Goðasteinn - 01.03.1970, Blaðsíða 10
sneri upp og fram. Timburþil var á mótum bæjardyra og eldhúss.
Frá því lá timburstokkur inn að hlóðunum, nefndur undirblástur.
Hann var með loku, sem hægt var að stilla eftir þörfum. Hlóð-
irnar voru á vinstri hönd, út við vegg, er inn var komið, og voru
með tveimur eldstæðum. Hlóðasteinar voru notaðir undir pottana,
fyrst, er ég man frá að segja, en síðar voru smíðaðir þrífætur úr
járni í stað þeirra. Taðstál var sérstakt hús austur frá eldhúsi.
Norðan við skemmuna var fjósið, 14 kúa, fyrst með grjótflór,
síðar með timburflór. Hjá fjósinu var kofi, sem notaður var sem
taðhús að sumri og framan af vetri en síðan sem tryppakofi.
Hjallur var austastur húsa, með torfveggjum og rimlaþili í bak
og fyrir. Þar voru geymdir ýmsir búshlutir, reipi og fleira.
Norðan við bæinn var heygarður með nokkrum heystæðum.
Þar var sett í stóra samfellu á hverju sumri.
HVERSDAGSSTÖRFIN
Sjaldan voru færri í heimili í Hala en 17-20 manns, svo mikils
þurfti við í aðdráttum og vinnu. Vinnuskipting var hjá konum
frá hausti og fram að vetrarvertíð. I eldhúsi var þá skipzt á með
vinnu. Engin kona var þá nema eina viku í mánuði í eldhúsi og
kom þá viku ekki nærri mjöltum. Með vertíð tók Jóhanna móður-
systir ein við eldhúsverkum og annaðist þau fram að hausti.
Konur urðu að taka að sér gegningar um vertíð, og voryrkjur og
sláttur gáfu þeim nóg að starfa fram eftir sumrinu.
Eftir réttir, þegar búið var að slátra, fóru karlmenn að raka
gærurnar en kvenfólkið að undirbúa tóvinnuna. Vanalega voru
átta rokkar að verki á gólfinu, framan af vetri, kvöld og morgna.
Gömul heimiliskona, Margrét Brandsdóttir frá Parti, vann alla
sjóvettlinga. Á útmánuðum vann hún í og prjónaði togsokka, sem
voru notaðir sem engjasokkar. Vatnið hripaði fljótt úr þeim, og
því þóttu þeir hlýrri og að öllu betri en þelsokkar.
Þórunn systir mín fór út á Eyrarbakka 1892 til að læra að
prjóna á prjónavél. Valgerður Gísladóttir kenndi henni það í
kaupmannshúsinu. Þá kom prjónavél á heimili okkar. Á hana
var prjónað flest, sem heimilið þurfti á að halda og ákaflega
mikið fyrir heimili úr nágrannabyggðum, allt austan úr Land-
8
Goðasteinn