Goðasteinn - 01.03.1970, Blaðsíða 47
Vík, ef álíka jökulhlaup og 1918 kæmi í hvassri suðaustanátt og
stórbrimi. Gæti það valdið miklum skaða á húsum og öðrum
mannvirkjum. Reynslan hefir kennt, að víða er þörf að standa
vel á verði. Læt ég svo þessum þönkum um Kötlu lokið.
Að miðsvetrarblóti
Nú lengir daginn, vetrarskuggar víkja,
vorið nálgast, kætist hugur manna.
Komum því saman, gleðjumst meðal granna,
glaðværð og fögnuð látum með oss ríkja.
Bros er á vör og borð und krásum svigna,
bjartir tónar líða um salarkynni.
Glösum er klingt og drukkin manna minni,
máttugan Bakkus flestir vilja tigna.
í ríki hans er sífellt gleði og glaumur,
þar glymur hlátur, þar er líf og fjör.
Þar verður lundin aftur ung og ör,
allt sýnist bjart og glatt sem fagur draumur.
En oft verða brautir óljósar og hálar,
ýmislegt reynist hverfult, gleðin dvín.
Ekki er allt gull, sem glóir bjart og skín,
grátur og hlátur fylla sömu skálar.
Njótum þó lífsins, meðan tíminn tefst,
treystum og styrkjum vináttunnar bönd.
Fram undan rísa sólgyllt sumarlönd,
syngjum og dönsum, blessum stund sem gefst.
J. R. H.
Goðasteinn
45