Goðasteinn - 01.03.1969, Blaðsíða 30
Haustið 1870 var bústofninn 2 kýr, 9 ær, 9 sauðir og 8 lömb, en
þá voru börnin orðin fjögur, það elzta 8 ára en það yngsta þriggja.
Til að afla fæðis handa fjölskyldunni, réð Jón sig til róðra í
Suðursveit á vertíðinni og stundaði veiðar í Ingólfshöfða að sumr-
inu. Þá var háfur óþekktur hér við fuglaveiði; aðalveiðitækið var
snara og veðin því oftast heldur lítil, eða eftir því sem Jón sagði
síðar um 25 langvíur í hlut á viku að meðaltali. Þegar frá leið,
fékk Jón þó þrjá hluti, því hann varð aðalsigmaðurinn í Ingólfs-
höfða og átti sjálfur festina. Þau hjón höfðu því oftast nægilegan
mat, en feitmetið var oft af skornum skammti.
Eitt árið, þegar elztu börnin voru farin að fylgja móður sinni
cftir, begar hún gekk um bæinn, átti hún ekki annað feitmeti
en lýsislögg í gömlum selsmaga, þegar leið að jólum. Kýrin, sem
hafði orðið þurr með jólaföstu, átti ckki að bera fyrr en eftir jól
og hamingjan mátti vita, nema hún kynni að standa allt að hálfan
mánuð fram yfir, en kvíga, sem Jórunn taldi kýrefni, átti ekki að
bera fyrr en á góu. Nágrannarnir voru ekki aflögufærir, þótt grann-
konurnar gæfu börnunum raunar mjólk öðru hvoru. Jórunn þorði
því ekki að taka af lýsinu til ljósa, því hún vissi, að börnunum var
nauðsynlegt að fá það til viðbits í mjólkurleysinu, og sat í myrkri
um skammdegið, og má nærri geta, að kvöldin hafa stundum verið
lengi að líða.
Á aðfangadag jóla, þegar dimma tók, fór Jórunn upp í Kot með
börn sín (nærri 5 mín. gang) til Karólínu Oddsdóttur, sem gat
látið eftir sér að kveikja ljós á kvöldin, þó efnin væru ekki mikil,
en Jórunni fannst hún verða að leyfa börnunum að sjá ljós þetta
kvöld.
Karólína tók þeim vel, og þegar þau fóru heim, voru börnin í
sjöunda himni yfir þeirri dýrð, sem þau höfðu séð og fengið, en
það var ljós á lýsislampa og svolítið tólgarkerti, sem Karólína gaf
þeim.
Þegar þau komu heim, var kýrin búin að taka kálfssóttina, og
um það leyti, sem jólin gengu í garð, var Jórunn búin að mjólka
hátt í skjólu af broddi úr kúnni. Þá loksins taldi hún óhætt að nota
lýsið sem eftir var til ljósa, og við ljósið á fífukveiknum á lýsis-
lampanum höfðu þau sannarlega gleðileg jól.
28
Goðasteinn