverfi Kornskurður á Búlandi í Austur-Landeyjum haustið 1981. Mynd sem birtist í þriðja tölublaði Freys árið 1982. Þar er grein sem segir frá sjö bændum í Austur-Landeyjum sem tóku sig saman um að rækta korn á alls ellefu hekturum. Meðaluppskeran var yfir ellefu tunnur (hkg) á hektarann. Þetta framtak þótti merki um þá sókn sem átti sér stað í kornrækt á þessum árum. „Þótt þráðurinn hafi ekki slitnað um áratuga skeið í íslenskri kornrækt verður að segja að litlu hafi mátt muna að svo færi,“ skrifar Matthías Eggertsson, höfundur greinarinnar og ljósmyndarinn. Hann var einn ritstjóra Freys. /ÁL GAMLA MYNDIN Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands gunnar@bondi.is Bændablaðið kemur út 23 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins. Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti gegn greiðslu burðargjalds. Árgangurinn (23. tölublöð) kostar þá kr. 14.900 með vsk. Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar kr. 11.900 með vsk. Heimilisfang: Bændablaðið, Borgartún 25, 4. hæð - 105 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Kt: 631294-2279 Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar − Ritstjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir (ábm.) gudrunhulda@bondi.is – Sími: 563 0300 – Blaðamenn: – Ástvaldur Lárusson astvaldur@bondi.is – Hulda Finnsdóttir hulda@bondi.is Sigrún Pétursdóttir sigrunpeturs@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Steinunn Ásmundsdóttir steinunn@bondi.is Auglýsingastjóri: Þórdís Una Gunnarsdóttir thordis@bondi.is – Sími: 866 3855 Netfang auglýsinga: thordis@bondi.is − Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Frágangur fyrir prentun: Sigrún Pétursdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: 33.000 – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.